138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[14:22]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvar hans. Mín skoðun er sú að það mál sem hér er á dagskrá og þau mál sem við munum taka á dagskrá á næstu dögum þurfi ítarlega umræðu. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir þeirri stöðu sem þingmenn eru í núna þegar þeir fá í hendur þau plögg sem við í þingmannanefnd höfum legið yfir vikum, ef ekki mánuðum saman.

Ég tel mjög skynsamlegt að þingið taki allan þann tíma sem það þarf til þess að móta sér afstöðu. Einstaka þingmaður þarf að móta sér afstöðu í þessum mikilsverðu málum. Ég tel að við eigum að taka okkur nægan tíma til þess. Það er mjög mikilvægt að þingmenn fái að móta afstöðu sína án þess að vera undir tímapressu vegna þess að þær ákvarðanir sem við þurfum að taka hér á næstunni þurfa menn að hafa í maganum, enda eru þær stórar og miklar.