138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:30]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið heils hugar undir orð hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar og ég þakka honum góð orð í garð nefndarinnar. Maður gæti alveg fyllst svartsýni yfir því að við værum hér í tilgangslausri orðræðu og síðan gerðist ekkert meir því að við höfum auðvitað talað um marga af þessum hlutum áður.

Þess vegna var ég að reyna að ítreka það í ræðu minni hversu mikilvægt það var að þingmannanefndin var samstiga í þessum aðgerðum sínum öllum hvað þetta varðaði. Ég get alveg tekið undir þá tillögu hv. þingmanns, þó svo að við sem höfum starfað í þingmannanefndinni séum kannski búin að fá nóg í bili, að á margan hátt sé skynsamlegt og eðlilegt að fela einmitt þessari nefnd eftirlit með því sem hún er búin að vera að vasast í, en við skulum alla vega skoða það með opnum huga.