138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:27]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. nefndarformanni framsöguna og mun fjalla nánar um efni ræðu hans á morgun. Þó er eitt atriði sem ég hefði áhuga á að spyrja út í. Hann kom inn á umræðu um einkavæðingu bankanna, hvort hefði átt að rannsaka hana enn á ný. Fulltrúar Framsóknarflokksins í nefndinni vildu þar ganga lengst, töldu sig vera komna með allar þær upplýsingar sem þyrfti til að lýsa yfir mjög harðri gagnrýni á það hvernig staðið var að því, enda kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis að búið er að kanna það mál í þaula. (Gripið fram í: Nei.) Telji menn hins vegar að það eigi að kanna (Gripið fram í: Rangt.) betur, að ekki séu komnar fram allar þær upplýsingar þannig að menn geti lýst yfir tiltekinni niðurstöðu í málinu, er alveg sjálfsagt mál að rannsaka það enn og aftur. Og þá munum við að sjálfsögðu styðja það. Og ef það má verða til þess að hjálpa hæstv. forsætisráðherra og flokki hans að komast í gegnum umræðuna nú, að rannsaka enn og aftur atburði liðinna ára (Forseti hringir.) eða áratuga, er sjálfsagt mál að styðja það. Það sem ég vildi þó spyrja hv. nefndarformann um er hvort hann sé ekki sammála mér um að rannsóknirnar eigi að vera til þess gerðar að bæta (Forseti hringir.) vinnubrögð í framtíðinni, en ekki að dreifa pólitískri athygli.