138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[16:20]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þessar spurningar. Við í Hreyfingunni vorum afar ósátt við hin nýju lög sem komu um fjármál flokkanna því að það átti í raun eftir að ákveða hvernig taka ætti á því máli. Mér finnst áhugavert að það voru formenn flokkanna en ekki þingmenn sem unnu að þessu máli og tóku ákvarðanir um það, það var allt of lítil umræða um þetta mál.

En það er sem sagt haldið áfram með þetta gagnsæisleysi. Nú getur fyrirtæki eða einstaklingur borgað 200 þús. án þess að þurfa að gefa það upp — þið verðið að afsaka að ég er dálítið óskýr, ég er svo lasin.

Vilhjálmur Árnason, sem sá m.a. um siðferðisþátt skýrslunnar, kvað mjög sterkt að orði þegar hann var inntur eftir því hvar viðmið einstaklings í pólitík væri til að þiggja peninga, hvar grensan væri. Hann sagði: Það er engin grensa. Einstaklingar í pólitík eiga ekki að þiggja beina fjárstyrki frá fyrirtækjum. Ein hugmyndin var t.d. að hægt væri að vera með sjóð inni í flokkunum sem mundi útdeila fé til einstaklinga í staðinn fyrir að það væru bein fjárframlög frá fyrirtækjum.

Varðandi útsendingartíma t.d. í sjónvarpi eða í útvarpi finnst mér mjög það góð hugmynd og þyrfti verulega mikið að styrkja þann þátt því að ekki hafa verið neinar skýrar reglur um það nema í aðdraganda kosninga. Það hefur þá oltið á áhuga stjórnmálaflokkanna og þá er það yfirleitt þannig að stærstu flokkarnir gera það sem þeim sýnist og er best fyrir þá og þeir eiga víst nóg af peningum.