138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:40]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir mjög gott yfirlit og ekki síst fyrir þann bjarta tón sem hún sló í lok ræðu sinnar sem ég held að sé okkur öllum mjög hollur og góður í dag.

Mig langar til að gera að umræðuefni og spyrja hv. þingmann út í tvo af þeim liðum sem eru í tillögu til þingsályktunar þar sem annars vegar stendur, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar.“ — Og aðeins síðar kemur: — „Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.“

Ég verð að viðurkenna að mér eru þessir starfshættir, verklag og skortur á formfestu afar ofarlega í huga og langar til að spyrja hv. þingmann hvort það hafi komið til umræðu í nefndinni hvernig við í raun og veru stígum næstu skref til að það geti orðið að veruleika, að við lögum þetta.