138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[17:35]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir fyrirspurnina í andsvari hennar.

Ég get ekki, frú forseti, fallist á að hugmyndafræði hafi leitt til falls bankanna. Ég get ekki verið sammála því að stefna og gildi sjálfstæðisstefnunnar hafi valdið hruni bankanna. Ég get ekki tekið ábyrgð á því að inn í bankana fóru og völdust óábyrgir áhættusæknir einstaklingar sem kunnu ekki, frú forseti, að fara með það frelsi sem þeim var falið og báru enga ábyrgð. Í mínum huga er alveg ljóst að í þeim lífsskoðunum sem ég hef um frelsi einstaklingsins til orðs og athafna fylgir ábyrgð og á því verða menn að taka hver og einn. En að hugmyndafræðin ein og sér hafi leitt til falls, á það get ég ekki fallist. En ábyrgðarleysi þeirra sem réðu bönkunum var algert.