138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:26]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Vitaskuld verðum við að leggja mikla áherslu á að skýrsla þingmannanefndarinnar verði virt og notuð hér innan þings, að hún verði til þess að breyta andrúmsloftinu á þingi og skapa hér ný og betri vinnubrögð. Þess vegna finnst mér og væntanlega fleirum í þessum sal mjög mikilvægt að þessar umbótatillögur fari í ákveðið og gott ferli.

Mig langar að spyrja hv. þm. Sigurð Inga Jóhannsson sérstaklega um þátt nefndanna í þessu starfi vegna þess að ég tel að starf þingnefnda sé einn merkilegasti partur þingmennskunnar, en margur úti í samfélaginu heldur að þingstarfið fari einungis fram hér í þingsal. Svo er aldeilis ekki eins og við þekkjum hér inni. Hvernig sér hv. þingmaður starf þingnefndanna breytast og þá kannski sérstaklega með tilliti til þess meirihlutaræðis (Forseti hringir.) sem verið hefur hér við lýði um áratugaskeið?