138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:15]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð eiginlega að viðurkenna að ég átta mig ekki alveg á þessum málflutningi. Þeir sem þekkja til minna verka hér í gegnum tíðina á Alþingi vita að ég hef margsinnis flutt mál til að styrkja hlut löggjafarvaldsins gagnvart framkvæmdarvaldinu og eru til ótal mál um það. En ég held að við séum náttúrlega komin ansi langt í því ef framkvæmdarvaldið á að koma til þingsins hverju sinni og spyrja hvort það megi flytja mál um þetta og hitt og jafnvel að fara með það inn í þingið til sérstakrar skoðunar þar. Ég held að það hjálpi okkur ekki í málum. Mér finnst það mjög til bóta ef bæði er til lagaskrifstofa á Alþingi og í Stjórnarráðinu eins og ég sagði.

Þó að Alþingi vilji ganga langt til að tryggja hlutverk sitt og þrískiptingu valdsins þá styð ég það mjög en það má þá ekki taka allt frumkvæði af framkvæmdarvaldinu, að það megi ekki flytja frumvörp öðruvísi en að spyrja kannski Alþingi um það og megi alls ekki flytja frumvarp ef einhvers staðar hefur komið fram að það sé í undirbúningi á vettvangi hjá einstaka þingmönnum eða þinghópum. Það gengur auðvitað ekki. Við þurfum líka að tryggja sjálfstæði framkvæmdarvaldsins, ekki satt?