138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:31]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég geri mér grein fyrir því álagi sem verið hefur á nefndinni undanfarnar vikur og mánuði. Hún á svo sannarlega skilið að fara aðeins í frí. En ég tel að fenginni þessari litlu reynslu minni hér á Alþingi að breytingarnar muni ekki ganga það skart fyrir sig að það muni drekkja nefndinni í viðfangsefnum á næstu vikum.

Ég segi þetta í fullri einlægni og fullri alvöru, virðulegi forseti, vegna þess að mér finnst það mjög mikilvægt, og mikill áfangasigur í því fólginn, að nefndin skyldi komast að einróma niðurstöðu um skýrsluna. Ég er dálítið hræddur um að þegar við förum að ræða þessar þingsályktunartillögur falli skýrslan í skuggann og af því hef ég áhyggjur. Ég tel því mjög skynsamlegt og eðlilegt að þessi ágæta nefnd, sem er vel mönnuð og vel skipuð, hafi þetta eftirlit. Nefndin er búin að leggja í alla þessa vinnu, leggja til þessar breytingar og er best til þess fær að fylgja þeim eftir með aðhaldi gagnvart framkvæmdarvaldinu og okkur þingmönnum.

Ég ítreka enn og aftur þá spurningu hvort hv. þingmaður (Forseti hringir.) teldi ekki eðlilegt að þessari nefnd yrði falið að sjónvarpa fundum.