138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[18:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir ágæta ræðu og alveg sérstaklega niðurlagið, það var alveg stórglæsilegt. Ég minni á að við hv. þingmenn gætum sett ríkisstjórnina af fyrir kvöldmat og við getum gert mjög margt ef vilji er fyrir hendi, ég geri nú ekki ráð fyrir að það sé vilji til þess. En vald okkar er mjög mikið, ríkisstjórnin situr í okkar skjóli.

Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni lögin um sölu bankanna. Hvar skyldu þau hafa verið samin? Lítil spurning.

Síðan ræddi hún dálítið um ástarbréfin og ég ætlaði að koma inn á þau. Það er dálítið erfitt að dæma ákveðna stöðu fyrir og eftir atburði. Fyrir hrun vissi enginn, allra síst ég og enginn sem ég umgengst, að bankarnir færu allir saman á hausinn, sparisjóðirnir líka og Straumur og ég veit ekki hvað. Það vissi enginn. Meira að segja degi fyrir fall Kaupþings voru menn að tala um að það væri mjög slæmt að tveir bankar færu á hausinn en að Kaupþing mundi standa þetta af sér.

Nú vitum við að það varð hrun. Getum við yfirleitt dæmt um þá stöðu? Ég minni á að bankar um allan heim, í Bandaríkjunum sérstaklega, fengu aðstoð ríkisvaldsins til þess að bæta úr lausafjárstöðu sinni. Ástarbréfin voru snilldaraðferð til þess að leysa úr lausafjárvanda bankanna með því að tengja saman smærri fjármálafyrirtæki og þau stóru af því að menn reiknuðu ekki með þeim ósköpum að allt félli eins og það gerði.