138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:40]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir þakkir formanns nefndarinnar, hv. þm. Atla Gíslasonar, til samnefndarmanna minna í þingmannanefndinni. Þetta hefur verið mikil vinna, langir dagar, mikill lærdómur sem við höfum öll fengið út úr því að hafa setið í þessari nefnd og fengið það hlutverk að móta tillögu að viðbrögðum Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Hlutverk okkar litaðist að sjálfsögðu af efni og því uppleggi sem rannsóknarnefnd Alþingis var falið með lögunum sem sett voru um þá nefnd árið 2008. En verkefni rannsóknarnefndarinnar voru helst þau að leita sannleikans um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna og tengdra atburða og það hvort rekja mætti vandann til innlendra aðstæðna eða hvort íslenskt samfélag væri fórnarlamb alþjóðlegrar fjármálakreppu.

Rannsóknarnefndinni var falið að kanna hvort ríkisvaldinu hefði á einhvern hátt brugðist bogalistin og leggja fram skýrslu um það. Þegar ákveðið var að fara af stað í þessa vinnu varðandi rannsóknarnefndina var ekki farin sú leið sem 39. gr. stjórnarskrárinnar býður upp á að búa til sérstaka þingmannanefnd til að gera rannsóknina heldur var talið rétt að skipa rannsóknarnefnd sérfræðinga til að gera það. Fimm meginmarkmið voru með þessari vinnu: Allar upplýsingar kæmu fram varðandi málið og álit sérfræðinga á ástæðum áfallanna. Þá var mjög mikilvægt talið, eitt af fimm meginatriðunum, að tryggja að málsmeðferðin yrði réttlát í garð þeirra sem mundu sæta rannsókn. Það var talið mjög mikilvægt að nefndarmenn í rannsóknarnefnd Alþingis væru sjálfstæðir og óháðir. Það var mikilvægt að rannsókninni yrði hraðað eftir föngum og mikilvægt að tryggja að niðurstaða mundi fá einhverja meðferð.

Í upphaflegu lögunum var gert ráð fyrir því að forseta Alþingis og formönnum þingflokka yrði falið að vinna úr niðurstöðum rannsóknarnefndar Alþingis. Því var breytt í þinginu rétt fyrir áramótin síðustu þar sem lagt var upp með að í stað þess að þingflokksformenn og forsetar Alþingis færu með þetta verkefni yrði kosin nefnd 9 þingmanna til að fara yfir skýrsluna. Verkefni þingmannanefndarinnar eru greind í lögunum og er fjallað um þau í 15. gr. laganna og jafnframt er ítarlegt nefndarálit sem fjallar um verkefni þingmannanefndarinnar. Í nefndarálitinu, sem fylgdi lagabreytingunni, var ljóst að þingheimur taldi verkefnið umfangsmikið og vandasamt og að það félli undir eftirlitshlutverk þingsins sem engin fastanefnd hefur með höndum miðað við núverandi skipulag þingsins.

Viðfangsefni þingmannanefndarinnar yrði að fylgja eftir ábendingum rannsóknarnefndarinnar varðandi breytingar á lögum og reglum. Þetta er gríðarlega mikilvægt atriði og eitt af þremur grundvallarverkefnum nefndarinnar. Þá er þingmannanefndinni falið að fjalla um hvaða lærdóm hægt sé að draga af efnahagsáföllunum og eftir atvikum móta afstöðu til ábyrgðar. Það eru þessir þrír þættir sem við vorum helst með til skoðunar, þ.e. hvaða lögum og reglum þarf að breyta miðað við skýrslur rannsóknarnefndar Alþingis, og þá væntanlega til að tryggja að álíka hlutir gerist ekki aftur, hvaða lærdóm við getum dregið af skýrslu rannsóknarnefndarinnar og í þriðja lagi að móta afstöðu til ábyrgðar en eins og menn vita verða ræddar á morgun eða á næstu dögum þingsályktunartillögur um það málefni.

Ég vil koma á framfæri sérstökum þökkum til starfsmanna þingsins sem hafa stutt okkur í nefndinni gríðarlega vel og jafnframt til yfirstjórnar þingsins. Það er ljóst að okkur hefði ekki tekist að skila á réttum tíma nema af því að mjög vel var haldið utan um okkar vinnu og við fengum það liðsinni sem við óskuðum eftir.

Eins og fram kom í máli formanns birtist í niðurstöðum okkar hörð gagnrýni á Alþingi. Það er ljóst að við í þingmannanefndinni teljum að breyta þurfi starfsháttum í þinginu. Við teljum að þingið sé ekki nægilega sjálfstætt í vinnubrögðum sínum og það halli allt of mikið á það að framkvæmdarvaldið reyni að stýra öllu án þess að þingið sjálft taki frumkvæðið. Þess vegna er í mínum huga aðalverkefni okkar, nú þegar við höfum farið yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og þegar þingmannanefndin hefur lagt fram sína skýrslu, að tryggja það með öllum ráðum að við tökum sjálfstæði okkar alvarlega í þinginu. Það er okkar grundvallarniðurstaða og að mínu mati ein sú mikilvægasta sem við í þingmannanefndinni komumst að.

Við sem erum í þingmannanefndinni erum flestöll með stutta þingreynslu en okkur er ljós sú staðreynd að frumvörp frá ráðuneytunum koma mjög seint inn í þingið eins og við upplifðum í vor þannig að þingheimur allur og nefndir eru á sprettinum á vorin til að reyna að klára mál. Þetta er vinnulag sem er ekki til fyrirmyndar og við teljum að því verði að breyta.

Það er gríðarlega mikilvægt að allir líti í eigin barm og þar eigum við alþingismenn og þingið sjálft að vera í fararbroddi. Við teljum jafnframt varðandi þingið að það sé mikilvægt að taka alvarlega gagnrýni siðferðishópsins sem jafnframt starfaði samhliða rannsóknarnefnd Alþingis, um íslenska stjórnmálamenningu, og leggja áherslu á að draga lærdóm af henni. Við höfum ekki eytt miklum tíma í þingsalnum, frá því að ég kom í þingið, í að ræða um siðferði í stjórnmálum. Það er einfaldlega mikið hjá okkur að gera og þetta mál hefur kannski ekki beint komið upp nema í tengslum við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. En þetta er eitthvað sem við verðum að tileinka okkur að íhuga á hverjum degi þegar við erum að taka ákvarðanir og skoða þær ákvarðanir sem við erum að taka með þeim gleraugum. Þetta er eitthvað sem við eigum að tileinka okkur og það er rétt, sem kom fram í máli hv. þm. Atla Gíslasonar, formanns nefndarinnar, að það er tillaga um það í niðurstöðum siðferðishópsins að leggja meiri áherslu á að búa til námsefni á þessu sviði og reyna að koma meiri íhugun varðandi þessi málefni inn í skólakerfið.

Jafnframt leggjum við í þingmannanefndinni fram þá niðurstöðu okkar að alþingismönnum beri að sýna hugrekki, heiðarleika og festu í störfum sínum. Brýnt sé að Alþingi og alþingismenn endurheimti traust þjóðarinnar með orðum sínum og athöfnum. Ég vil koma fram þeirri ósk minni að næstu daga sem verða eflaust erfiðir — við erum að glíma við mjög stór, viðamikil og erfið mál, persónuleg mál í mörgum tilvikum — að við reynum að horfa svolítið á þessi leiðarljós sem við leggjum hér fram, reynum að tileinka okkur þessa nálgun á viðfangsefni. Við erum öll fullfær um að takast á með rökum og skulum einbeita okkur að því næstu dagana.

Við tökum það jafnframt fram í þingmannanefndinni að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis stendur sem sjálfstætt verk þrátt fyrir okkar vinnu og það er einfaldlega okkar að draga fram meginatriðin. Við tökum útdrætti úr öllum bindum skýrslunnar til að einfalda og auðvelda mönnum að nálgast kjarna málsins. En engu að síður verða menn alltaf að fletta upp í rannsóknarskýrslunni sjálfri til að komast að niðurstöðu um það hvert fruminntak þess sem rannsóknarnefndin er að fjalla um hverju sinni er, að hvaða niðurstöðum hún kemst.

Mig langaði í kjölfar ræðu formanns, sem fór allítarlega yfir uppbyggingu vinnu okkar, að fara sérstaklega yfir þingsályktunartillöguna sem er sameiginleg í þessu plaggi og allir finna á bls. 15 í þingskjalinu, skýrslunni okkar. Þessi þingsályktunartillaga er um margt frábrugðin þeim þingsályktunartillögum sem við höfum venjulega til umfjöllunar í þinginu. Hún er í rauninni þrískipt eða fjórskipt, mundi ég segja. Í fyrsta lagi er kaflinn þar sem við erum að taka saman þá meginlærdóma sem við teljum að þingið eigi að draga af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þar eru dregin saman í nokkrum orðum þau meginsjónarmið og þeir meginlærdómar sem við teljum að okkur beri að draga af því sem gerðist. Þarna er orðalag sem einhverjum kann að þykja harkalegt, þarna eru sterkar ályktanir dregnar en engu að síður fannst okkur mikilvægt að tala hreint út, og einfaldlega segja á íslensku hvað það er sem við eigum við.

Í fyrsta lagi leggjum við til að Alþingi álykti að skýrsla rannsóknarnefndarinnar sé vitnisburður um þróun íslensks efnahagslífs og samfélags undanfarinna ára og við teljum mikilvægt að skýrslan verði höfð að leiðarljósi í framtíðinni. Þetta er okkar fyrsti punktur og hann felur það í sér að við ætlum okkur að læra af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það er okkar fyrsti meginpunktur.

Í öðru lagi viljum við að Alþingi álykti að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar og mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk. Þetta er jafnframt mikilvægur punktur, sem ég var aðeins búin að koma inn á, en ég vek athygli á því að við tölum þarna um grundvallarhlutverk en í kaflanum um Alþingi, meginniðurstöður okkar um Alþingi, kemur fram að við teljum brýnt að sett verði ákvæði í stjórnarskrá um hlutverk Alþingis. Það er sú umfjöllun sem við höfum haft sérstaklega varðandi stjórnarskrána sem er svo í hlutanum þar sem tiltekið er hvaða löggjöf við teljum þarft að breyta. Þetta er einfaldlega liður í því að byggja upp traust á þinginu, að allir séu með það skýrt í huga hvert hlutverk þingsins er þannig að enginn eigi að velkjast í vafa um það, með því að lesa stjórnarskrána, að það er þingið sem hefur ákveðið hlutverk.

Í þriðja lagi leggjum við til að Alþingi álykti að taka verði gagnrýni á íslenska stjórnmálamenningu alvarlega og að dreginn verði af henni lærdómur. Þetta er, eins og ég sagði áðan, gríðarlega mikilvægur þáttur í því að byggja upp traust milli þings og þjóðar.

Í skýrslu siðferðishópsins, sem starfaði samhliða rannsóknarnefnd Alþingis, er ítarleg umfjöllun um þetta og ég tel mjög brýnt að menn kynni sér þá umfjöllun og hún verði okkur jafnframt leiðarljós inn í framtíðina.

Þá viljum við að Alþingi álykti að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum, stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu. Þetta eru ansi stór orð en engu að síður er algerlega ljóst, miðað við þær afleiðingar sem urðu af þeim efnahagsáföllum sem dunið hafa yfir þjóðina, að þetta er yfirlýsing og afstaða sem við í þingmannanefndinni gátum öll verið sammála um. Vissulega er það rétt að það sem fór miður var ekki allt jafnslæmt, það voru ekki bara slæmir hlutir sem gerðust. En engu að síður er það svo, þegar svona stórir atburðir verða, að það er pólitísk ábyrgð þeirra sem eru við stjórnvölinn á hverjum tíma sem kemur til skoðunar og við erum að lýsa henni yfir hér.

Þá teljum við rétt að Alþingi álykti að stjórnendur og helstu eigendur fjármálafyrirtækja á Íslandi beri mesta ábyrgð á bankahruninu. Þetta er gríðarlega mikilvægt og fyllilega í samræmi við helstu niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur skýrlega fram að það eru þessir aðilar, stjórnendur og helstu eigendur fjármálafyrirtækjanna, sem bera mesta ábyrgð á því sem gerðist, því sem fór úrskeiðis.

Þá teljum við rétt að Alþingi álykti að eftirlitsstofnanir hafi brugðist. Það er ljóst að þær stofnanir ríkisins, Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands, náðu ekki að beita þeim valdheimildum sem þeim var falið í lögum til að sporna við því sem hér gerðist. Farið er yfir hlut eftirlitsstofnana í löngu máli í köflunum sjálfum en ég vek sérstaka athygli á kaflanum um eftirlitsstofnanir í meginniðurstöðum þingmannanefndarinnar. Stóri þátturinn í því er í rauninni sá sem endurspeglast svo í 3. tölul. í 2. kafla í þingsályktunartillögunni að við teljum rétt að fram fari stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands og á grundvelli þeirrar úttektar verði metnir kostir og gallar þess að sameina starfsemi stofnananna í þeim tilgangi að tryggja heildaryfirsýn yfir kerfisáhættu, fjármálalegan stöðugleika og ábyrgð á samræmingu viðbragða. Það er algerlega ljóst að þessi heildaryfirsýn var ekki til staðar og matið á kerfisáhættunni var einfaldlega ekki til staðar. Þegar við horfum til framtíðar og einsetjum okkur að læra af því sem hér gerðist er þetta staðreynd sem við verðum að horfa á. Þetta þurfum við að bæta og endurskoða eftirlitskerfið okkar og þarna er tillagan um það.

Við viljum einnig að Alþingi álykti að mikilvægt sé að allir horfi gagnrýnum augum á eigin verk og nýti tækifærið sem skýrslan gefur til að bæta samfélagið. Hér eru flestallir þættir samfélagsins undir. Við fjöllum í meginniðurstöðum okkar um mjög marga þætti samfélagsins, m.a. háskólasamfélagið og fræðasamfélagið sem verður að okkar mati að líta í eigin barm og það kemur fram í kafla nr. 2.5 um siðferði og samfélag. Varðandi fræðasamfélagið tökum við fram að taka verði alvarlega þá gagnrýni sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Það þurfi að endurskoða ákvæði laga um háskóla og laga um opinbera háskóla, einkum með tilliti til fjárhags skólanna og stöðu og hlutverks starfsmanna þeirra í þeim tilgangi að tryggja betur frelsi háskólasamfélagsins og fræðilega hlutlægni. Hvetja þurfi háskólamenn af ólíkum fræðasviðum til að taka þátt í opinberri umræðu og styrkja með því tengsl fræðasamfélagsins, atvinnulífsins og hins almenna borgara. Þá teljum við jafnframt nauðsynlegt að efla siðfræðilega menntun allra fagstétta á Íslandi og umræðu um gildi siðareglna.

Varðandi fjölmiðla þá teljum við þá leika lykilhlutverk í lýðræðissamfélagi með því að upplýsa almenning. Við teljum að þeir eigi að vera vettvangur gagnrýninnar þjóðfélagsumræðu og veita nauðsynlegt aðhald. Við teljum mikilvægt að fjölmiðlar haldi í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur, mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kom fram alvarleg gagnrýni á að íslenskir fjölmiðlar náðu ekki að rækja þetta hlutverk sitt í aðdraganda bankahrunsins og undir það mat rannsóknarnefndar Alþingis tökum við í þingmannanefndinni.

Þá leggjum við til að forsætisnefnd, viðkomandi nefnd um Alþingi, stjórnlaganefnd og forsætisráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar verði falið að ráðast í umfangsmiklar lagabreytingar. En jafnframt leggjum við til að sérstakri þingnefnd verði falið að fylgja því eftir að þær lagabreytingar verði að veruleika. Hér verðum við að tryggja það, við sem hér sitjum, að það sé þingið sem hafi meginhlutverki að gegna varðandi endurskoðun á þeirri löggjöf sem þar greinir. Það er mín skoðun. Þingið á að taka frumkvæðið og þingið á að sýna styrk sinn og sjálfstæði sitt í því að taka frumkvæði í því að leggja til breytingar á löggjöf og taka þátt í því af fullu afli að móta löggjöf. Við sýndum það í félagsmálanefnd í sumar, þegar við vorum meðal annars að fjalla um skuldavanda heimilanna, að þingnefndir hafa burði til að búa til löggjöf. Þær hafa fulla burði til þess. Það verður reyndar langur dagurinn og löng viðvera á nefndasviði eins og við í þingmannanefndinni þekkjum en þetta er hægt. Ég held að við sem höfum boðið okkur fram til að gegna störfum í þinginu, í kjölfar þessa bankahruns, eigum öll að vera meðvituð um að mikla vinnu þarf til að breyta þeirri löggjöf sem nauðsynlegt er til að koma í veg fyrir frekari efnahagsáföll og við eigum einfaldlega að einhenda okkur í þá vinnu. Við höfum sýnt það í tveim nefndum þingsins, samkvæmt minni reynslu, að þetta er fyllilega hægt, í félagsmálanefnd og nú í þingmannanefndinni.

Þetta eru meginþættirnir og meginlærdómurinn sem ég hef farið yfir sem felast í tillögu til þingsályktunar sem við leggjum fram um meginniðurstöður skýrslunnar. Ég ætla ekki að telja upp þá löggjöf frekar en ég hef gert en vil vekja athygli á 2. kafla þingsályktunartillögunnar — ég hef þegar minnst á úttektina sem við teljum rétt að ráðast í á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands. Jafnframt leggjum við til að fram fari sjálfstæð og óháð rannsókn á starfsemi lífeyrissjóða á Íslandi frá setningu laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Í kjölfar þess fari fram heildarendurskoðun á löggjöfinni á þessu sviði. Það kom fram hjá rannsóknarnefnd Alþingis að þeim gafst ekki færi á því að fara í þessa rannsókn. Við í þingmannanefndinni teljum rétt að leggja þetta til. Jafnframt leggjum við til í þingsályktunartillögunni að fram fari sjálfstæð og óháð rannsókn á aðdraganda og orsökum falls sparisjóðanna á Íslandi.

Nú hef ég farið yfir þingsályktunartillöguna sem inniheldur meginniðurstöður okkar og ég vonast til þess að þingmenn verði duglegir að blanda sér í umræðuna um hana. Ég vonast að sjálfsögðu til þess að þingheimur standi heils hugar á bak við tillögurnar sem þingmannanefndin leggur til. Ég virði það fyllilega að hér eru þingmenn bundnir við sína eigin sannfæringu. Við í þingmannanefndinni reyndum að vinna sem ein heild að komast að sem bestri niðurstöðu. Ég er stolt af því að okkur hafi í öllum megindráttum tekist að halda hópinn og sýnt það að með rökræðu og að ræða okkur niður á lausnir náðum við að koma saman þessu heildstæða plaggi sem ég bind miklar vonir við að komi til með að verða ákveðin viðspyrna hjá okkur hér í þinginu og komi okkur áfram inn í framtíðina. Það þurfum við að gera. Nú liggur niðurstaðan fyrir og þá er ekkert annað eftir en að einhenda sér í að vinna eftir þessu.

Mig langar, áður en ég held lengra, að vekja athygli á orðum sem rannsóknarnefnd Alþingis viðhefur um dóm sögunnar. Þannig er þegar maður er í vinnu sem þessari og horfir til baka og reynir að dæma verk annarra eða ákvarðanir sem teknar eru undir miklu álagi o.s.frv. að þá er sagt að afskaplega auðvelt sé að vera vitur eftir á. Þessu megum við ekki gleyma. Þetta kemur fram í 1. bindi rannsóknarnefndar Alþingis, kafla 1.8 sem heitir Horft til baka, og ég ætla að vitna hér í, með leyfi forseta:

„Stundum er sagt að auðvelt sé að vera vitur eftir á. Aðstaðan er vissulega önnur þegar horft er til baka og tóm hefur gefist til að draga saman og vega og meta gögn og upplýsingar í ljósi þess sem síðar gerðist. Þetta á ekki síst við þegar um er að ræða afdrifaríkar ákvarðanir sem teknar hafa verið við erfiðar aðstæður í kapphlaupi við tímann. Víst er að engin mannanna verk eru fullkomin. Öll erum við í þeirri stöðu að geta séð betur eftir á hvernig rétt hefði verið að bregðast við þegar afleiðingar slíkra ákvarðana eru fram komnar. Við rannsókn eins og þá sem rannsóknarnefnd Alþingis er ætlað að sinna skiptir hins vegar miklu að upplýsingar sem birtar eru og ályktanir sem af þeim eru dregnar taki sanngjarnt og eðlilegt tillit til þess hverjar voru aðstæður á hverjum tíma og hvað þeir sem að ákvörðunum komu eða sýndu af sér athafnaleysi þekktu til aðstæðnanna og fyrirliggjandi upplýsinga. Til að gæta sanngirni verður að hafa þetta í huga varðandi efnistök í skýrslunni og þegar sú gagnrýni, sem þar kemur fram, er lesin.“

Mig langar til að gera þessi orð að mínum. Þetta hugarfar reyndum við að tileinka okkur þegar við fórum yfir skýrslu rannsóknarnefndarinnar, reyndum að setja okkur inn í þær aðstæður að núna höfum við meiri upplýsingar en þeir sem tóku ákvarðanir á sínum tíma.

Í þingmannanefndinni var talsvert fjallað um eitt málefni, einkavæðinguna. Allítarlega er fjallað um hana í 1. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis .

Rannsóknarnefnd Alþingis nálgast umfjöllunina þannig að verkefni nefndarinnar var að varpa skýru ljósi á aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna og þar af leiðandi er sjónarhorni hennar beint á atburðina rétt fyrir hrun. Engu að síður taldi rannsóknarnefndin rétt að huga að því hvernig staðið var að einkavæðingunni og draga fram þau atriði við framkvæmd einkavæðingarinnar sem geta varpað ljósi á það hvernig rekstur bankanna fór í október, þ.e. fall bankanna. Rannsóknarnefndin beindi athugun sinni að ákveðnum atriðum sem snerta undirbúning og ákvarðanatöku um sölu á hlutum Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands. Rannsóknarnefndin tekur fram að hér er ekki um heildarúttekt á einkavæðingunni að ræða, heldur voru þau atriði skoðuð sem vörðuðu það sem hún taldi að gæti hafa haft áhrif á fall bankanna 2008.

Þingmannanefndin ályktar sameiginlega um einkavæðinguna og ég tel rétt að vekja athygli á þeim sameiginlegu ályktunum vegna þess að þær virðast því miður hafa farið fram hjá einhverjum. Þær er að finna á bls. 30.

Við tökum undir niðurstöður og álit rannsóknarnefndar Alþingis og teljum að þær verði að leggja í meginatriðum til grundvallar úrbóta á löggjöfinni.

Við tökum hér fram, með leyfi forseta:

„Það er mat þingmannanefndarinnar að skýrsla rannsóknarnefndarinnar sé áfellisdómur yfir verkferlinu við sölu ríkisbankanna og vinnubrögðum þeirra ráðherra sem voru í forsvari við einkavæðingu bankanna.“

Hérna segjum við stór orð sameiginlega. Þessa yfirlýsingu teljum við okkur geta gefið á grundvelli þeirra gagna sem liggja fyrir í málinu.

Jafnframt bendi ég á orðalagið í þingsályktunartillögu okkar sem er að finna á bls. 15. í skýrslunni. Þar leggjum við til að Alþingi álykti að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum o.s.frv. Þetta eru stór orð sem við í þingmannanefndinni teljum okkur geta staðið við á grundvelli rannsóknarinnar sem þegar hefur farið fram á einkavæðingunni.

Þá ályktum við jafnframt á bls. 30, með leyfi forseta:

„Þingmannanefndin tekur undir ályktanir rannsóknarnefndarinnar að Alþingi hafi ekki sett framkvæmdarvaldinu nægilega skýr skilyrði við einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands. Einnig hafi verið gerð stór mistök af hálfu framkvæmdarvaldsins í ferli einkavæðingar bankanna þegar fallið var frá upphaflegum kröfum um dreifða eignaraðild, faglega reynslu og þekkingu við val á kaupendum og þegar bankarnir voru báðir seldir á svipuðum tíma við erfiðar markaðsaðstæður. Þingmannanefndin telur að ríkisstjórn hvers tíma þurfi að marka opinbera stefnu um hvort og þá með hvaða hætti standa eigi að sölu og einkavæðingu ríkisfyrirtækja.“

Þetta er yfirlýsing og ályktun frá þingmannanefndinni.

Þá koma til bókanir þar sem hv. þm. Oddný G. Harðardóttir, Magnús Orri Schram, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Birgitta Jónsdóttir lögðu til að gerð yrði sérstök rannsókn á því hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna.

Frá okkur hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur kemur svohljóðandi bókun, með leyfi forseta:

„Þingmennirnir Ragnheiður Ríkharðsdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir telja í ljósi skýrslu rannsóknarnefndarinnar og skýrslu Ríkisendurskoðunar um einkavæðingu helstu ríkisfyrirtækja árin 1998–2003, og minnisblaða Ríkisendurskoðunar um sölu bankanna, að frekari rannsókn á einkavæðingarferlinu við sölu ríkisbankanna skili samfélaginu engu.“

Þetta er afstaða okkar og sannfæring mín í þessu máli. Jafnframt tökum við fram að það sé hæpið að halda því fram að ekki hafi verið fagþekking til staðar við einkavæðingu bankanna þar sem HSBC, einn stærsti banki heims, var þar aðalráðgjafi og erfitt að taka undir að hann búi ekki yfir fagþekkingu.

Einhvers staðar verðum við að segja að við höfum rannsakað nóg. Við í þingmannanefndinni leggjum til að Alþingi álykti að stjórnvöld hafi brugðist. Við ályktum sjálf í þingmannanefndinni að skýrsla rannsóknarnefndarinnar sé áfellisdómur yfir verkferlinu við sölu ríkisbankanna og vinnubrögðum þeirra ráðherra sem voru í forsvari fyrir einkavæðingunni. Þetta eru stór orð en ég tel mál að linni varðandi þetta atriði. Það eru ekki allir sammála mér, menn munu eflaust gera grein fyrir sínum skoðunum. Ég vil jafnframt vekja athygli á því vegna orða minna áðan um sjálfstæði Alþingis að við í þingmannanefndinni sendum bréf til fyrrum ráðherra þar sem við óskuðum eftir því að þeir skrifuðu okkur bréf ef þeir vildu koma einhverjum upplýsingum á framfæri. Við fengum svar frá hæstv. forsætisráðherra. Hún kom því að í bréfi sínu, sem undir venjulegum kringumstæðum ættu að skoðast sem einhvers konar andmæli ráðherra sem sátu í fyrri ríkisstjórnum, að það væri skoðun hæstv. forsætisráðherra að eðlilegast væri að þingmannanefndin hefði frumkvæði að því að fullnaðarrannsókn á einkavæðingarferlinu færi fram.

Þarna er skjalfest dæmi um það að framkvæmdarvaldið reyndi að skipta sér af því hvað þingmannanefndin var að gera. Þetta truflaði mig í störfum mínum í nefndinni, mér fannst þetta ekki viðeigandi. Ég vonast til þess að í framtíðinni verði skilin á milli framkvæmdarvaldsins og Alþingis skýrari en þetta dæmi sýnir okkur. Ég tel þetta ekki til fyrirmyndar og vona að þetta hafi einfaldlega verið misskilningur á erindi okkar.

Svo ég klári þetta varðandi einkavæðinguna, þá lýsti fyrrverandi forsætisráðherra Geir H. Haarde því yfir í ræðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins að stærstu mistök sjálfstæðismanna sem tengjast bankakerfinu og hruni þess hafi verið gerð við einkavæðingu bankanna, með því að falla frá stefnumörkuninni sem ákveðin var um dreifða eignaraðild. Ég tel því að öll kurl séu komin til grafar. Pólitískri ábyrgð hefur verið lýst á hendur fyrri stjórnvöldum. Í einhverjum tilvikum hafa forustumenn flokkanna lýst yfir pólitískri ábyrgð flokks síns. Ef einhverjir hér í þingsalnum telja nauðsynlegt að leggja fram tillögu um frekari rannsókn á þessu ferli þá legg ég til að hv. þingmenn geri það. Þá geta þeir kortlagt með hvaða hætti það ætti að gerast. Ég tel ekki að þörf sé á því til að upplýsa málið frekar.

Þá vil ég víkja að frekari tillögum okkar um einkavæðinguna, sameiginlegum tillögum okkar í þingmannanefndinni. Við vorum sammála um ályktanir okkar að öllu leyti varðandi einkavæðinguna, að öllu leyti öðru en því hvort ætti að fara fram frekari rannsókn. Með leyfi forseta:

„Þingmannanefndin telur að Alþingi beri að lögfesta rammalöggjöf um sölu og einkavæðingu ríkisfyrirtækja og eftirlitshlutverk Alþingis sé þar tryggt. Það er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að á næstu árum og áratugum er stefnt að því að selja og/eða einkavæða fyrirtæki sem hafnað hafa í ríkiseigu vegna bankahrunsins. Jafnframt telur þingmannanefndin að ríkisstjórn hvers tíma þurfi að marka opinbera stefnu um hvort og þá með hvaða hætti selja eigi og/eða einkavæða ríkisfyrirtæki.“

Þetta er tillaga okkar um einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Það hefði verið mikilvægt að þessar tillögur hefðu verið komnar fram þegar síðasta einkavæðing bankanna átti sér stað. Ef einhverjir ætla að rannsaka einkavæðingu bankanna á tímum fyrri ríkisstjórna þá tel ég fulla ástæðu til að rannsaka einnig einkavæðinguna sem nýverið átti sér stað.

Þá ályktum við, með leyfi forseta:

„Þingmannanefndin telur einnig að huga verði að heildarlöggjöf um opinber hlutafélög í samræmi við ábendingar umboðsmanns Alþingis í ársskýrslum embættisins. Jafnframt verði að skoða löggjöf um önnur félagaform.“

Hér tölum við um félagaréttinn í heild sinni sem þarf að fara yfir í kjölfar efnahagshrunsins.

Við í þingmannanefndinni leggjum fram viðamiklar ályktanir um einkavæðinguna. Við drögum af þeim mikinn lærdóm og við leggjum fram harðorða gagnrýni á fyrrverandi stjórnvöld. Það þarf ekki að segja meira um það því allir eru sammála um þetta.

Mig langar aðeins að víkja að atriði er varðar vanræksluhlutann og þann þátt sem rannsóknarnefnd Alþingis fjallar um í 7. bindi. Það kemur fram á bls. 165 í okkar skýrslu að menn voru ekki sammála um hvernig ætti að afgreiða þennan þátt málsins.

Mig langar að gera grein fyrir afstöðu minni og hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur í málinu, því þingmannanefndinni var falið ákveðið hlutverk. Okkur var falið það hlutverk að draga lærdóm af skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, koma með tillögur og úrbætur að löggjöf, skoða hvaða löggjöf þyrfti að breyta og jafnframt móta afstöðu til ábyrgðar í málinu að því marki sem það fellur undir hlutverk þingsins.

Þinginu er falið ákveðið hlutverk með lögunum um ráðherraábyrgð. Eins og ég sagði áðan þá er fjallað um það í sérstökum þingskjölum sem verða til umræðu síðar í vikunni. Við töldum að það væri ekki hlutverk okkar að fara ofan í stjórnsýslumatið sem rannsóknarnefnd Alþingis var sérstaklega falið að fjalla um og taka afstöðu til vanrækslu og mistaka í þessu sambandi.

Jafnframt tökum við fram í afstöðu okkar að þingmannanefndin sendi sérstökum saksóknara bréf til þess að taka af öll tvímæli um að nefndin hygðist ekki fjalla sérstaklega um ábyrgð annarra en ráðherranna. Það var skilningur okkar að það hafi ekki verið innan okkar verksviðs sem bréfið var sent. Niðurstaða setts saksóknara var sú að umfjöllunarefni og ályktanir rannsóknarnefndarinnar gefa að svo stöddu ekki tilefni til að efna til sakamálarannsóknar á hendur seðlabankastjórum, forseta eða forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Þetta kemur fram í afstöðu okkar. Ég tek það skýrt fram að þetta er afstaða mín og hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur. Ég tel rétt að vekja athygli á afstöðu okkar eins og hv. þm. Atli Gíslason gerði hér á undan.

Virðulegi forseti og ágæti þingheimur. Meginniðurstöður okkar eru þær að fall bankanna hafi fyrst og fremst verið bönkunum sjálfum að kenna, stjórnendum þeirra og helstu eigendum sem er fyllilega í samræmi við niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis. Við teljum að það þurfi að fara í viðamikla endurskoðun á eftirlitsstofnunum ríkisins. Við leggjum til nálgun í því efni með áherslu á að heildaryfirsýn náist yfir kerfið auk þess að skýra verkferla o.s.frv.

Við teljum jafnframt að stjórnvöld hafi brugðist. Við teljum gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld búi yfir viðbúnaðaráætlun svo hægt verði að bregðast við í erfiðum aðstæðum eins og þegar efnahagsáföll dynja yfir. Það má alveg hafa til hliðsjónar verklagið sem tíðkast við aðrar viðbúnaðaráætlanir. Sem betur fer eigum við starfsmenn hjá ríkinu sem sinna almannavörnum sem sinna viðamiklum viðbúnaðaráætlunum. Það er gríðarlega mikilvægt að æfa þær. Í tillögum okkar kemur fram að til eigi að vera viðbúnaðaráætlanir og jafnframt skuli æfa þær.

Ég sé að hv. þm. Kristján Möller, fyrrverandi samgönguráðherra, situr hér í salnum. Hann kannast væntanlega við viðbúnaðaráætlanir varðandi flugslys. Reglulega fara fram flugslysaæfingar, annars vegar er um að ræða skrifborðsæfingar, þar sem menn sitja við ímyndaðar aðstæður og reyna að átta sig á því og skýra verkferla; hver á að fara með hvaða hlutverk o.s.frv. Þetta er einfaldlega áætlun sem einnig á að vera til um efnahagsáföll.

Þetta er mikilvægur þáttur fyrir stjórnvöld, en það eru fleiri atriði til skoðunar. Ég veit að hv. meðþingmenn í þingmannanefndinni ætla að fjalla betur um kaflann um stjórnsýsluna sem ég hef ekki farið yfir og auk þess kaflann um eftirlitið og fjármálamarkaðinn — svo að sjálfsögðu um siðferðið. Þetta eru í megindráttum línurnar sem við leggjum.

Ég tel mikilvægt að við horfum fram á við frá þessum punkti og notum tækifærið til uppbyggingar. Þjóðin á það skilið. Þjóðin vill að þingmenn á Alþingi sýni að þeir viti að þörf er á uppbyggilegum aðgerðum. Við megum ekki eyða allri okkar orku í að rannsaka og skoða fortíðina. Það er nauðsynlegt. Hins vegar verðum við að snúa okkur að því að ráðast í þær lagaumbætur sem við leggjum til. Við verðum að einsetja okkur að læra af mistökum fortíðarinnar. Ég tel að það eigi enginn að vera feiminn við það að játa á sig mistök. Allir menn gera mistök, það er það sem gerir okkur mannleg. Það versta sem maður gerir þegar maður gerir mistök er að þora ekki að biðjast afsökunar. Það er mikilvægt að við hættum að vera feimin við það. Við lærum af mistökum okkar. Höldum áfram að byggja upp okkar góða samfélag.

Við í þingmannanefndinni höfum öll lært mikilvæga lexíu af þessari miklu vinnu. Við höfum ekki bara lært það að við, fulltrúar allra stjórnmálaflokka hér í þinginu, getum komist að sameiginlegum niðurstöðum um erfiðustu deilumálin í íslenskri pólitík síðustu árin. Að meginstefnu til komumst við að sameiginlegri niðurstöðu varðandi þessi stóru og miklu mál. Það var tekist á en við sem erum flestöll með stutta þingreynslu lærðum af þessu mikla og góða lexíu. Við sjáum að það er hægt að viðhafa önnur vinnubrögð hér í þinginu en þeir sem hafa gengið götuna á undan okkur segja að eigi að fara. Ég tel að við eigum að vera hugrökk eins og þingmannanefndin leggur til í sínum ályktunum og hlusta betur á sjónarmið hvers annars. Við verðum að taka tillit til þess að ekki eru allir alltaf sammála, en hins vegar næst besta niðurstaðan þegar menn takast á og ræða málið til mergjar.

Það er mikil vinna fram undan. Ég vonast til þess að þingið fallist á tillögu okkar um að sérstakri nefnd verði falið eftirlit með því að tillögur þingmannanefndarinnar verði að veruleika. Ég tel það gríðarlega mikilvægt. Ég hef séð drög að frumvarpi á breytingum um þingsköp Alþingis þar sem m.a. eru lögð drög að því að sérstök stjórnsýslueftirlitsnefnd verði hér í þinginu. Ég tel þetta gríðarlega mikilvægt. Þangað til sú nefnd kemst á laggirnar, ef það verður einhvern tímann samþykkt, má ekki vera tómarúm. Við í þingmannanefndinni leggjum mikla áherslu á að haldið verði vel utan um þessar tillögur. Þeim verður fylgt fast eftir. Fram undan er viðamikil vinna. Það er ekki seinna vænna að hefjast handa við breytingarnar sem nauðsynlegar eru. Ég vonast til að þingheimur taki vel í það að fela ákveðinni þingmannanefnd þetta hlutverk.

Þegar maður eyðir mörgum vikum, ég tala nú ekki um mánuðum, í að lesa skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er ekki laust við að maður verði stundum dapur og neikvæður. Í dag er ég full bjartsýni þegar ég fjalla um skýrslu þingmannanefndarinnar. Ég er full bjartsýni að við í þinginu ráðum við verkefnið að horfast í augu við fortíðina. Ég er full bjartsýni. Ég veit líka að íslenska þjóðin hefur alla burði til þess að komast í gegnum þessi efnahagsáföll. Við þurfum að vera hugrökk. Þetta verður erfitt. Fram undan er nauðsynlegur niðurskurður í fjárlögum ríkisins. Það eiga allir eftir að finna fyrir honum. Ef við vitum að tilgangurinn er sá að skapa betra samfélag, koma okkur upp úr vandanum, þá munu allir leggjast á eitt og við komum sterkari undan þeirri miklu vinnu.

Ég tel mikilvægt að reglur samfélagsins hvetji til framtaks og framfara, á því munum við byggja framtíð okkar. Ég tel að það eigi að vera okkar leiðarljós. Þrátt fyrir að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé dapurleg á mörgum köflum þá er hún jafnframt holl lesning fyrir okkur öll. Það er mikilvægt að við pökkum henni ekki ofan í skúffu eftir yfirferð þingmannanefndarinnar, heldur höfum við hana uppi við, allavega þangað til breytingunum sem lagðar eru til hefur verið hrint í framkvæmd. Ekki síður til þess að læra af mistökunum. Þetta er ekki fyrsta alþjóðlega fjármálakreppan sem ríður yfir heimsbyggðina. Það er athyglisvert hve mikil áhrif hún hafði á nánast öll ríki heimsins. Það er vegna þess að menn eru svo fljótir að gleyma. Það er þetta mannlega eðli sem við ráðum aldrei við og viljum ekki reyna að ná utan um með löggjöf eða slíku. Við verðum að læra af reynslunni og kenna börnunum okkar að það er ekkert hættulegt að horfast í augu við fortíðina, játa mistök og halda áfram.

Ég vil jafnframt benda hv. þingmönnum á að það kemur margt merkilegt fram í skýrslu vinnuhópsins sem forsætisnefnd fól að fara yfir lagareglur um eftirlit þingsins. Skýrslan liggur frammi og var dreift í þinginu fyrir ári. Í skýrslunni eru lagðar til miklar breytingar varðandi þingsköpin. Þær eru að hluta til komnar í drög að frumvarpi sem forsætisnefnd er að skoða. Þetta er mikilvæg vinna sem við höfðum til hliðsjónar í þingmannanefndinni. Við fengum Bryndísi Hlöðversdóttur til þess að fara yfir Alþingiskaflann með okkur.

Hér er jafnframt fjallað um lögin um ráðherraábyrgð og landsdóm sem komið hefur til umræðu. Ég tek undir með hv. formanni nefndarinnar, Atla Gíslasyni, að það á betur við þegar við förum að ræða þann þátt málsins. Skýrslan sem við höfum í höndunum er nægilega efnismikil til þess að verðskulda heila ræðu. Ég vonast til þess að umræðurnar verði í sama (Forseti hringir.) anda og þingmannanefndin leggur til, málefnalegar og uppbyggilegar.