138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:30]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég skil vel afstöðu hv. nefndarformanns enda verkefni nefndarinnar fyrst og fremst að kanna það sem olli hruninu. Og eins og kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er ýmislegt annað sem hefur gerst í samfélaginu á liðnum árum og áratugum sem væri kannski áhugavert að skoða og einkavæðing bankanna er eitt af því.

Nú geri ég ráð fyrir að einhvern tímann aftur verði fyrirtæki einkavædd og þá er gagnlegt að hafa sem mestar og bestar upplýsingar um það hvað getur farið úrskeiðis í slíku ferli og hvernig best er að standa að því. Um leið og við rannsökum enn á ný einkavæðingu bankanna á sínum tíma væri að sjálfsögðu tilvalið að rannsaka líka það sem aldrei hefur verið rannsakað sem er seinni einkavæðing bankanna. Þar er mjög mörgum spurningum ósvarað.

Væntanlega getum við þá sammælst um að setja saman nefnd til að fara í rannsókn á einkavæðingarferli, hvernig að því er staðið og hvernig best megi gera það.