138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Trúr þeirri stefnu að hafa ekki flokksræði að leiðarljósi fer ég í andsvar við hv. þingmann og þakka henni og þingmannanefndinni allri fyrir frábært starf. Ég hef athugasemdir við það sem ég kalla „loðmullu“ varðandi hlutverk Alþingis. Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk. Hvað segir þetta manni? Ekki neitt. (Gripið fram í.) Ég spyr hv. þingmann: Telur hún eðlilegt að flestöll lög sem samþykkt eru á Alþingi séu samin og ritstýrð af ráðuneytum? Telur hún eðlilegt að í fjárlögum séu lagðar til framkvæmdir? Og hver á að hafa eftirlit með þeim? Telur hv. þingmaður eðlilegt að þetta ágæta fólk sem situr stundum hérna á ráðherrabekkjum, hæstv. ráðherrar, séu einnig þingmenn og ráði þriðjungi af því nauðsynlega atkvæðamagni sem þarf, það eru 32 þingmenn? Telur hún það eðlilegt? Ég spyr: Er ekki möguleiki að breyta þessu eitthvað og skerpa á þessu?