138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[18:10]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég líkt og aðrir nefndarmenn vil byrja mál mitt á að þakka kærlega fyrir samstarfið innan nefndarinnar. Ég vil sérstaklega þakka formanni nefndarinnar, hv. þm. Atla Gíslasyni, fyrir frábæra stjórn og þolinmæðina þegar við vorum að strögglast yfir einstaka orðalagi og hvar við ættum að setja punkta. Ekki síst hefur starf okkar sýnt hversu ótrúlega duglegt og flott starfsfólk við höfum á Alþingi. Við getum aldrei þakkað þeim nógu mikið fyrir alla aðstoðin sem þau veittu okkur í þessari vinnu.

Eins og aðrir nefndarmenn höfum við hugsað okkur að skipta þessu á milli okkar en ég vil samt koma inn í andsvar hv. þm. Péturs Blöndals þegar hann spurði um lánveitingar og lánshæfisfyrirtækin. Þó að ég hafi ekki ætlað að fjalla um það var það eitt af því sem við veltum fyrir okkur. Við teljum fyllstu ástæðu fyrir hluthafa bankanna og slitastjórnina að fara í mál við þá sem lánuðu bönkunum þessa peninga, vegna þess að upplýsingar voru greinilega á markaði. Það endurspeglaðist t.d. í skuldatryggingarálaginu á bönkunum að ekki væri allt í lagi þó að þeir væru með þessa lánshæfiseinkunn. Það eru fordæmi fyrir þessu í Bandaríkjunum og ég veit núna að — við höfum heyrt fréttir af því að Glitnir er í málaferlum vegna skuldabréfaútgáfu í Bandaríkjunum. Hluthafar gætu íhugað að fara í málaferli. Mér skilst að hluthafar Enron eða WorldCom hafi farið í mál við bankana sem lánuðu fyrirtækjunum svona óvarlega og höfðu þar með áhrif á hlutabréfaverðið. Það gerði það að verkum að það varð meira aðlaðandi að kaupa hlutabréf í þessum fyrirtækjum. Þetta er eitt sem var rætt í tengslum við þetta.

Ég vil taka undir allt sem hv. þm. Oddný Harðardóttir talaði um í sambandi við Fjármálaeftirlitið, Seðlabankann og um opinberar eftirlitsstofnanir. Það sem mig langaði til að tala um er hinn hlutinn af eftirlitinu, þ.e. endurskoðendur. Ég hef haft mikinn áhuga á þætti endurskoðenda í hruninu. Það fór fram töluverð umræða um endurskoðendur og löggjöf sem varðar endurskoðendur þegar við fórum í gegnum síðustu breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Þar gerðum við nokkrar breytingar á lögunum um starf þeirra fyrir fjármálafyrirtæki.

Rannsóknarnefndarskýrslan sýnir að endurskoðendur brugðust. Opinberar stofnanir sem hafa eftirlit með fyrirtækjum treysta á þetta eftirlit endurskoðenda. Ef tölulegar upplýsingar sem koma frá fyrirtækjunum eru rangar verður eftirlitið hjá eftirlitsstofnunum, Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum ómarkvisst. Ef þú setur rusl inn færðu rusl út. Þetta sáum við endurspeglast í mati og álagsprófum Fjármálaeftirlitsins. Þarna voru settar inn upplýsingar sem virtust benda til að þess að árshlutauppgjörin sem gerð voru um mitt ár væru hreinlega röng. Mat á eignum frá því um mitt ár og þar til bankarnir fóru á hausinn í október var gígantískt, það hlýtur að hafa verið eitthvað að. Annaðhvort voru þeir ekki að vinna vinnuna sína eða eitthvað annað.

Það er það sem rannsóknarnefndin komst að. Hún taldi sig hafa ástæðu til þess að vísa málum endurskoðenda bankanna til sérstaks saksóknara. Þar er í gangi sakamálarannsókn á athæfi þeirra og störfum.

Ég vil hins vegar benda á tillögur okkar um það að viðskiptanefnd endurskoði lög um endurskoðendur, að farið verði í gegnum löggjöfina. Við erum ekki að segja að löggjöfin hafi verið gölluð en hins vegar þarf að skoða hvernig við getum tryggt sjálfstæði þeirra og óhæði gagnvart þeim sem þeir vinna fyrir. Þetta gildir ekki bara fyrir endurskoðendur fjármálafyrirtækja heldur líka fyrir endurskoðendur sem vinna fyrir hlutafélög. Hlutaféð á að auka traustið, auka gagnsæið á hlutabréfamarkaði og fá fólk til þess að þora að fjárfesta í fyrirtækjum.

Síðan kemur að hinum þættinum, það er eftirlit með störfum endurskoðenda. Nú er það þannig að eftirlit með störfum endurskoðenda er fyrst og fremst í höndum þeirra sjálfra. Miðað við þær niðurstöður sem við sjáum í rannsóknarnefndarskýrslunni þá dugar það eftirlit ekki. Þess vegna kemur fram ábending um að horfa til lagabreytinga. Bandaríska þingið fór einmitt í svona lagabreytingar eftir að WorldCom, Enron og Tyco hneykslin riðu yfir. Þar var mikið samkrull á milli endurskoðenda og stjórnenda fyrirtækjanna. Komið var á stofn sjálfseignarstofnun, Public Company Accounting Oversight Board, sem fékk víðtækar heimildir til þess að hafa eftirlit með störfum endurskoðenda. Hún er fjármögnuð eins og Fjármálaeftirlitið, gjald er tekið af endurskoðendum. Það er athyglisvert að horfa á hvernig þeir skipa stjórn stofnunarinnar. Í henni sitja fimm stjórnarmenn. Seðlabankinn og fjármálaeftirlitið tilnefna í stjórnina en af þessum fimm mega aðeins tveir vera löggiltir endurskoðendur. Þeir mega ekki hafa starfað sem slíkir síðustu fimm árin til að tryggja óhæði þeirra gagnvart stéttinni. Þeir verða að hafa þekkingu en tryggja þarf óhæðið vegna þess að þeir eru eftirlitsaðilar sem eru ekki á vegum ríkisins heldur er þetta sjálfstæð stofnun á vegum einkaaðila.

Önnur róttæk tillaga er að Fjármálaeftirlitið fái heimildir til að skipta út endurskoðendum, stjórnendum og stjórnarmönnum undir ákveðnum kringumstæðum sem við mundum skilgreina. Ég hef velt því fyrir mér. Ef skipaðir hefðu verið tilsjónarmenn með bönkunum strax í janúar eða febrúar, hefði staðan orðið önnur þegar þeir komust á endapunktinn? Hefði verið farið betur með hagsmuni hluthafa og innlánseigenda? Reynslan er sú hvað varðar rekstur fyrirtækja í fjárhagsörðugleikum að menn halda áfram svo lengi sem þeir geta og einhver lætur þá hafa pening.

Ég hef lagt fram þingsályktunartillögu um að setja á stofn ráðgjafarstofu fyrir fyrirtæki í fjárhagsörðugleikum. Eitt af meginhlutverkum hennar er að ráðleggja fyrirtækjaeigendum hvenær þeir eigi að hætta og einnig aðstoða opinberar stofnanir hvenær setja skuli endapunktinn. Það er ekkert erfiðara fyrir stjórnendur eða eigendur en að horfast í augu við það að þetta gengur ekki lengur. Þetta sáum við skýrt hjá Landsbankanum. Svo lengi sem einhver innlánseigandi var tilbúinn til að opna reikning í bankanum voru stjórnendur bankans tilbúnir að halda áfram.

Það er einnig mikilvægt að auka samstarf og samhæfni. Það eigum við eftir að gera þó svo við höfum gert miklar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Við eigum eftir að skoða störf regluvarða og skoða enn betur hlutverk innri endurskoðenda. Við eigum líka að tryggja samstarf og samhæfni við Fjármálaeftirlitið, að þeir hafi góðan aðgang að Fjármálaeftirlitinu. Þetta tel ég mjög mikilvægt.

Ég vil líka koma inn á það hvernig hlutirnir gengu fyrir sig hjá eftirlitsaðilum. Nefndin tókst á um eitt orð eða tvö. Það var þegar við veltum fyrir okkur samskiptum Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans við bankana. Tilfinningin var sú að Fjármálaeftirlitið fór í það hlutverk að vera pennavinur fyrirtækjanna. Þeir skrifuðu bréf og fengu svona la la svör. Þeir skrifuðu annað bréf. Ef þeir uppgötvuðu að eitthvað stórlegt var að fóru þeir í vettvangsathuganir. Þeir fylgdu þessu aldrei eftir með þeim valdheimildum sem þeir höfðu. Þeir hafa heimildir til þess að vísa málum til lögreglunnar. Þegar áhættuskuldbindingar eru orðnar óeðlilegar eiga þeir að vísa því til lögreglunnar. En íslenska fjármálaeftirlitið hélt áfram að skrifa bréf.

Það var líka sláandi að Landsbankinn sá að þetta virkaði mjög vel gagnvart Fjármálaeftirlitinu þannig að þeir tóku upp sömu taktík og fjölguðu pennavinum sínum. Þeir eignuðust einnig pennavini hjá breska fjármálaeftirlitinu og síðan hollenska seðlabankanum sem fer með fjármálaeftirlitið þar. Þeir pennavinir sem voru ekki alveg jafnjákvæðir gagnvart þessum bréfaskriftum og vildu sjá einhverjar aðgerðir — fóru m.a. fram á tryggingar. Ég held að það sé örugglega rétt hjá mér, að haft var eftir Sigurjóni Árnasyni að boðið hefði verið ákveðið veðlánasafn. Síðan var spurt hvort það væri eitthvert gagn að þessu og svarið var: Já, það mundi örugglega enginn samþykkja þetta nema íslenska fjármálaeftirlitið. Öll önnur fjármálaeftirlit hefðu aldrei samþykkt þessar tryggingu, enda reyndist það svo vera að það var ekki íslenska fjármálaeftirlitið sem stöðvaði Landsbankann heldur það breska. Það þurfti hryðjuverkalög til.

Annað sem ég tel vera mikilvægt og hefur aðeins verið komið inn á það í fyrri ræðum og andsvörum. Ég stoppaði við það þegar hv. þm. Pétur Blöndal kom upp og talaði um að bankahrunið hefði verið gjaldþrot karlmennskuæskunnar. Ég fékk þetta að vísu ekki samþykkt í tillöguna en ég ætla að koma því á framfæri hér að það er mikilvægt að þeir sem stjórna eftirlitsstofnunum hafi svolítið grátt í vöngum, það kemur oft ákveðin reynsla með árunum. Það er kannski ekki þannig að við getum skrifað það inn í lagatextann en það þarf að vera þannig að stjórnendur sem fara með mikilvægar valdheimildir og gæta almannahagsmuna farið vel með þetta vald og þeir geti sýnt einurð í sínum störfum. Þeir þurfa að hafa reynslu af því að beita valdi, ekki að skrifa bréf. Það er greinilega fullt af fólki hérna á Íslandi sem er ágætt í að skrifa bréf. Við þurfum hins vegar fólk sem er tilbúið að beita valdi.

Það er þannig á Íslandi að okkur er hvorki vel við valdbeitingu né að hlýða boðum og bönnum. Lítið dæmi um þetta er að uppi í háskóla, þar sem ég hef verið að taka námskeið, stendur fyrir framan hverja einustu kennslustofu að bannað sé að fara með mat og drykk inn í kennslustofurnar. Síðan gengur maður inn og á hverju einasta borði er popp eða kók og á næsta borði samloka. Ég tel að það sé ástæða fyrir háskólann að rífa niður þessi skilti eða gera eitthvað í þessu. Þetta eru skilaboð um að það sé í lagi að hunsa reglur.

Ég skal taka annað dæmi varðandi sjálfa mig. Ég skila bókasafnsbókum alltaf of seint. Ég tel mig þurfa að taka á þessu vegna þess að á bókasafninu eru ákveðnar reglur. Það er ástæða fyrir þessu. Það er einhver annar sem vill lesa þessa bók og því á maður að fylgja settum reglum. Þetta agaleysi er eitthvað sem við þekkjum öll. Við höfum öll talað um að agaleysi sé einkenni íslenskra barna. Við ölum börnin okkar upp án þess að aga þau. Það var kannski einna helst í skólanum að maður hlýddi sundlaugarverðinum enda hlýtur hann að hafa farið á sama agastjórnunarnámskeið og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sem er sérfræðingur í því. [Hlátur í þingsal.]

Þetta er eitthvað sem samfélagið þarf að velta fyrir sér. Hvort það sé agaleysið sem þarna endurspeglast. Við þurfum öll að hugsa um hver ábyrgð okkar sé.

Að lokum varðandi eftirlitsstofnanirnar þá vil ég ræða um Seðlabankann. Það fór svo margt úrskeiðis hjá Seðlabankanum.

Við stöndum frammi fyrir því, samkvæmt mati ríkisendurskoðanda, að tap Seðlabankans á veðlánum sem veitt voru í gegnum hin svokölluðu ástarbréf sé væntanlega í kringum 395 milljarða. Ríkið vonast til að innheimta í kringum 150–200 milljarða af upphæðinni, um 50% ef við erum mjög jákvæð.

Það hefur komið fram í fréttum undanfarið að slitastjórn Sparisjóðabankans hefur hafnað kröfu ríkisins sem yfirtók þessi veðlán frá Seðlabankanum upp á 200 milljarða. Þeir vísa m.a. til þess að þeir telji að Seðlabankinn hafi brotið lög og reglur sem Seðlabankinn setti fyrir starfsemi sína. Ef þetta er rétt er ekki hægt að lýsa því hversu alvarlegt málið er. Ef dómstólar munu staðfesta þetta mat slitastjórnar Sparisjóðabankans er um gígantískar upphæðir að ræða. Við gætum byggt þrjár Kárahnjúkavirkjanir fyrir þessa peninga. Það hugnast ekki hæstv. fjármálaráðherra en við gætum byggt þrjár í viðbót. Við gætum fengið 17 nýjar Hörpur í Reykjavík fyrir þessa peninga. Ég skil ykkur. En endapunkturinn er að við gætum eignast 111 Landeyjahafnir, allar fullar af sandi, fyrir þessa peninga.

Setjum þetta í samhengi við hversu gígantískir fjármunir þetta eru. Að það skuli leika vafi á því að Seðlabanki Íslands hafi framfylgt sínum lögum og reglum sem leiddi til tæknilegs gjaldþrots bankans.

Mig langar að nefna þrjár bókanir sem koma fram og ég tel sérstaka ástæðu til að ræða. Hvað varðar fjármál ríkisins er bókun frá Vinstri grænum þar sem þeir bentu á og lögðu síðan fram þingsályktunartillögu um hvað ætti að gera í ríkisfjármálunum. Mér finnst þetta einmitt vera dæmi um það hversu mikilvæg stjórnarandstaðan er. Þó að hún segi eitthvað sem okkur finnst óþægilegt þarf ekki að vera að hún segi ósatt. Það skiptir miklu máli að þeir sem fara með stjórnina á þinginu og finnist stjórnarandstaðan vera óþolandi, gangi út og andi og hugsi: Ókei, kannski er eitthvað í þessu, kannski er þetta eitthvað sem við ættum að skoða. Þess vegna er svo mikilvægt að við endurskoðum stöðu stjórnarandstöðunnar á þingi og styrkjum hana. Hennar hlutverk er að halda utan um lýðræðið og styðja við það. Stjórnarandstaðan er aðhald stjórnvalda.

Varðandi einkavæðinguna þá hefur verið töluverð umræða um þessar bókanir varðandi einkavæðinguna. Ég tek undir það sem áður hefur komið fram að ef þarf að afla frekari upplýsinga til þess að komast að niðurstöðu um að ekki var í lagi hvernig staðið var að einkavæðingarferlinu, þá skulum við rannsaka það. En við verðum þá líka að skoða heildarmyndina.

Rökstuðningur minn fyrir því að ég taldi ekki ástæðu til þess að fara í sérstaka rannsókn er að þó að rannsóknarnefnd Alþingis bendi á að skýrslan sé ekki heildarúttekt á einkavæðingunni, heldur beinist hún fyrst og fremst að þeim þáttum sem nefndin taldi að varpað gæti ljósi á það sem seinna gerðist í hruninu, þá bendir hún á að fyrir liggja umtalsverðar rannsóknir.

Með leyfi forseta, ef ég fæ að vitna í skýrsluna segir:

„Gögn og upplýsingar varðandi framkvæmd þeirrar sölu“ — og þá er verið að vísa til ríkisbankanna — „hafa að verulegu leyti þegar verið opinberuð og fjallað um þau í fjölmiðlum, bæði með almennum hætti og um einstaka þætti.“

Síðan vísa þeir til skýrslu Ríkisendurskoðunar um einkavæðingu ríkisfyrirtækja, skýrslu framkvæmdanefndar um einkavæðingu sem og ýmis minnisblöð sem Ríkisendurskoðun hefur tekið saman. Þarna er ekki upptalin sú umfjöllun sem komið hefur fram í fjölmiðlum, minnisblöð sem stjórnarandstaðan lét taka saman um þetta og ýmis önnur gögn.

Rannsóknarnefndin reyndi að skýra ákvarðanirnar sem voru teknar við einkavæðinguna. Þeir kölluðu eftir frekari gögnum og yfirheyrðu tvo af þeim ráðherrum sem sátu í ráðherranefndinni um einkavæðingu og Steingrím Ara Arason, sem sagði sig úr framkvæmdanefnd um einkavæðingu á þessum tíma.

Það var síðan niðurstaða mín og hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar, eftir að hafa farið yfir þessi gögn, að bóka eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Þingmennirnir Sigurður Ingi Jóhannsson og Eygló Harðardóttir telja að í ljósi niðurstaðna skýrslu rannsóknarnefndarinnar, skýrslu Ríkisendurskoðunar um einkavæðingu helstu ríkisfyrirtækja árin 1998–2003 og minnisblaða Ríkisendurskoðunar um sölu bankanna að frekari rannsókn á sölu bankanna skili samfélaginu engu. Að mati þingmannanna var sala og einkavæðing ríkisbankanna rétt ákvörðun, en verklagið og atburðarásin við einkavæðingarferlið var hins vegar ekki til eftirbreytni. Þingmennirnir taka því undir þær ávirðingar sem fram koma í skýrslu rannsóknarnefndarinnar um verklag við sölu og einkavæðingu ríkisbankanna, Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands. Þingmennirnir telja að þeir ráðherrar sem stýrðu einkavæðingarferlinu við sölu Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands beri á því fulla pólitíska ábyrgð og lýsa yfir vanþóknun sinni á störfum þeirra við það ferli.“

Minn rökstuðningur fyrir þessu er sá að það var rangt að þrýsta á að selja báða bankana á sama tíma undir erfiðum markaðsaðstæðum. Sú ákvörðun virðist fyrst og fremst hafa verið vegna þrýstings frá Framsóknarflokknum. Ég tel einnig að rangt hafi verið að samþykkja þessa opna heimild fyrir sölunni á bönkunum en heimildarákvæðið var svohljóðandi, með leyfi forseta: „Heimilt er að selja hlutafé ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf og Búnaðarbanka Íslands hf.“

Frumvarpið var lagt fram af þáverandi viðskiptaráðherra og samþykkt af meiri hluta framsóknarmanna og sjálfstæðismanna á Alþingi. Síðast en ekki síst var það ákvörðunin um kaupendurna, tengsl þeirra við stjórnarflokkana voru óþægileg og það hefði átt að gera ráðamenn varkára við söluna. Í ljósi tengsla Framsóknarflokksins gegnum söguna við samvinnuhreyfinguna, sem ég er mjög stolt af, var samsetning S-hópsins sérstaklega erfið. Þar voru m.a. Samvinnulífeyrissjóðurinn og Samvinnutryggingar. Það er jafnframt niðurstaða mín þrátt fyrir að engar upplýsingar liggi fyrir að lög hafi verið brotin við einkavæðingarferlið. Alþingi sagði einfaldlega: Þið megið selja þessa banka. Og það var það sem ráðherrarnir gerðu, nákvæmlega það, þeir seldu ríkisbankana. Punktur.

Almennt gáleysi, já. Of mikið traust, já. Pólitísk tengsl hugsanleg, já, en ekki lögbrot. Til þess að um lögbrot hefði verið að ræða hefði þurft að vera vitund eða grunur um hættuna, meðvitað gáleysi, nálægð hættu eða umfang tjóns. Á þeim tíma voru engar upplýsingar fyrirliggjandi um að starfsemi bankanna gæti ógnað heill ríkisins. Hvorki voru brotin lög né stjórnarskráin. Því skipta fyrningarákvæði ráðherraábyrgðarlaganna engu máli, ekki hvað varðar ráðherra í fyrsta ráðuneyti Geirs H. Haardes, ekki frekar en hæstv. forsætisráðherra eða hæstv. utanríkisráðherra og fleiri sem voru í ráðuneytum Geirs H. Haardes. Vitund um hættuna verður að vera til staðar.

Ekkert af því sem við gerðum í nefndinni var auðvelt. Í bókun minni fjalla ég um störf félaga minna. Fyrrverandi viðskiptaráðherra hefur að mörgu leyti verið fyrirmynd mín í stjórnmálum. Hún er samviskusöm, feiknadugleg, vel gefin og hefur náð einstökum árangri sem kona og einstaklingur í stjórnmálum. Það er sorglegt að þetta ferli skuli skyggja á öll góðu verkin sem þessir ráðherrar skilja eftir sig á þriggja áratuga ferli. Það breytir ekki mati mínu að verklagið og atburðarásin við einkavæðingarferlið var ekki til eftirbreytni. Þeir ráðherrar sem stjórnuðu bera því fulla pólitíska ábyrgð og það hafa þeir sjálfir sagt.

Mér voru sérstaklega hugleikin orð hv. þm. Magnúsar Orra Schram í umræðunni fyrr í dag þar sem hann talaði um frumskyldu okkar þingmanna. Hann sagði að frumskylda okkar væri við almannahagsmuni. Við yrðum alltaf að hafa í huga fyrir hverja við störfuðum. Við höfum líka skyldum að gegna gagnvart félögum okkar í stjórnmálunum, á þingi og í flokkunum. Þegar við þurfum að velja á milli er það frumskyldan sem gildir. Við þurfum öll að horfast í augu við þetta. Það er einmitt það sem ætlum að gera á næstu dögum. Við ætlum að horfast í augu við frumskyldu okkar alþingismanna.

Skýrslan er stór áfellisdómur og við verðum að læra af henni. Vald verður að fylgja ábyrgð og ábyrgð verður að fylgja valdi til þess að hægt sé að stjórna, til þess að samfélag okkar fúnkeri. Það er auðvelt að gleyma því þegar við komum á þing hvað við fáum mikið vald. Við mætum í vinnuna, tökumst aðeins á í þingnefndum, förum upp í pontu og rífumst. Við gleymum því að þetta er ekki bara vinna. Við erum kjörnir fulltrúar. Við fáum mikið vald og mikla ábyrgð þegar við erum kjörin á þing og við þurfum að gera okkur grein fyrir því að við höfum þetta vald hvort sem við erum í stjórnarandstöðu eða í stjórn.

Þjóðin treystir okkur fyrir velferð sinni. Við förum með fjöregg þjóðarinnar og vorum minnt óþyrmilega á það árið 2008. Ekkert verkefni sem við sinnum er einfalt eða auðvelt. Við aukum skerðingu á örorkubótum og skyndilega á eldri maður ekki fyrir mat. Við setjum lög um fjármálafyrirtæki og einstaklingur er dæmdur í fangelsi samkvæmt þessum lögum. Við lokum ríkisstofnun og fjöldi fólks missir vinnuna. Við afnemum fresti um uppboð og fólk missir heimili sín. Við setjum lög um líf fólks frá vöggu til grafar. Við þurfum að nálgast öll verkefni af hugrekki, heiðarleika og festu. Við megum ekki vera hrædd að ræða erfið mál, takast á við þau og horfast í augu við staðreyndir. Það er okkar hlutverk. Þjóðin kaus okkur til þess að sinna þessum verkefnum. Því verðum við að standa okkur.

Ég vona svo sannarlega að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis, sem byggist á einni umfangsmestu rannsókn Íslandssögunnar, og skýrsla þingmannanefndarinnar geti orðið okkar leiðarljós til framtíðar þannig að við höfum þetta alltaf í huga.