138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:16]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin. Mig langar í framhaldi af þessu að inna þingmanninn eftir því hvort hann væri þá tilbúinn til þess, ásamt væntanlega fleiri þingmönnum, að leggja fram tillögu um að fela þinginu að vinna tillögur um með hvaða hætti standa eigi að einkavæðingu í framtíðinni, ég held að það gæti verið ágætislausn.

Mig langar líka á þessum stutta tíma sem ég hef, að taka heils hugar undir hugmyndir þingmannsins um formfestu, hvað hún er mikilvæg. Mig langar af því tilefni að nefna það sem einn gamall lærifaðir minn sagði þegar ég var í námi hér heima, um skráningarskyldu og mikilvægi þess að menn punktuðu hjá sér og skrifuðu niður það sem þeir væru að gera. Hann sagði einfaldlega: Það sem ekki hefur verið skrifað hefur ekki verið gert.