138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[14:00]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Þingmannanefnd Alþingis skilar nú af sér afrakstri vinnu sinnar. Í upphafi máls míns þakka ég samnefndarmönnum mínum fyrir gott samstarf á liðnum mánuðum, frá 15. janúar sl. Oft var tekist á um einstaka þætti í skýrslunni, það hvessti oft og tíðum ef svo má að orði komast, en engu að síður náðum við að ræða hlutina, komast að samkomulagi, virða einstök sjónarmið og ná skynsamlegri lendingu.

Ég vil sömuleiðis þakka starfsmönnum Alþingis fyrir frábæra samvinnu á undanförnum missirum. Nú skilum við af okkur og mikil umræða verður að sjálfsögðu um þá þingsályktunartillögu sem er um afstöðu okkar til ráðherraábyrgðar en því má ekki gleyma að mikil vinna fór í yfirferð á skýrslu rannsóknarnefndar og skýrsluna sem hér liggur fyrir. Ég mun ekki í ræðu minni í dag rekja sjónarmið mín hvað varðar ráðherraábyrgðina. Sú skýrsla mun verða til umræðu á vettvangi þingsins síðar og ég kem þess vegna ekki nema óbeint inn á ábyrgð stjórnmálamanna í ræðu minni.

Ef ég stikla á stóru ætla ég fyrst að fjalla um ályktanir þingmannanefndar um fjármálafyrirtæki en taka síðar á öðrum þáttum, svo sem einkavæðingu, viðbúnaðarmálum og ábyrgð Alþingis og stjórnmálamanna.

Víkjum þá talinu að fjármálafyrirtækjum. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram hörð gagnrýni á starfsemi fjármálafyrirtækja. Þingmannanefndin telur að stjórnendur og aðaleigendur fjármálafyrirtækja beri mesta ábyrgð á fjármálahruninu. Ljóst er að fjármálastarfsemi á Íslandi einkenndist að verulegu leyti af slæmum viðskiptaháttum og vanvirðingu við lög og reglur sem kom m.a. fram í háttalagi eigenda og stjórnenda gagnvart eftirlitsstofnunum og stjórnvöldum.

Ljóst má vera af skýrslu rannsóknarnefndar að fjölmargt í starfsemi bankanna hafi leitt til verulegs tjóns fyrir almenning og hluthafa. Til dæmis er gagnrýnivert hvernig bankarnir kölluðu fram óeðlilega eftirspurn eftir hlutabréfum í sjálfum sér og gáfu með því misvísandi upplýsingar um eftirspurn. Þá átelur þingmannanefndin harðlega misnotkun bankanna á peningamarkaðssjóðum.

Það er mat þingmannanefndarinnar að stjórnendur og eigendur íslenskra fjármálafyrirtækja hafi skort tilfinningu jafnt fyrir siðferðislegri sem samfélagslegri ábyrgð.

Í ljósi niðurstaðna rannsóknarnefndar Alþingis leggur þingmannanefndin til að marka þurfi opinbera stefnu um fjármálamarkaðinn og að í henni komi fram skýr framtíðarsýn um hvers konar fjármálamarkaður eigi að vera hér á landi. Slík opinber stefna styrkir tilgang og markmið löggjafarinnar og eykur skilning og virðingu fyrir þeim reglum sem gilda um fjármálamarkaðinn. Nauðsynlegt samfara þessu er svo að löggjöf um fjármálafyrirtæki og kauphallir verði endurskoðuð.

Í tillögum þingmannanefndar er ítarlega farið yfir tillögur að lagabreytingum sem snerta fjármálafyrirtæki og ætla ég ekki að fara yfir einstaka þætti hér og nú en hafa ber í huga að ný lög um fjármálafyrirtæki voru samþykkt á Alþingi í fyrravor en endurskoðun á lagarammanum er hins vegar ekki alveg lokið. Um það vorum við sammála, nefndarmenn í viðskiptanefnd, sem bárum það frumvarp fram í fyrravor. Engu að síður stigum við þá stór og mikilsverð skref í rétta átt.

Ég ítreka að þingmannanefndin ályktar að nauðsynlegt sé að stefnumótun fari fram um það hvers konar fjármálakerfi samrýmist stærð og þörfum þjóðarbúsins, hvert eigi að vera hlutverk ríkisins í rekstri fjármálafyrirtækja til framtíðar, hvert við viljum hafa fyrirkomulag innstæðutrygginga, innleiðingu EES-gerða og hvers konar aðlögun að íslenskum aðstæðum og eftirlit viljum við hafa með fjármálafyrirtækjum.

Þingmannanefndin tekur það sérstaklega fram að mikilvægt sé að tekin verði afstaða til þess hvort aðskilja eigi innlánsstofnanir og fjárfestingarbanka annars vegar og hins vegar innlenda og erlenda starfsemi. Skipulag fjölþjóðlegrar bankastarfsemi, ef hún mun byggjast á nýjan leik hér á landi, yrði þannig að annars vegar hefðum við fjárfestingarbanka og viðskiptabanka og hins vegar erlenda starfsemi aðskilda frá innlendri starfsemi. Þetta er hugmynd sem hreyft var í nefndinni og er allrar athugunar verð.

Þingmannanefndin er einnig sammála um að stjórnendur Landsbankans beri mesta ábyrgð á alvarlegum afleiðingum Icesave-reikninganna sem áttu ríkan þátt í hruni fjármálakerfisins á Íslandi og að það hafi verið ámælisvert að hefja og halda áfram söfnun innlána frá almenningi á nýjum mörkuðum árið 2008. Þingmannanefndin er sammála um að stjórnendur Landsbankans hafi ekki stýrt bankanum af þeirri ábyrgð sem ætlast hefði mátt til og að ekki hafi gætt samfélagslegrar ábyrgðar í störfum þeirra.

Mig langar næst að víkja tali mínu að einkavæðingunni. Það er sameiginlegt mat allra nefndarmanna í þingmannanefndinni að skýrsla rannsóknarnefndar sé áfellisdómur yfir verkferlinu við sölu ríkisbankanna og vinnubrögðum þeirra ráðherra sem í forsvari voru við einkavæðinguna. Ljóst er að ferlið var ógagnsætt þegar á hólminn var komið og olli tortryggni þar sem stöðugt hefur verið ýjað að pólitískum helmingaskiptum. Slíkt var í meira lagi óheppilegt þegar um var að ræða jafnmikilvægar stofnanir í samfélaginu og raun bar vitni.

Auk þessa tekur þingmannanefndin undir ályktanir rannsóknarnefndar um að Alþingi hafi ekki sett framkvæmdarvaldinu nægilega skýr skilyrði við einkavæðingu Búnaðarbanka og Landsbanka, að stór mistök hafi verið gerð af hálfu framkvæmdarvaldsins í ferli einkavæðingarinnar þegar fallið var frá upphaflegum kröfum um dreifða eignaraðild, faglega reynslu og þekkingu við val á kaupendum og þegar bankarnir voru báðir seldir á svipuðum tíma við erfiðar markaðsaðstæður.

Í framhaldi af þessu vil ég vekja athygli á bókun þingmannanna Oddnýjar Harðardóttur, Magnúsar Orra Schrams, Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur og Birgittu Jónsdóttur sem leggja til að gerð verði sérstök rannsókn á því hvernig staðið var að einkavæðingu bankanna. Í þessu sambandi vil ég sérstaklega vísa til 1. bindis, bls. 228 í rannsóknarnefndarskýrslunni en þar segir orðrétt, með leyfi frú forseta, að nefndin „hefði ekki látið framkvæma heildarúttekt á einkavæðingu Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands eða tengdum málefnum“. Af þeim sökum er það mat fyrrgreindra þingmanna að framkvæma beri ítarlega rannsókn svo fullljóst verði hvernig staðið var að áðurnefndri einkavæðingu.

En ef horft er til framtíðar og við veltum fyrir okkur einkavæðingu eða sölu ríkisfyrirtækja var þingmannanefndin sammála um að ríkisstjórn hvers tíma þyrfti að marka opinbera stefnu um hvort og þá með hvaða hætti ætti að standa að sölu og einkavæðingu ríkisfyrirtækja. Við teljum að Alþingi eigi að lögfesta rammalöggjöf um hvernig eigi að standa að slíkum þáttum og að eftirlitshlutverk Alþingis sé þar tryggt. Þetta teljum við sérstaklega mikilvægt í ljósi þess að á næstu árum og áratugum er stefnt að því að selja og/eða einkavæða fyrirtæki sem hafnað hafa í ríkiseigu vegna bankahrunsins. Jafnframt telur þingmannanefndin að ríkisstjórn hvers tíma þurfi að marka opinbera stefnu um hvort og þá með hvaða hætti selja eigi og/eða einkavæða ríkisfyrirtæki.

Mig langar næst að víkja aðeins að viðbúnaðarmálum en rannsóknarnefnd telur að mikið hafi skort á að unnið hafi verið að þeim á skipulegan og vandaðan hátt. Nefndin tekur þó fram að ekki sé hægt að fullyrða að þótt vandað hefði verið betur til viðbúnaðarvinnu á árinu 2008 hefði verið hægt að bjarga íslensku bönkunum frá falli. Við vitum það öll sem hér stöndum að grunnurinn að fallinu var í raun og veru lagður á árunum eftir 2003. Hins vegar tekur rannsóknarnefndin það skýrt fram að vandaður undirbúningur hefði verið til þess fallinn að draga mun meira úr því tjóni sem fall bankanna orsakaði. Íslensk stjórnvöld hefðu þá einnig verið í stakk búin til að móta sér fyrr stefnu um mörg af þeim álitaefnum sem taka þurfti af skarið um og hefðu því haft betri forsendur til að svara fyrirspurnum frá t.d. breskum og hollenskum yfirvöldum á krítískum tíma.

Í þeim dæmum sem rannsóknarnefndin tekur af samráðshópi um fjármálastöðugleika sem leggja átti drög að viðbúnaðaráætlun eru gegnumgangandi stef sem sýna alvarlega veikleika í íslenskri stjórnsýslu og óvandaða stjórnsiði í aðdraganda bankahrunsins. Þar er sérstaklega tekið fram frumkvæðisleysi og áhersla á ábyrgð annarra, sjálfstæði eða ofríki embættismanna gagnvart stjórnmálamönnum, slæm áhrif pólitískra ráðninga, skortur á faglegum vinnubrögðum, ósjálfstæði gagnvart fjármálalífi og pólitísk lömunarveiki.

Þannig er hægt að skýra slæleg vinnubrögð í íslenskri stjórnsýslu með almennu agaleysi eða skorti á grundvallarreglum sem þrífast við skilyrði smæðarinnar. Því má segja að smæð samfélagsins skapi forsendur fyrir fyrirgreiðslupólitík.

Ég vil draga sérstaklega fram þennan skort á formfestu vegna þess að svo virðist sem stjórnmálamenn og embættismenn geri ekki ráð fyrir því að þurfa síðar að gera grein fyrir þeim ákvörðunum sem þeir tóku. Þess vegna er skortur á formfestu og slæleg gagnafærsla almennt innan kerfisins og þeim vinnubrögðum verðum við að ýta út og taka upp meiri formfestu.

Mig langar næst að víkja aðeins að Icesave og samskiptum við erlend stjórnvöld. Rannsóknarnefndin telur það gagnrýnivert að íslensk stjórnvöld skuli ekki hafa sinnt því að útskýra skýrt fyrir breskum stjórnvöldum hver afstaða þeirra væri gagnvart skuldbindingum tryggingarsjóðsins. Tengist það því hversu lengi íslensk stjórnvöld voru að gera það upp við sig hvaða stefnu bæri að taka en nánar er vikið að því í kafla 17 í rannsóknarskýrslunni. Íslensk stjórnvöld virðast vanrækja að útskýra bæði forsendur og hina pólitísku stefnu sem tekin var með neyðarlögunum fyrir breskum og hollenskum stjórnvöldum. Rannsóknarnefndin telur að íslenskum stjórnvöldum hafi að lágmarki borið að fela utanríkisþjónustunni að útskýra meginsjónarmið sín fyrir þeim eftir lokun markaða 6. október 2008 þegar frumvarpið var lagt fyrir Alþingi úr því að ráðherrar ákváðu að ræða ekki milliliðalaust við ráðamenn þeirra ríkja þar sem íslensku bankarnir voru umsvifamestir. Sérstaklega var þetta brýnt gagnvart breskum og hollenskum ráðamönnum. Rannsóknarnefndin segir að það hafi verið til þess fallið að hleypa aukinni hörku í samskipti þjóðanna að íslensk stjórnvöld létu þetta undir höfuð leggjast.

Að mati þess sem hér stendur hefði mátt með betri undirbúningi af Íslands hálfu forðast harkaleg viðbrögð erlendra ráðamanna og þá stífni sem einkenndi uppgjör á skuldbindingum vegna erlendra innstæðueigenda. Það er mitt mat að ef betur hefði verið staðið að undirbúningi af Íslands hálfu hefði mátt forðast að lenda með Icesave-málið í jafnlæstri stöðu og síðar varð með tilheyrandi tjóni fyrir land og þjóð.

Mig langar næst að víkja máli mínu að Alþingi. Þingmannanefndin er sammála um að Alþingi eigi að vera vettvangur umræðu sem tekur mið af almannahagsmunum. Góð stjórnmálaumræða næst fram með því að láta andstæð sjónarmið mætast þar sem byggt er á staðreyndum og málin krufin til mergjar. Íslensk stjórnmál hafa ekki náð að þroskast nægilega í samræmi við það. Stjórnmálaumræður á Alþingi hafa einkennst um of af kappræðum og átökum og því þarf að efla góða rökræðusiði á Alþingi. Mikilvægt er að Alþingi ræki umræðuhlutverk sitt og sé vettvangur lýðræðislegra og málefnalegra skoðanaskipta.

Þingmannanefndin er einnig sammála um að alþingismönnum beri að sýna hugrekki, heiðarleika og festu í störfum sínum og það sé brýnt að Alþingi og alþingismenn endurheimti traust þjóðarinnar með orðum sínum og athöfnum, þ.e. þingið á að vera vettvangur rökræðu sem tekur mið af almannahagsmunum með upplýstri umræðu sem byggð er á staðreyndum. Þingið á ekki að vera vettvangur fyrir rökræður sem settar eru á svið til að hafa áhrif á kjósendur í gegnum fjölmiðla. Slík stjórnmál eru nánast dæmd til að vera ófagleg því að niðurstöður ráðast af aflsmunum fremur en góðum röksemdum sem byggjast á traustum upplýsingum.

Það er skoðun þess sem hér stendur að þingið ræki ekki umræðuhlutverk sitt vegna ofuráherslu á kappræður þar sem þekking og rökræður víkja fyrir hernaðarlist og valdaklækjum. Umræður sem þessar hafa engin djúpstæð áhrif heldur eru eingöngu til þess að veikja traust á okkur stjórnmálamönnum. Í þessum sal skortir að umræðan sé byggð á staðreyndum þar sem menn leitist við að brjóta málin til mergjar og komast að réttri niðurstöðu. Slík umræða er óspennandi fjölmiðlaefni samanborið við aðra umræðu þar sem menn bíða spenntir eftir næstu leikjum í refskákum stjórnmálamanna eða ráðherrakapli. Hér er ábyrgð stjórnmálamanna mikil en ekki síður ábyrgð fjölmiðla.

Ljóst má vera að stjórnmálamenn gerðu margvísleg mistök í aðdraganda bankahrunsins. Stjórnmálamenn sýndu ítrekað ógagnrýna samstöðu með bankamönnum og færðu ábyrgðina með því yfir á almenning. Gagnkvæmt traust ríkti á milli þessara aðila, bankamanna og stjórnmálamanna. En það á ekki að vera hlutverk stjórnmálamanna að taka stöðu með fjármálafyrirtækjum til að telja umheiminum trú um að fyrirtækin standi vel, nema stjórnvöld hafi fyrir því haldbærar upplýsingar og traust rök. Hér ber ekki að vitna í opinberar skýrslur því að ljóst má vera af lestri rannsóknarskýrslunnar að lykilstjórnmálamenn fengu upplýsingar sem bentu til annars. Að mínu mati voru þetta slæleg vinnubrögð því að ráðandi aðilar fengu upplýsingar um að vandi væri á höndum. En um leið er það mín skoðun að þeim sömu hafi verið ljóst að hugmyndafræði þeirra gat ekki gengið upp. Kjarni þeirrar hugmyndafræði var að hvorki mætti hefta krafta athafnamanna né þrengja svigrúm þeirra með regluverki eða eftirliti. Vöxtur fjármálakerfisins var þannig rökrétt afleiðing af stefnu stjórnvalda á Íslandi en ráðandi aðilar áttu hins vegar erfitt með að bregðast við þegar hættumerkin fóru að birtast. Viðurkenning á því að vandi væri á höndum var einfaldlega of stór biti til að kyngja og þess vegna þráuðust menn við að grípa til aðgerða, lykilmenn í eftirlitsstofnunum og lykilmenn í ríkisstjórn. Slíkt hefði verið viðurkenning á því að illa hefði verið staðið að stefnunni sem var búið að leggja á undanförnum árum. Þannig var athafnaleysið algjört og tjónið mun meira en þurfti.

Það er skoðun þess sem hér stendur að ábyrgð stjórnmálamanna á því sem aflaga fór sé mikil. Þeir eru fulltrúar þjóðarinnar sem hún treystir fyrir fjöreggi sínu og því er mikilvægt að þeir rísi undir því hlutverki. Grunnur fulltrúalýðræðisins verður að vera trúnaður, traust, gagnsæi og heiðarleiki. Grunsemdin ein hjá almenningi er næg til að trúnaðarbrestur verði og því verða stjórnmálamenn ætíð að haga orðum sínum og athöfnum út frá trúnaðarskyldum sínum við land og þjóð. Nokkuð virðist hafa skort á að stjórnmálamenn hafi hagað störfum sínum í samræmi við þau gildi. Hagsmunir almennings verða ávallt að vera hafðir að leiðarljósi en það sem viðgengist hefur í styrkjum til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna er einn þáttur í þeim trúnaðarbresti sem varð. Svo stjórnmálamenn megi öðlast traust þjóðarinnar að nýju er brýnt að skýrar reglur verði settar um styrki og fjármögnun stjórnmálaflokka.

Frú forseti. Mig langar að vitna til orða Vilhjálms Árnasonar prófessors í grein sem hann kallar „Siðvæðing stjórnmála“. Hann segir, með leyfi forseta:

„Í grundvallaratriðum eru viðfangsefni stjórnmálamanna af siðferðilegum toga eða val verkefna, skilgreining forsendna og ákvörðun um hvort niðurstaðan sé nothæf. Sjálfa tæknivinnuna í ferlinu eiga aðrir að vinna. Stjórnmálamenn þurfa því ekki að vera lögfræðingar, viðskiptafræðingar, hagfræðingar eða stærðfræðingar, heldur þurfa þeir fyrst og fremst að vera siðferðislega vel þroskaðir einstaklingar. […] Það eina sem góður stjórnmálamaður þarf að hafa til að bera er skilningur á þeim þáttum sem stuðla að farsæld þjóðarinnar, hæfni til þess að yfirvega þau mál sem varða almannaheill, og lagni við að koma þeim í framkvæmd. Þessi dómgreind verður ekki lærð eins og hvert annað fag, heldur mótast hún af reynslu og byggist á almennri yfirsýn fremur en sérþekkingu.“ — Tvenns konar skyldur eru þær helstar sem stjórnmálamenn verða að hafa í fyrirrúmi — „Annars vegar að þjóna umbjóðendum sínum af fullri ábyrgð og heilindum;“ — þ.e. svokölluð frumskylda — „hins vegar að koma heiðarlega og kurteislega fram við andstæðinga sína og samherja í stjórnmálum.“ — bróðurskylda — „Fyrri skyldan er frumskylda stjórnmálamannsins […]“ — hún er — „gagnvart almenningi og gagnvart starfinu sem slíku, því hæfni stjórnmálamannsins ræðst af því hvernig hann þjónar almenningi. Þess vegna eiga skyldur hans gagnvart samstarfsmönnum að lúta frumskyldunni. Þannig byggir bróðurskyldan á frumskyldunni. Að öllu jöfnu þýðir þetta að gott samstarf milli valdsmanna greiði fyrir því að þeir sinni stjórnmálaskyldum sínum. En í sérstökum tilvikum þýðir þetta að stjórnmálamenn verði að veita hver öðrum gagnrýnið aðhald.“

Þetta felur t.d. það í sér að þegar hollusta gagnvart flokksbróður og þjónusta við almannaheill rekast á ætti bróðurlega skyldan að víkja fyrir frumskyldunni sem er skyldan við almenning. Það er skoðun þess sem hér stendur að þingmenn ættu vandlega að íhuga þessi orð á næstu dögum.

Frú forseti. Að lokum vil ég segja þetta: Það var meðvituð ákvörðun þingflokka að setja nýja þingmenn í það verkefni að skoða rannsóknarskýrslu Alþingis, til að draga af henni lærdóm og koma með tillögur að breytingum byggðum á honum. Skynsamlegt þótti að velja til þessa starfs þingmenn sem ekki voru á vettvangi þegar hrunið átti sér stað. Þeir væru þar með ekki vanhæfir til að takast á við verkefnið. Nauðsynlegt væri að þingmennirnir sem skoðuðu söguna væru ekki hluti af henni. Þessum þingmönnum væri best treystandi til að skoða fortíðina til að gera hana upp og þeir hinir sömu væru um leið best til þess fallnir að draga lærdóm af og móta stefnu.

Þetta á þá væntanlega við alla hluti starfsins, bæði hvað snertir umræðuna um ráðherraábyrgð og annan lærdóm af skýrslunni.

Það hvessti oft í nefndinni, oft og tíðum vorum við ósammála og það var tekist á en okkur tókst hins vegar að komast að niðurstöðu um hvað við viljum sjá gerast á vettvangi eftirlitsstofnana og fjármálakerfis, hvernig við viljum breyta vinnubrögðum stjórnsýslunnar og, það sem ég tel langmerkilegast, hvernig við viljum byggja upp Alþingi, umræðuhefðina og vinnubrögðin.

Frú forseti. Við höfum nú gott tækifæri til að gera miklar breytingar. Skýrsla rannsóknarnefndar er ítarleg úttekt á því sem aflaga fór og þess vegna er mikilvægt fyrir alla að nýta tækifærin sem hún gefur til að betrumbæta okkar samfélag. Skýrsla þingmannanefndarinnar byggir á þessari skýrslu og í henni eru lagðar til breytingar til betri vegar.

Stjórnmálamenn eiga að vera í fararbroddi þessara breytinga. Þeir eru fulltrúar þjóðarinnar sem hún treystir fyrir fjöreggi sínu og er mikilvægt að þeir rísi undir því hlutverki á umbrotatímum. Ég vona að innlegg mitt hér hafi varpað ljósi á það hvernig ég tel best að við alþingismenn tökum á verkefninu sem fram undan er.