138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[16:18]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir innlegg hennar í umræðuna og held áfram að hrósa allri nefndinni fyrir hvað hún hefur tekið skemmtilega á umræðum um skýrsluna og um vinnu sína alla. Þau okkar sem hafa í sér döngun, tíma eða vilja til að sitja og hlusta á ræðurnar læra eitthvað nýtt í hverri ræðu og það er ekki endilega það sem gerist þegar maður situr undir orðræðunni í þingsal og því ber að fagna.

Mig langar að spyrja hv. þingmann sérstaklega varðandi styrkjaumræðuna og fjármálaumræðuna, um styrki til stjórnmálaflokka:

1. Hvaða leiðir sér hv. þingmaður til að koma í veg fyrir tengsl fjársterkra aðila, einstaklinga eða lögaðila, við stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka?

2. Getur þingmaðurinn séð fyrir sér að opinberir styrkir kæmu í staðinn eða þá óbeinir opinberir styrkir svo sem útsendingartími í ljósvakamiðlum eða eitthvað þess háttar, þannig að stjórnmálasamtök hefðu tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á jafnréttisgrundvelli?