138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:27]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er verkefni sem við þurfum að fara í. Við veltum því fyrir okkur og erum með nokkrar tillögur þar að lútandi. Auðvitað byggir það á því að sjálfstæði Alþingis verði meira og að þar verði meira frumkvæði. Ég nefndi það í ræðu minni að við þyrftum að hafa hugrekki til að taka það frumkvæði og þau völd til okkar sem löggjafarþinginu ber að hafa.

Í því sambandi leggjum við m.a. til að nefndaskipan í breyttum þingsköpum — án þess að við höfum farið nákvæmlega ofan í það — taki sem dæmi meira hliðsjón af þörfum löggjafarvaldsins en ekki af þörfum framkvæmdarvaldsins. Það er lykilatriði að nefndir þingsins taki frumkvæði að því að hefja þá löggjöf sem við leggjum til að menn samþykki í þingsályktunartillögunni sem fylgir skýrslunni. Þá held ég að við séum komin vel á veg.