138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[14:38]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mig rekur minni til þess að einhver hluti þeirra upplýsinga sem hv. þingmaður vekur máls á hér hafi komið fram á vettvangi efnahags- og skattanefndar. Ég verð að viðurkenna að ég man ekki alveg hvort þær voru bundnar svo miklum trúnaði eða að hluta, það þarf bara að kanna, en eitthvað þessu skylt kom þar fram.

Það er alveg ljóst að við leggjum mikið upp úr því í skýrslunni að styrkja stöðu Alþingis, að þingmenn geti verið sjálfstæðir í vinnubrögðum og fái meiri aðstoð við sín verk til að styrkja stöðu sína gagnvart framkvæmdarvaldinu og geti haft betri forsendur til að taka betri og sterkari umræðu í þessum sal.