138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[18:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða yfirferð. Ég vil líka þakka henni eins og öðrum fyrir mjög fórnfúst og gott starf í þessari þingmannanefnd sem ég held að sé ómetanlegt. Einmitt það að menn skuli hafa náð sameiginlegri niðurstöðu í þessari sýn til framtíðar held ég að sé afskaplega mikilvægt fyrir þjóðina.

Ég tek undir það að allt ferlið er aðdáunarvert, það að Alþingi skuli hafa samþykkt tillögu um rannsóknarnefndina, að hún skuli hafa komið með þessa frábæru skýrslu og síðan hafi þingmannanefndin unnið úr skýrslunni hugmyndir til framtíðar, og held að sagnfræðingar framtíðarinnar, eftir 50–60 ár, muni telja framlagið mjög verðmætt og einsdæmi. Ég er mjög ánægður með þetta ferli eins og heyrist.

Samkvæmt þingsköpum fær skýrslan eina umræðu en ekki tvær eins og tillögur til þingsályktunar. Mér finnst það mjög slæmt og legg til að ef það er ekki heimilt samkvæmt þingsköpum samþykkjum við afbrigði við þingsköp til að þessi þingsályktunartillaga fari til nefndar. Ég hef nefnilega hug á því að gera breytingartillögu við þessa þingsályktunartillögu og skerpa sérstaklega á hlutverki Alþingis, taka nákvæmlega fram hvað menn eiga við með orðunum um grundvallarhlutverk og að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt. Ég legg til, frú forseti, að það verði borið undir þingið að veita afbrigði frá þingsköpum.

Gjaldþrotið var í rauninni gjaldþrot æskunnar — allir gerendur voru meira og minna undir fertugu — og ekki bara það heldur gjaldþrot karlmennsku æskunnar. Þegar bankarnir voru sameinaðir voru gamlir starfsmenn reknir kerfisbundið.