138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:22]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þetta sé í sjálfu sér ágætt verkferli, að komnar séu fram reglur sem okkur var kunnugt um í þingmannanefndinni. Við erum með ábendingar sem koma fram í skýrslunni og í einstökum köflum þar sem fjallað er um innleiðingu EES-gerða, sem væri þá snjallt að hafa til hliðsjónar við endurskoðun þessara reglna fyrir 1. október að ári.

Mig langar líka að taka undir að nauðsynlegt er að fleiri komi að þessu. Ég árétta að þetta er dálítið flókið verkefni. Í vetur eða sl. vor samþykktum við nokkrar slíkar EES-gerðir er vörðuðu matvælafyrirtæki og í kjölfarið komu 25 reglugerðir, bunkinn var held ég svona hár. Ég bara spyr þingheim allan og alla þá sem hlusta: Hver las þetta?