138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[14:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessi svör sem voru ágæt. Hv. þingmaður sagði í ræðu sinni að menn hafi vitað í febrúar/mars hvernig staðan var og það kemur líka fram. Spurningin er sú: Hvernig bregðast menn við? Ef menn hefðu gefið upplýsingar um það strax hefði viðkomandi banki — bingó — farið á hausinn. Það er einmitt það sem gerðist. Það sem velti Kaupþingi voru í rauninni ummæli bresks ráðherra. Þau veltu Kaupþingi einum eða tveim dögum seinna. Það var ekki mjög auðvelt að bregðast við í svona stöðu. Auk þess sem menn áttu samskipti við erlenda aðila sem sáu bara ekki vandann eins og við sáum hann, við sáum hann ekki eins og þeir sáu hann eða ráðamenn okkar. Þetta er mjög erfið staða að standa í og menn þurfa að átta sig á því þegar þeir dæma svona eftir á, eftir að tjónið hefur orðið.

Svo sagði hv. þingmaður að hugmyndafræðin gengi ekki upp. Ég er ekki sammála því en get því miður ekki rökstutt það núna, ég geri það á eftir.