138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:19]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef heyrt þessa ræðu hv. þingmanns áður. Ég veit ekki betur en ég hafi oft og tíðum tekið undir þessi sjónarmið hv. þingmanns og að einhvers staðar séu til greinar eftir mig um að frumkvæðisskylda Alþingis í lagasetningu ætti að vera meiri. Ég styð það því heils hugar að Alþingi hafi meiri frumkvæðisskyldu í því að leggja fram mál. Ég tel að við ættum líka kannski hjá framkvæmdarvaldinu að taka það meira upp, þegar við erum að skipa nefndir og skýrslur hafa verið gefnar út um einstaka mál — ég tala nú ekki um stór mál — að skýrslan sé þá bara kynnt á Alþingi fyrir þingheimi og þingnefndum áður en farið er að semja lagafrumvörp. Ég held að við séum ekkert voðalega langt hvort frá öðru í þessu, ég og hv. þingmaður. En ég legg á það áherslu að það má ekki heldur fara að taka frumkvæðisskyldu af framkvæmdarvaldinu að flytja mörg og brýn mál sem það flytur hér fyrir þingið. Ég styð það að þingið auki frumkvæðisskyldu í þessu máli. Ég er alveg tilbúin að leggja mig fram um það, þegar við erum að fjalla um stór mál sem liggja fyrir skýrslur um, að þingið fái að fjalla um það áður en farið er að ráðast í að útbúa frumvörp þannig að sjónarmið þingsins geti komið fram á undirbúningsstigi máls meira heldur en það fái málið fullbúið inn í þingið.