138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[16:56]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og störf hennar í nefndinni og tek undir margt af því sem kom fram í máli hennar, reyndar ekki allt.

Ég geri mér miklar vonir um að þessi skýrsla nýtist okkur til breytinga í þinginu. Ég ætla ekki að fara að telja upp þær tillögur sem koma þar fram en mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sjái fyrir sér að þær breytingar verði sem við erum að kalla eftir. Ég þarf varla að rifja það upp að það er margsinnis búið að ræða hér í þingsal þörfina á breytingum og rannsóknarskýrsla Alþingis er löngu komin fram. En það hefur ekkert breyst í störfunum að mínu viti eða mjög lítið og framkvæmdarvaldið hefur í raun og veru ekki breytt neinu í starfsháttum.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmann: Sér hv. þingmaður fyrir sér að þetta plagg sem ég bind miklar vonir við, ég tel skýrsluna mjög góða, muni nýtast okkur til breytinga? Eða verður þetta bara einhver froðuumræða í nokkra daga, allir jákvæðir, allt eigi að gerast og svo gerist bara ekki neitt? Ég hræðist það. Mig langar að velta þessu upp við hv. þingmann.

Eins vil ég spyrja hv. þingmann, af því að hún talaði um það í ræðu sinni að það væri mikilvægt að mál væru faglega unnin og ég er algjörlega sammála hv. þingmanni í því, um þrjú atriði sem komu strax upp í huga minn og tengjast hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, en það eru mjög umdeildar ákvarðanir sem hæstv. ráðherra tók: Í fyrsta lagi reglugerðin í sambandi við strandveiðarnar, í öðru lagi að gefa rækjuveiðarnar frjálsar og í þriðja lagi takmarkanir á dragnótaveiðum. Ég spyr hv. þingmann: Kynnti hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þessar ákvarðanir sínar í þingflokki Vinstri grænna áður en hann tók þær?