138. löggjafarþing — 159. fundur,  13. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[18:47]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Við ræðum hér skýrslu þingmannanefndar sem var falið að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Við í Hreyfingunni áttum bara einn fulltrúa í nefndinni, hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, en ég hljóp í skarðið fyrir hana sem fastur varamaður, fyrst í vor en svo aðallega nú á lokasprettinum.

Það skal tekið fram að ég er hálfgert lúxuskvikindi í þessari nefnd. Ég tók afskaplega lítinn þátt í vinnslu þeirra tveggja þingsályktunartillagna sem lagðar voru fram jafnhliða skýrslunni og verða hér á dagskrá síðar í vikunni. Af þeim kaleik er ekki létt að bergja og hann var ekki minn þótt ég verði eins og allir aðrir þingmenn að taka upplýsta ákvörðun þegar kemur að atkvæðagreiðslu. Minn starfi var að vinna að þessari skýrslu sem ég tel gagnmerkt rit og það leiðarljós sem okkur hefur skort.

Ég er afskaplega þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í þessu starfi með þingmannanefndinni. Þegar ég bauð mig fram til starfa á Alþingi var það einmitt vinna af þessu tagi sem ég hélt að þingið væri að fara í. Ég hélt að það væri kristaltært að þau vinnubrögð og það verklag sem áður hefði tíðkast gengju ekki lengur. Ég trúði að með nýju fólki kæmu ný vinnubrögð. Þess í stað upplifði ég að það er nánast eins og við sitjum við færibandið og afgreiðum hvert frumvarpið á fætur öðru eins og þorskana þúsund. Völd þingsins hafa mér einna helst sýnst felast í því að geta flækst fyrir eða stöðvað færibandið stutta stund. Svo heldur framkvæmdarvaldið áfram að moka yfir okkur þorskum sem við þurfum að flaka og skima án þess að hafa á þeim of flóknar skoðanir.

Í þingmannanefndinni ríkti einmitt sá samhugur og góða vinnulag sem ég sakna úr þinginu sjálfu. Ég ætla ekki að segja að þetta sé eitthvað einstakt, ég held raunar að slíkur vinnumórall sé regla frekar en undantekning hjá flestum sæmilega vel starfandi fyrirtækjum, félögum og stofnunum. Fólk tekur almennt höndum saman, setur sér sameiginleg markmið og vinnur að þeim, en það virðist teljast til tíðinda að þingmenn úr öllum flokkum geti unnið saman sem einn maður. Nú höfum við fyrirmynd — þetta er hægt ef viljinn er fyrir hendi. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. formanni nefndarinnar, Atla Gíslasyni, sem og öðrum nefndarmönnum fyrir vel unnin störf, vinnusemi, ósérhlífni og hugrekki. Verkefni nefndarinnar var ekki auðvelt og sá hluti sem hér er ekki til umræðu tekur auðvitað mest á sálartetrið. Það skyldi enginn halda að nefndarmenn hafi fengið einhverja útrás fyrir gremju eða hefndarþorsta í því starfi.

Ég vil einnig þakka sérlega flinku starfsfólki nefndasviðs og skjaladeildar Alþingis. Án þeirra hefði þetta ekki verið hægt.

Starf nefndarinnar er ekki fullkomið og það sem háði nefndinni einna helst var sá stutti tími sem henni var ætlaður til að skila niðurstöðum því að frestur til að skila af sér lengdist ekki þótt rannsóknarnefndin sjálf skilaði seinna en gert var ráð fyrir. Í hraðanum leynast hættur og eftir á að hyggja sakna ég þess að í þingsályktunartillögunni er ekki beðið um heildstæða stjórnsýsluúttekt á öllu Stjórnarráðinu eða í það minnsta efnahags- og viðskiptaráðuneytinu sem og forsætisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu.

Eitt af því sem nefndin gagnrýnir er Alþingi sjálft. Ég hafði efasemdir um að þingið sjálft hefði yfir að búa nægilegri fjarlægð, yfirsýn og sjálfsgagnrýni til að takast á við það verkefni að gagnrýna sig, þingmenn sína, og koma með tillögur að úrbótum. Það tókst þó að einhverju leyti þótt ef til vill vanti á að gerð sé grein fyrir því með hvaða hætti þingið og þingmenn bera ábyrgð.

Nefndin er hins vegar sammála um að þingið sé of veikt og að það þurfi að taka völdin aftur í sínar hendur. Í framsöguræðu sinni fyrr í dag sagði hv. formaður nefndarinnar að skýrslan væri sjálfstæðisyfirlýsing Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er hún, og nú er það hlutverk okkar að fylgja því eftir. Alþingi á ekki að vera stimpilpúði framkvæmdarvaldsins, því þurfum við að breyta.

Nefndin var einnig sammála um að umræðuhefðin hér í þinginu yrði að batna. „Alþingi er í ruglinu,“ orðaði hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir það á eldhúsdegi í vor. Því verðum við líka að breyta. Eftir að hafa starfað í því góða andrúmslofti og þeim einhug sem ríkti í nefndinni var það töluvert áfall að setjast inn í þingsal á miðvikudagsmorgun í síðustu viku og fylgjast með dagskrárliðnum störfum þingsins sem á slæmum degi, eins og á síðasta miðvikudagsmorgun, líkist meira uppistandskeppni áhugamanna en þjóðþingi sem sómi er að. Mér flaug í hug að verkefnið væri vonlaust, mér féllust hreinlega hendur, slíkur var framgangur hv. þingmanna og hæstv. ráðherra.

Frú forseti. Það getur enginn breytt Alþingi nema við sem sitjum hér. Ég vil minna á orð Mahatma Gandhis sem sagði að við yrðum að vera sú breyting sem við vildum sjá. Næstu dagar, vikur, mánuðir og ár verða sífelld próf fyrir þingið. Hvernig tekst okkur að vinna eftir eigin skýrslu? Hvernig mun okkur takast að tileinka okkur bæði ábendingar rannsóknarnefndarinnar sem og þingmannanefndarinnar? Hvernig tekst okkur að verða breytingin sem við viljum sjá?

Nú þarf þingið að verða stærra og sterkara en einstakar persónur og leikendur á sviðinu.

Mikilvægt skref í þá átt er að þingmenn, allir sem einn, setji sér siðareglur. Siðareglur eru ekki eitthvað sem maður finnur á netinu og afritar og birtir á heimasíðunni sinni. Í því tilliti skiptir sú vinna og hugsun sem lögð er í gerð reglnanna ef til vill meiru en útkoman. Mikilvægt er að hver og einn líti í eigin barm og hugsi um hvort eitthvað í störfum hans megi betur fara.

Frú forseti. Ég hef ekki sett mér siðareglur frekar en flestir aðrir þingmenn en hyggst gera það áður en nýtt þing kemur saman nú í október.

Ég vona að þessi skýrsla verði sá leiðarvísir að breytingum sem þjóðin kallar öll eftir. Stjórnmál eiga ekki að vera einkamál stjórnmálamanna. Þau koma okkur öllum við, borgurum þessa lands. Ég vil benda á að í því að vera borgari felast ekki eingöngu réttindi heldur líka skyldur. Íslenskir borgarar bera einnig ábyrgð á því hruni sem hér varð. Fæst okkar voru nægilega gagnrýnin á samfélagið. Þar er ég ekki undanskilin því að þótt ég hafi verið gagnrýnin á sumum sviðum, t.d. að mynda gegn hömlulausri virkjunargleði og þenslu í orkuiðnaði og gegn þeirri neysluhyggju sem mér fannst einkenna íslenskt samfélag, kom ég ekki auga á hættuna sem vofði yfir íslensku bankakerfi. Verkefni okkar nú er að hindra með öllum tiltækum ráðum að slík hætta geti byggst upp aftur.

Í skýrslu þingmannanefndarinnar er að finna góða kafla þar sem farið er vel yfir hvernig bæta þurfi fjármálakerfið og styrkja eftirlitsaðilana. Þar er tæpt á fjölmörgum atriðum sem brýnt er að laga eins fljótt og auðið er.

Marka þarf opinbera stefnu um fjármálamarkaðinn og að í henni komi fram skýr framtíðarsýn um hvers konar fjármálamarkaður eigi að vera hér á landi. Við verðum að vita hvert við stefnum svo að við vitum hvernig við ætlum að komast þangað. Slík opinber stefna styrkir tilgang og markmið löggjafarinnar og eykur skilning og virðingu fyrir þeim reglum sem gilda um fjármálamarkaðinn. Þingmannanefndin ályktar að nauðsynlegt sé að stefnumótun fari fram um hvers konar fjármálakerfi samrýmist stærð og þörfum þjóðarbúsins, hvert eigi að vera hlutverk ríkisins í rekstri fjármálafyrirtækja til framtíðar, hvers konar fyrirkomulag við viljum hafa á innstæðutryggingum, hvernig við ætlum að innleiða EES-gerðir og laga að íslenskum aðstæðum og hafa eftirlit með fjármálafyrirtækjum.

Nauðsynlegt er að löggjöf um fjármálafyrirtæki og kauphallir verði endurskoðuð og leggur nefndin til fjölmargar tillögur sem margar hverjar eru róttækar, svo sem að það sé skoðað í fullri alvöru hvort skilja eigi á milli innlánsstofnana og fjárfestingarbanka og skoða erlenda starfsemi sem og samstæðufélaga. Það hefur ekki verið gert í Evrópu til þessa en í ljósi þess að ekkert ríki í Evrópu hefur orðið eins illa fyrir barðinu á fjármálakreppunni og Ísland er rétt að við minnkum áhættuna með öllum tiltækum ráðum. Við verðum að sníða okkur stakk eftir vexti og við getum ekki leyft okkur að taka gagnrýnislaust upp regluverk annarra þjóða. Þá á ég ekki við að við höfnum samstarfi, t.d. við aðrar Evrópuþjóðir. Því fer fjarri og ég held að það geti einmitt verið hentugt að taka upp enn nánara samstarf við aðrar þjóðir, svo sem við rekstur kauphallar og tryggingarinnstæðusjóð fjárfesta. Grundvallaratriði er að við skoðum alltaf hvað okkur hentar á gagnrýninn hátt.

Þingmannanefndin telur einnig mikilvægt að styrkja löggjöf um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði. Við viljum endurskoðun á ýmsu öðru í löggjöfinni og leggja sérstaka áherslu á ýmis atriði, svo sem að lögfestar verði reglur um skjalagerð, tryggingar og lánveitingar til eignarhaldsfélaga. Takmarka verður heimildir forstjóra fjárfestingarfélaga til að stunda fjárfestingar á eigin vegum. Skýra verður reglur um eigið fé til að takmarka áhættu. Skýra þarf heimildir til að gera framvirka samninga. Setja verður skorður við samþjöppun áhættu í íslenska fjármálakerfinu. Skylda verður fjármálafyrirtæki til að setja sér reglur og birta upplýsingar um gjafir, kostun og styrki. Styrkja þarf löggjöf innra eftirlits fjármálafyrirtækja og aðgengi þeirra að Fjármálaeftirlitinu. Herða ber reglur um tengda aðila og skýra reglur um skráningu á eignarhaldi.

Þá telur þingmannanefndin athugandi hvort Fjármálaeftirlitið eigi að hafa virkar valdheimildir til að skipta út stjórn, stjórnendum og ytri endurskoðendum fjármálafyrirtækja ef áhættustýring og rekstur eftirlitsskylds aðila er með þeim hætti að hagsmunum innstæðueiganda og annarra lánardrottna er stefnt í hættu.

Frú forseti. Þetta eru þau atriði sem hægt er að laga með lagasetningu. En hvernig tryggjum við að fólk fylgi lögum? Hvað getum við gert til að auka virðingu ekki bara bankamanna og alþingismanna heldur alls almennings fyrir lögum og reglum? Stundum er eins og það viðhorf að lög megi brjóta svo lengi sem enginn sjái til sé ríkjandi á Íslandi. Kannski er það arfur frá Þorgeiri Ljósvetningagoða. En nú eru aðrir tímar og það er mikilvægt að við öll fylgjum reglum og lögum, berum virðingu fyrir réttarríkinu og áttum okkur á því að gerðir okkar í dag geta haft áhrif á framtíð allra landsmanna.

Við verðum að vera breytingin sem við viljum sjá.