138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:28]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Sigurði Inga Jóhannssyni fyrir góða ræðu og hans miklu störf í nefndinni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um það, vegna þess að við erum búin að ræða í eitt og hálft ár, alveg síðan ég kom á þing — margir hafa komið hér upp, bæði stjórnarþingmenn og stjórnarandstöðuþingmenn — um mikilvægi þess að breyta störfum þingsins hvað varðar umræður, hvað varðar sjálfstæði þingsins. Og ef maður fer í núið sést að lítið eða ekkert hefur breyst. Ég bind miklar vonir við þessa skýrslu sem mjög góð samstaða náðist um. Ég fagna henni og tel hana vera gott og merkilegt plagg. Vegna þess að það kemur fyrir í tillögu nefndarinnar að sérstakri nefnd á vegum Alþingis verði falið að fylgjast með úrbótum á lagaumhverfinu og því sem þarf að breyta, langar mig að spyrja hvernig hv. þingmanni mundi lítast á að þingmannanefndin sæti áfram og tæki það eftirlitshlutverk að sér vegna þess að samstaðan er góð í nefndinni. (Forseti hringir.) Það yrði þá gert fyrir opnum tjöldum og fundum nefndarinnar yrði sjónvarpað (Forseti hringir.) þannig að við hefðum líka aðhald utan úr samfélaginu.