138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[16:23]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það er mikið talað um að við þurfum meira gagnsæi og sagt hefur verið í rökræðunni að enginn mundi ganga svo langt í löndum sem við miðum okkur við að krefjast skilyrðislauss gagnsæis á upphæðum, kannski niður í 10 þúsund, þannig að ekki sé verið að telja fram kaffisjóðina. En málið er að við eigum eftir að siðvæða okkur. En þangað til við verðum búin að fara í gegnum siðvæðinguna — það er mikið rætt um það í skýrslu rannsóknarnefndarinnar og almennt talað um það í samfélaginu að við séum óvenjuósiðvædd — þarf aðhaldið að vera meira, á meðan við lærum það. Við virðumst vera frekar vanþroskuð á því sviði.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að ekki séu veittir beinir styrkir frá fyrirtækjum til einstaklinga í pólitík, alla vega eins og staðan er í dag. Miðað við hvað við erum frjó og framsækin þjóð hljótum við getum fundið einhverja lausn á því. Ég skora á þingheim að taka þessa umræðu og það verður hluti af þeirri uppbyggingu sem við þurfum að fara í. Ég skora líka á okkur að fara strax í gegnum siðvæðingu þingsins og setja okkur siðareglur sem allra fyrst.