138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[14:39]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla í upphafi máls míns að nefna hvernig þingmannanefndin fór yfir þetta verkefni, níu manna þingmannanefndin sem fékk það erfiða verkefni að fara yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og vega og meta hvaða lærdóma við gætum af henni dregið og komið með tillögur til úrbóta. Eins og fram hefur komið höfum við skipt með okkur verkum að tala fyrir einstökum hluta skýrslunnar. Í minn hlut kemur að tala almennt um skýrsluna og engan einn þátt sérstaklega. Ég vil þó nefna að ég mun einna helst fjalla um stjórnsýsluna og siðferðihlutann en ég mun einnig nefna aðra þætti í þingsályktunartillögunni sem er lokaafurð skýrslu okkar þar sem koma fram tillögur til þingsins um úrbætur. Einnig mun ég lítillega koma inn á ráðherraábyrgð þó svo að ég geymi umræðu um hana til þess tíma þegar þingsályktunartillagan um hana verður lögð fram.

Virðulegi forseti. Ég held að sé rétt að við rifjum það upp að við erum í fordæmalausum aðstæðum. Þær aðstæður sem sköpuðust á haustdögum 2008 voru með þeim hætti að við höfum ekki upplifað annað eins. Það er ástæða þess að rannsóknarnefnd Alþingis var sett á laggirnar til að rannsaka hvað hefði farið úrskeiðis. Í kjölfarið horfum við fram á það að um 40% heimila í landinu séu tæknilega gjaldþrota. Það er hrun í landsframleiðslu og neikvæður hagvöxtur. Einstakar atvinnugreinar eins og byggingargeirinn hafa hrunið. Það er atvinnuleysi og landflótti. Það er því ekki að ástæðulausu eða litlu tilefni sem rannsóknarskýrsla Alþingis varð til. Og það er ekki af litlu tilefni sem okkur í þingmannanefndinni var falið að leita leiða til að fara yfir skýrsluna og finna leiðir til úrbóta sem skynsamar væru. Skýrslan er í átta bindum, siðferðihlutinn sem fylgdi er í 8. bindi.

Mig langar í sambandi við innganginn að nefna einn þátt sem kemur málinu beint við og lesa má um í rannsóknarskýrslu Alþingis þar sem fjallað er um stöðuna, með leyfi forseta:

„Rannsóknarnefndin telur að um mitt ár 2007 þegar erlend innlán bankanna voru orðin sjöföld að stærð gjaldeyrisvaraforðans og skammtímaskuldir þjóðarbúsins námu tífaldri stærð gjaldeyrisvaraforðans hafi verið komin síðasta raunhæfa tækifærið til þess að sporna við þessari þróun með virkum hætti án þess að illa færi. Hvorugt var gert á þessum tíma. Þegar fram í sótti hafði það afdrifaríkar afleiðingar fyrir fjármálastöðugleikann hér á landi.“

Þetta má sjá í 1. bindi rannsóknarskýrslunnar, kafla 4.5.6.3.

Mig langaði að nefna þetta vegna þess að hv. þingmaður Magnús Orri Schram og félagi minn í nefndinni nefndi það hér að við gætum rekið hrunið aftur til ársins 2003 en hér kemur það beinlínis fram að við erum að tala um mitt ár 2007.

Umfjöllun rannsóknarnefndar Alþingis og rannsóknir hennar voru á ýmsum sviðum, til að mynda varðandi einkavæðinguna sem ég ætla að koma örlítið inn á, eftirlitslausan vöxt bankakerfisins, eftirlitsgeirann, fjármálageirann og viðtöl við ráðherra og embættismenn. Niðurstaða þessa rannsóknarhluta alls er auðvitað sláandi, því hver sem var og allir sem einn, getum við sagt — enginn taldi sig bera ábyrgð á fjármálafallinu, hruni bankakerfisins. Ábyrgðin væri einhvers annars. Þetta er auðvitað sláandi niðurstaða úr svo umfangsmikilli rannsókn.

Ég nefndi einkavæðingu bankanna og langar að lesa úr skýrslu okkar með leyfi forseta:

„Rannsóknarnefndin bendir á að heimildin sem Alþingi afgreiddi til sölu á ríkisbönkunum hafi verið algerlega opin og að hún hafi skilið eftir allt mat og stefnumörkun í höndum framkvæmdarvaldsins. Athugasemdir sem komu fram í greinargerð með frumvarpinu til söluheimildarinnar um stefnu stjórnvalda við einkavæðinguna, svo sem um dreifða eignaraðild og aðkomu erlendra aðila, hafi ekki sama gildi og sett lög.“

Þetta má lesa um í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis í 1. bindi. Og áfram, með leyfi forseta:

„Að mati rannsóknarnefndar er atburðarásin við einkavæðinguna og lyktir hennar, þar á meðal samskipti og störf Fjármálaeftirlitsins, einkennandi fyrir skort á festu og eftirfylgni með fjármálamarkaðnum.“

Þetta má einnig sjá í 1. bindi.

Aðrir nefndarmenn hafa bent á samstöðu þingmannanefndarinnar við að átelja þessi vinnubrögð. Það var síðan mat okkar fulltrúa Framsóknarflokksins að við þessar aðstæður væru komnar nægilegar upplýsingar til að setja punkt aftan við verkið. Búið væri að átelja þetta, allir væru sammála um það og við þyrftum að komast áfram í lífinu og læra hvar við eigum að setja punkt við ákveðna hluti. Ég vil þó segja það hér, og ég mun koma aðeins inn á það aftur seinna í máli mínu, að ef samstaða myndast um að skoða einkavæðinguna í heild sinni, ef menn telja að það skili einhverju, þá mun ekki standa á mér og væntanlega ekki framsóknarmönnum, eins og fram hefur komið í umræðunni.

Ég vil þó nefna það að í heild sinni er skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis bakspegill. Við erum að líta til baka yfir farinn veg. Þar hefur verið rannsakað eins margt og menn komust yfir. Í raun og veru má líta svo á að skýrslan sé sá grunnur sem við þurfum að byggja á til framtíðar, þar er þekkingin á því sem gerðist og lýsing atburðarásar í tímaröð og fleira. Jafnframt er vegið og metið það sem gert var og eins það sem látið var ógert. Þar er mörgum málum fjölmargra aðila vísað til sérstaks saksóknara til frekari rannsóknar vegna gruns um lögbrot og sýnir það í hnotskurn alvarleika málsins alls.

Í skýrslunni tókst okkur þingmönnunum sem betur fer að ná samstöðu um flesta hluti. Mig langar að nota tækifærið hér og þakka formanni nefndarinnar og nefndarmönnum öllum fyrir góða vinnu og hafa náð þessu vinnulagi, vinnulagið er ástæðan fyrir því að við náum svona víðtækri sátt.

Ég vil líka, eftir að hafa eytt talsverðum tíma af árinu í að kynna mér skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, hrósa henni og lýsa því yfir að ég get tekið undir allflest atriði sem þar koma fram. Ég vildi óska þess líka fyrir hönd þingmannanefndarinnar að skýrslu okkar verði eins vel tekið og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þó eru nokkrir hlutir sem koma fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar sem menn hafa bókað sínar séráherslur við. Einkavæðingin var einn þeirra og ég mun koma aðeins inn á hana aftur. Varðandi Íbúðalánasjóð og þá þenslu sem rannsóknarnefnd Alþingis gagnrýndi, langar mig að nefna einn þátt sem við ræddum um hvort æskilegt væri að skoða. Það er að útlán Íbúðalánasjóðs hafi haft mikil þensluhvetjandi áhrif. Við teljum mörg hver að það sé nokkuð orðum ofaukið. Í því ljósi er rétt að nefna að útlán bankanna á þeim tíma voru á stærðargráðunni 500 milljarðar á meðan útlán Íbúðalánasjóðs voru um 50 og ekkert útlánanna var yfir 20 milljónir. Fyrst voru það 18 milljónir og svo rétt rúmlega 20. Þannig að þensluhvetjandi áhrif bankanna voru auðvitað margfalt meiri.

Það sem lá í gagnrýni rannsóknarnefndarinnar og kemur fram í einni af ályktunum hennar er að það hefði þurft að grípa til sambærilegra aðgerða við bankana og gert var við Íbúðalánasjóð. Með einum eða öðrum hætti hefði þurft að stöðva það að þeir gætu lánað svona háar upphæðir, að ekki væri þak á upphæðunum og að veðhlutfall væri tekið upp. Mig langar að vitna í skýrslu okkar, með leyfi forseta:

„Rannsóknarnefndin telur að athuga beri hvort veita ætti Seðlabankanum heimild til að setja reglur um hámark veðhlutfalla og/eða stýra veðhlutföllum með tilliti til eignaverðs og tekna þannig að „hámarkshlutfallið sé lækkað í uppsveiflum og hækkað í niðursveiflu“ svo auka megi virkni peningastefnunnar til þess að slá á þenslu í þjóðfélaginu.“

Þetta má lesa um í 1. bindi.

Það eru því nokkrir hlutir sem við þurfum virkilega að fjalla um. Einn þáttur sem við höfum fjallað talsvert mikið um í þingmannanefndinni, sem er hugsanlega efni í rannsókn ef við förum í frekari rannsókn á einkavæðingunni, er innleiðing EES-reglna og EES-gerða. Það má svo sem segja að almennt tökum við þær inn dálítið hráar oft á tíðum. Það er gagnrýnt harðlega í rannsóknarskýrslunni. Við tökum það reyndar upp á nokkrum stöðum í þingmannanefndinni. Mig langar að renna yfir tvær ályktanir rannsóknarnefndarinnar, með leyfi forseta, eins og stendur í skýrslu okkar:

„Það er niðurstaða rannsóknarnefndarinnar að sú stefna sem var fylgt við innleiðingu EES-gerða um starfsemi fjármálafyrirtækja hér á landi, þ.e. að nota ekki svigrúm sem fólst í gerðunum til þess að setja sérreglur almennt, í þeim tilgangi að bæta samkeppnisstöðu íslenskra fjármálafyrirtækja og með því draga sem mest úr séríslenskum ákvæðum, hafi leitt til þess að almennt var ekki horft til þess hvort ástæða þætti til aðlögunar á reglunum fyrir Ísland. Þá bendir rannsóknarnefndin einnig á að mögulegt hafi verið að endurskoða löggjöfina á hverjum tímapunkti þegar reynsla komst á virkni hennar.“

Þarna er vísað í 5. bindi rannsóknarskýrslunnar. Og áfram, með leyfi forseta:

„Rannsóknarnefndin kemst að því að auknar starfsheimildir fjármálafyrirtækjanna vegna breytinga á lögum samkvæmt EES-samningnum hafi aukið áhættu í rekstri bankanna verulega og er þar sérstaklega bent á heimild til að reka fjárfestingarstarfsemi samhliða viðskiptabankastarfsemi án þess að frekari kröfur hafi verið gerðar um eigið fé fjármálafyrirtækjanna. Af þessum sökum hafi fjármálafyrirtækin verið illa í stakk búin til að mæta þeim erfiðleikum sem upp komu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum árið 2008.“

Þarna er vísað í 8. bindi.

Það hefur reyndar komið fram, og við veltum því fyrir okkur og beinum því til þingsins að velta því fyrir sér, hvort rétt sé að aðskilja starfsemi viðskiptabanka og fjárfestingarbanka eins og til að mynda er í Bandaríkjunum. Í Evrópu er þetta samkrull leyft og kom þar af leiðandi inn til okkar með EES-samningnum. Við höfum líka velt því fyrir okkur hvort aðskilja eigi með beinum hætti innlenda starfsemi banka og erlenda til að reyna að tryggja að atburðir eins og við höfum upplifað gerist ekki aftur. Þá hafa menn á alþjóðamarkaði fjallað um eigið fé og reglur um það og fleiri eru að velta þeim hlutum fyrir sér.

Þingmannaskýrslan sem við leggjum hér fram má segja að taki við rannsóknarskýrslunni sem er, eins og ég nefndi áðan, baksýnisspegillinn. Þingmannaskýrslan stendur síðan við það að meta hvaða lærdóma við eigum að draga af rannsóknarskýrslunni og hvaða lagabreytingar við eigum að fara í eða rannsóknir og úttektir. Yfir það hafa félagar mínir farið í nokkrum orðum.

Það var mjög mikilvægt að þingmannanefndin var samstiga og ég er stoltur af því að við gátum náð saman um flest mál. Þó, eins og fram hefur komið, sýna einstakar fáar bókanir, fáein frávik, að auðvitað erum við ekki sammála um allt. Við vorum sammála og samstiga í vinnunni um þá þætti sem koma fram í rannsóknarskýrslunni og lýsa sér í hörðum áfellisdómi og alvarlegum ávirðingum á starfshætti Alþingis, verklag og óformfestu stjórnvalda, og áður hefur verið minnst á fjármálafyrirtækin. Þegar við segjum stjórnvöld eigum við bæði við framkvæmdarvaldið og stofnanir ríkisins.

Það er líka ákaflega mikilvægt að þingmannanefndin er samstiga í þeim tillögum sem eru lagðar fram um endurbætur, þ.e. hvernig við ætlum að horfa til framtíðar, því það er lykilatriðið. Skýrsla þingmannanefndarinnar er einmitt leiðarljós til framtíðar á meðan skýrsla rannsóknarnefndarinnar er baksýnisspegillinn sem fær fram þá þekkingu sem við þurfum til að líta fram og við eigum að fara að líta fram.

Þingmannanefndin tekur undir þann áfellisdóm yfir þá stjórnmálamenningu, eða eigum við kannski að segja ómenningu, síðustu ára og áratuga sem viðgengist hefur. Sú þróun sem hefur tekið langan tíma hefur skilað sér í svokölluðu oddvitaræði sem lýsir sér m.a. í minna lýðræði, persónulegum átökum og heift í stjórnmálaumræðunni. Stjórnmálaumræðu sem einkennist af hólmgöngu og karpi en skortir faglega rökræðu. Í því sambandi er rétt að minnast á lög um ráðherraábyrgð en væntanlega verður rætt um ráðherraábyrgðina á morgun eða næstu daga. Umræða um hana byggist einmitt á því að draga lærdóm af því sem gerðist og reyna að koma í veg fyrir endurtekningu. Í því sambandi vil ég nefna að við höfum í þinginu á síðastliðnum mánuðum og árum, jafnvel eftir hrun, gagnrýnt bæði oddvitaræði og einstaka ráðherra fyrir að koma í þingið og segja okkur ekki satt. Velta þarf því fyrir sér hvað ráðherraábyrgðin stendur fyrir og hvort við ætlum að halda áfram á sömu braut og við vorum á hér á árum áður. Hvernig fáum við ráðherra hvers tíma til að opna augu sín fyrir ábyrgð sinni?

Ekki síst var mikilvægt að þingmannanefndin var bæði samstiga og sammála um að Alþingi mundi verja og styrkja grundvallarhlutverk sitt sem eftirlitsaðili. Það er eitt af grundvallaratriðum okkar. Í raun má segja að lærdómurinn sem þingmannanefndin dregur sé að nauðsynlegt sé að Alþingi taki aftur til sín það vald og frumkvæði sem það hefur misst til framkvæmdarvaldsins á síðastliðnum árum og áratugum.

Það þarf hugrekki til að standa og segja þessa hluti, að gagnrýna bæði Alþingi og stjórnvöld og átelja vinnubrögð þeirra harðlega eins og kemur fram bæði í rannsóknarskýrslunni og hjá þingmannanefndinni. Það þarf hugrekki til að taka það vald og frumkvæði til sín. Ég held að þingið, Alþingi, verði að sýna þann kraft og það þor sem þarf til. Þegar við tölum um vald erum við auðvitað fyrst og fremst að tala um sjálfstæði í löggjöf. Við erum líka að tala um hvernig eftirlitshlutverk þingsins kemur fram.

Ég vil nefna sem dæmi um frumkvæði valdsins í löggjöf, af því maður er nú kannski mest upptekinn af því sem gerist síðustu dagana hjá manni, þá var ég sem fulltrúi í umhverfisnefnd að vinna að nýrri löggjöf um skipulagslög. Það var mjög áhugaverð vinna þar sem þingið og nefndin tóku mikið frumkvæði. Það náðist mikil sátt í nefndinni um hvaða leiðir ætti að fara. Þær hugmyndir voru framkvæmdarvaldinu ekki endilega að skapi. Þegar við vorum komin hingað í lokin til að afgreiða málið, kom framkvæmdarvaldið inn. Það var erfitt að sleppa valdinu. Við þurfum að hafa hugrekki til að ganga alla leið.

Sem dæmi um eftirlitið eða eftirlitsleysið má nefna að þegar hingað koma skýrslur, til að mynda frá Ríkisendurskoðun, fara þær ekki til neinnar sérstakrar nefndar. Þær eru kannski lagðar fram í fjárlaganefnd en ekki er skylda að fjalla um þær.

Hér vil ég minna á að við getum lært af ýmsum nágrönnum okkar hvernig hlutirnir eru, til að mynda í Noregi. Þingmannanefndin átti möguleika á að kynna sér ítarlega hvernig stjórnskipunareftirlitsnefnd norska þingsins vinnur og átti fundi með henni, og velti m.a. fyrir sér pólitískri ábyrgð og ráðherraábyrgð og einnig eftirlitshlutanum, að láta þá aðila sem skila skýrslum koma fyrir nefndina og farið sé yfir það á formlegan hátt. Fram hefur komið að slíkar tillögur hafa verið lagðar fram í þinginu frá forseta og forsætisnefnd um breytingar á nefndaskipan eða breytingar á þingsköpum.

Síðast en ekki síst er þingsályktunartillagan sem við endum skýrslu okkar á, áskorun um að allir líti í eigin barm og velti fyrir sér, í ljósi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, hvað megi betur fara hjá manni sjálfum, hjá einstökum starfsstéttum sem viðkomandi starfar í, í þeirri orðræðu sem maður viðhefur sjálfur og fleira mætti nefna. Ég held að það verkefni verði okkur erfiðast. Að læra af reynslunni er harður skóli sem margir eiga erfitt með.

Hér er rétt að staldra við. Við verðum á einhverjum tímapunkti að geta farið í harða orðræðu um átakamál, pólitíska ábyrgð og slíka hluti, án þess að fara svo langt að um sé að ræða einhverjar nornaveiðar. Við megum ekki fara þá leið. Við megum heldur ekki horfa stöðugt í baksýnisspeglinum. Við verðum á einhverjum tímapunkti að fara að horfa fram. Bókun þess sem hér stendur og Eyglóar Harðardóttur um einkavæðinguna var tilraun til að við mundum móta okkur nýja stefnu þar sem við gætum sagt: Það liggja öll helstu álitamál málsins fyrir. Það er ljóst að ráðherrarnir sem stóðu fyrir því báru mikla pólitíska ábyrgð. Við getum lokið því með bókun og haldið síðan áfram. Eða ætlum við að halda stöðugt áfram í að rannsaka mál og viðhalda mjög erfiðri og átakamikilli orðræðu um mál sem gerðust fyrir átta, tíu, tólf, fimmtán árum? Hversu lengi ætlum við að halda áfram á þann hátt? Við verðum á einhverjum tímapunkti að finna aðferð til að ljúka málum, pólitískum erfiðum málum.

Við höfum sagt að frekari rannsókn skili engu. Hún skilar engu til að mynda hvað varðar ráðherraábyrgð, það vita allir. Það getur hins vegar vel verið að það megi segja sem svo um þá ráðherra sem sitja undir ámæli að einn ráðherra beri meiri ábyrgð en annar. Hvort það skilar samfélaginu einhverju, efast ég um. Það getur skipt þá ráðherra auðvitað máli. Ég mun ekki, eins og ég sagði fyrr, leggja stein í götu þess ef menn vilja fara þá leið.

Ég bið þingheim að velta því fyrir sér með hvaða hætti hann ætlar að ljúka átakamálum í framtíðinni, því þetta er ekki það síðasta sem við munum taka harða orðræðu um.

Mig langar að nefna hérna dálítið um siðferði. Okkur var það hugleikið, enda fjallar 8. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um það. Sérstakur hópur skoðaði siðferði og það er áhugaverð lesning fyrir alla. Við verðum að velta fyrir okkur hvernig við getum í raun og veru aukið siðferðisstyrk samfélagsins. Þar erum við væntanlega að tala um að komast inn í skólakerfið. Við erum að tala um einkalíf fólks og vinnu. En í öllum þessum hlutum verðum við stjórnmálamenn að ganga á undan.

Umræðan hér í dag og næstu daga verður að einkennast af því. Það verður horft til þess hvernig við högum okkur við þá umræðu sem hér fer fram. Það þýðir ekki að halda því fram að það verði að styrkja og auka siðferðisstyrk þjóðarinnar ef við getum ekki tileinkað okkur það í orðræðunni hér í þinginu. Það er hjóm eitt ef við stöndum ekki við þau orð.

Þingmannanefndinni, okkur öllum níu, er ljóst að sameiginleg undirstaða þekkingarinnar, sem kemur fram í rannsóknarskýrslunni að sé grundvöllur nýs og betra siðferðis, er rökræða en ekki karp. Umræða um siðferði og siðareglur sem endi með því að sem flestir setji sér slíkar reglur. Þetta hljómar mjög leiðinlega. Þetta hljómar eins og það sem við höfum oft gagnrýnt Skandinava fyrir, hvað þeir eru uppteknir af reglum, formfestu. Sumir segja skandinavískt kjaftæði. En það er ekki þannig. Þetta er nauðsynlegt tæki til þess að þróa samfélag okkar.

Umræða um það sem gerst hefur er ekki það mikilvægasta og reyndar eitthvað sem okkur ber að forðast sem allra mest að festast í. Nú er tíminn til að horfa fram á við, hvernig lögum við það sem var ábótavant? Það var margt, við getum verið sammála um það og erum sammála um það. Síðan verðum við að einhenda okkur í aðgerðir.

Við verðum að breyta lögum og reglum til að tryggja að ekki fari aftur á sama veg eftir nokkur ár eða áratugi. Við verðum að tileinka okkur meiri formfestu og fagmennsku, þótt okkur finnist það leiðinlegt.

Vandi fylgir vegsemd hverri, stendur einhvers staðar. Margir þjóðfélagshópar í samfélagi okkar hafa lengi verið uppteknir af því að þekkja réttindi sín, gera kröfur um það sem þeir eiga skilið. En færri hafa því miður haft jafnmörg og hávær orð um skyldur sínar. Við þingmenn erum þar ekki undanskildir. Það eru ýmis mál sem okkur eru falin og við verðum að standa bæði undir vegsemdinni en valda líka vandanum og muna eftir ábyrgðinni sem fylgir störfum okkar.

Ráðherrar, og nú kem ég enn inn á þá umræðu sem við munum væntanlega vera í hér á morgun og næstu daga, verða að átta sig á því, hvort sem þeir eru þingmenn sem taka við ráðherradómi eða utanþingsráðherrar, og gera sér ljóst að það hlutverk er sérstakt starf í stjórnsýslunni. Þeir eru ekki lengur pólitískir þingmenn með áherslur og völd heldur fyrst og fremst starfsmenn með ríkar ábyrgðarskyldur í þjónustu fyrir land og þjóð. Það er síðan hægt að flétta pólitískar áherslur inn í stefnu framkvæmdarvaldsins með samþykki Alþingis. Við ræddum það til að mynda og félagar mínir í þingnefndinni hafa rætt það hér að við þurfum að setja rammalöggjöf í þinginu til þess að ferillinn sé klár, til að mynda um það með hvaða hætti einkavæðing og sala ríkisfyrirtækja á að fara fram. Síðan mundi hvert stjórnvald móta stefnu á grundvelli þess ramma sem til væri á hverjum tíma eftir því hvaða stefnu það stjórnvald hefði. Þá er komin nægileg formfesta til að hlutirnir gangi upp.

Ef við horfum til skýrslu rannsóknarnefndarinnar getum við sagt, í stystu útgáfu, að ábyrgðin liggi hjá bönkunum sjálfum, helstu eigendum þeirra og yfirstjórnendum. Virðingarleysi þeirra við að halda lög og reglur er best lýst með: Það sem ekki er bannað er leyft og það sem er bannað en enginn fylgist með eða tekur í taumana með er hægt að komast upp með. Ég nefndi þetta áðan. Það má segja að það hafi verið munurinn á menningunni á Íslandi og annars staðar, til að mynda á Norðurlöndum. Þessi setning hefur verið mér hugleikin í nokkra áratugi: Það sem ekki er bannað má. Það er hér á landi, en ytra, til að mynda í hinum skandinavísku formfestulöndum, er gjarnan litið svo á að allt sé bannað nema það sé leyft. Þetta kemur ákaflega skýrt fram við lestur skýrslu rannsóknarnefndarinnar um hegðan fjármálafyrirtækjanna og helstu stjórnenda og eigenda þeirra. Framkomu þeirra aðila við yfirvöld og eftirlit í öðrum löndum var lýst með að þar færu menn sem virtu engar reglur og héldu að hægt væri að tala sig fram hjá öllum hlutum. Þar rakst ómenning þeirra á vegg formfestu, reglugerða og hefðar, hluta sem skorti á hérlendis. En það komu auðvitað fleiri við sögu, eftirlitsaðilar brugðust, eins og fram kemur í kynjafræðiskýrslunni á bls. 57, með leyfi forseta:

„Á einföldu máli má segja að bankamenn segi: Það stoppaði okkur enginn. Á meðan stjórnvöld og eftirlitsaðilar segja: Enginn lét okkur stoppa þá. Ábyrgðinni er þar með varpað fram og til baka í hinni stjórnlausu samkeppni.“

Sú stefna og menning sem ríkti á þessum tíma endurspeglaðist í því að eftirlitsiðnaðurinn væri óskapnaður sem yxi stöðugt og eftirlit ætti ekki að íþyngja fyrirtækjum. En það voru fleiri aðilar en eftirlitið. Við höfum farið hér yfir stjórnsýsluna eða stjórnvöld. Þar eru ályktanir og niðurstöður rannsóknarnefndarinnar harðorðar og við gerum þær síðan að okkar í þeim kafla. Þar er hreint út sagt rætt um að þetta sé áfellisdómur yfir íslenskri stjórnsýslu og enn á ný skortur á formfestu, enginn axlar ábyrgð, skortur á viðlagaundirbúningi og þessi harða gagnrýni á oddvitaræðið.

Það er sorglegt að lesa 19. og 20. kafla í 6. bindi rannsóknarskýrslunnar þar sem formleysið, ábyrgðarleysið, skortur á verkferlum, allt þetta stendur einhvern veginn upp úr bókinni eins og klippimyndir í bók sem opnast þegar maður opnar hana. Stundum verður maður hálfþungur yfir þessum lestri. Formleysi og skortur á verkferlum eru hlutir sem við höfum oft sagt að séu kostir samfélags okkar. Við höfum bara notað önnur orð yfir það. Við höfum kallað það sveigjanleika. Við höfum kallað það stuttar boðleiðir vegna tengsla, sem þýðir í raun fljótari afgreiðsla. Staðreyndin er sú að vegna smæðar samfélagsins, vegna þessara fjöltengsla margra, vegna kunningjasamfélagsins, er enn mikilvægara en í stærri samfélögum að viðhafa formlegri samskipti, þ.e. fundargerðir, minnispunkta, fyrir fram ákveðna verkferla og fleiri slíka hluti.

Mér hefur verið tíðrætt um formfestu og ég held að okkur þingmönnum þingmannanefndarinnar verði það hér í dag, kannski næstu daga. Mörgum mun þykja leiðinlegt að framfylgja þessum tillögum þingmannanefndarinnar. Nú nota ég orðið leiðinlegar aftur, vegna þess að það er ástæða fyrir því að við höfum ekki gert þetta, okkur finnst þetta óþægilegt og leiðinlegt, það er miklu þægilegra að sleppa þessu.

Menn munu halda því fram að kerfið verði þyngra og svifaseinna, en það þarf alls ekki að vera svo. Formfestan getur skilað sér í skilvirkni. Það gæti einmitt verið þannig og ég þekki dæmi þess. Ég rakst á mann í gær sem hafði átt samskipti við Íslandsstofu og þar sem þá manneskju var ekki að finna sem hafði áður séð um málið og þá gat enginn leyst úr málinu, því það er alltaf bara einhver einn sem sér um þetta. Þar er hvergi bókað hvað á að gera. Þar voru engir listar til, engir verkferlar þannig að það urðu allir að bíða þangað til annaðhvort sumarfríið var búið eða starfsmaðurinn fannst. Þetta gengur ekki í opinberri stjórnsýslu.

Ég ætla að enda hér á nokkrum atriðum um Alþingi og siðfræði. Það er að nokkru leyti endurtekning á því sem ég sagði áðan.

Við hér á Alþingi verðum að tileinka okkur þekkingu á siðfræði. Við verðum að setja okkur siðareglur. Ég heyrði það í einhverjum ljósvakamiðli í morgun að menn voru að gera grín að því og spurðu: Af hverju gera menn það þá ekki? En orð eru til alls fyrst. Við verðum að nefna siðareglurnar fyrst, áður en þær verða settar. Við verðum að halda umræðunni á háu plani, ekki síst hér í dag og næstu daga. Hún verður að vera hófstillt. Hverju skilar háreystin okkur? Hverju skila ljótu orðin? Við hljótum að geta komið okkar sjónarmiðum fram án þess að vera með slíkt orðfæri.

Umræðan þessa dagana á að skila okkur af stað inn í framtíðina, eins og ég hef margsagt í þessari ræðu. Við eigum að hætta að horfa í baksýnisspegilinn. Við eigum að tileinka okkur aðferðir til þess að ljúka erfiðum pólitískum málum og halda áfram.

Mig langar til að nefna að það eru til aðrir hlutir. Við getum lært af öðrum. Það er nú hreint út sagt stefna framkvæmdarvaldsins að tileinka sér margt sem fer vel fram á Norðurlöndunum. Sjálfur tel ég að það sé margt skynsamlegt sem við getum tekið upp þaðan, þótt við þurfum nú ekki að taka allt hrátt og ómelt. Mig langar til að nefna að sambærilegar nefndir, stjórnskipunar- og eftirlitsnefndir þingsins, ef þær verða settar á í framtíðinni, munu þurfa að fjalla um álitamál sem varða pólitíska ábyrgð og ráðherraábyrgð og þá verðum við að kunna að ljúka málum án þess endilega að ganga alla leið. Í svokölluðu Tamíla-máli var einn ráðherra dreginn fyrir landsrétt eða landsdóm. Aðrir ráðherrar voru skoðaðir og ákærðir og máli þeirra lauk með því að þingið lýsti yfir vanþóknun á störfum þeirra en taldi ekki þörf á að ganga lengra. Það eru til leiðir til að ljúka málum.

Niðurstöðu þingmannanefndarinnar í sambandi við vanrækslu sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndarinnar hefur verið lýst hér. Ég lýsti því í upphafi máls míns að ég tel skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis vera vel unnið plagg og eitt af því sem ég gat vel sætt mig við og tekið undir var niðurstaða þeirra í vanræksluhlutanum er varðaði einstaka ráðherra og eins stjórnendur Seðlabankans og forstjóra Fjármálaeftirlitsins. Við verðum, svo ég ítreki það enn og aftur, að forðast hefnigirni. Við verðum að forðast stórar yfirlýsingar. Við verðum að treysta réttarríkinu og dómstólum, þar þurfum við að sýna þolinmæði. Hluti af því að hér ríki sanngirni og réttlæti í samfélaginu og mönnum líði eins og þeir búi við fullkomið réttlæti og sanngirni er að þau mál sem nú eru hjá sérstökum saksóknara fari þá leið sem þau þurfa að fara og við eigum að bíða eftir því.

Að lokum langar mig að nefna það hér að við eigum að hafa hugrekki til þess verks sem við göngum til. Við eigum að vera jákvæð og bjartsýn. Tækifærin eru óteljandi. Við eigum að horfa til framtíðar. Við eigum að hafa trú á okkur sjálfum og trú á því að við getum unnið á þann hátt, sem ég held að við öll sem höfum talað hér til þessa úr þingmannanefndinni höfum talað um, og ég er sannfærður um að þeir sem á eftir mér koma muni tala á sömu nótum og reyna að koma því inn að við tileinkum okkur þá orðræðu og umræðu hér í þinginu.

Að lokum vil ég þakka formanninum Atla Gíslasyni og nefndarmönnum öllum og sérstaklega starfsmönnum nefndasviðs fyrir mjög gott samstarf. Það hefur á köflum auðvitað verið erfitt og tekið á á ýmsum sviðum, en ég held að ég megi segja að við höfum náð lendingu sem við getum flestöll sætt okkur mjög bærilega við.