138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:22]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Umræða um skýrslu rannsóknarnefndarinnar fór fram hér á Alþingi í kjölfar útgáfu hennar síðasta vor. Niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar ber að taka alvarlega því að þjóðin öll á mikið undir því að okkur auðnist að draga sameiginlegan lærdóm af því sem fór úrskeiðis og fyrirbyggja að það endurtaki sig. Það verður ekki auðvelt verk að draga slíkan sameiginlegan lærdóm. Ég er reiðubúinn til að leggja mitt af mörkum svo að sem víðtækust sátt geti tekist um meginniðurstöður þessarar vinnu. Útilokað er hins vegar að sameiginlegur skilningur verði á endanum um orsakir alls þess sem hér hefur gerst og innbyrðis samhengi hlutanna. Verkefni okkar er að leiða fram niðurstöðu sem færir okkur fram veginn og skilja frá, eftir því sem hægt er, ágreiningsefni sem ekki hafa raunhæfa þýðingu fyrir framtíðina.

Hlutverk rannsóknarnefndarinnar var að draga upp heildarmynd af aðdraganda að falli bankanna og greina helstu orsakir þess. Að auki var nefndinni falið að leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni. Niðurstaða nefndarinnar var þungur dómur yfir starfsemi fjármálafyrirtækjanna og starfsháttum víða í viðskiptalífinu. Í fjármálafyrirtækjunum ríkti taumlaus áhættusækni, sérstaklega hjá stóru bönkunum þremur sem uxu langt út fyrir það sem þeir gátu risið undir. Algjört fyrirhyggjuleysi. Þessi hegðun var meginorsök hrunsins. Enginn getur tekið ábyrgðina af þeim sem þar áttu í hlut. Framganga þeirra var ekki í boði neinnar hugmyndafræði sem talað hefur verið fyrir hér í þingsölum. Þetta er undirstrikað í þeirri þingsályktunartillögu sem hér liggur frammi þar sem segir „að stjórnendur og helstu eigendur fjármálafyrirtækjanna á Íslandi beri mesta ábyrgð á bankahruninu.“

Það er hins vegar svo að það er hlutverk stjórnvalda að setja lög, reglur og ramma um atvinnustarfsemina, þar með talið fjármálafyrirtækin. Við verðum að horfast í augu við að þessi lög og þær reglur og þeir rammar sem þarna giltu brugðust okkur. Fram hjá því verður ekki litið.

Virðulegi forseti. Skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis er gríðarmikil að vexti. Umfang verksins er slíkt að ómögulegt er að gera því skil í stuttu máli. Umræðan hér á þinginu takmarkast því við meginatriði. Niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis, skýrslan sjálf, koma nú að nýju til umfjöllunar eftir yfirferð þingmannanefndarinnar sem skilar niðurstöðum sínum og tillögum. Það er ljóst að þingmannanefndinni var falið afar umfangsmikið verkefni og vandasamt. Ekki verður annað ráðið af niðurstöðunum og framsögu nefndarmanna en að allir nefndarmenn hafi lagst á eitt um að haga skipulagi vinnunnar þannig að sem víðtækust sátt gæti tekist um meginniðurstöður. Það var skynsamleg nálgun. Hafa ber í huga að vinna af þessum toga er fordæmislaus á Alþingi, enda þurfti að setja sérstakar reglur um starf nefndarinnar þótt nú séu í smíðum almennar reglur fyrir rannsóknarnefndir af þessum toga.

Meginhlutverk þingmannanefndarinnar var að fylgja eftir ábendingum rannsóknarnefndarinnar varðandi breytingar á lögum og reglum, auk þess að sjálfsögðu að fjalla um hvaða lærdóma draga megi af efnahagsáföllunum og þar var ekkert undanskilið.

Þakka ber nefndarmönnum fyrir þá miklu vinnu sem þeir hafa lagt í verkið undanfarna mánuði. Við höfum fylgst með því aðrir þingmenn í fjarlægð að þeir sem þarna komu að verki hafa varla getað litið upp úr skjölum og verið margan daginn langt fram á kvöld og nótt hér á þinginu, ekki síst undanfarnar vikur.

Ekki er hægt að láta hjá líða að minnast á þá einkennilegu ráðstöfun hæstv. forsætisráðherra að skipa aðra sjálfstæða nefnd sem fékk það hlutverk að taka skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis til ítarlegrar umfjöllunar áður en þingið sjálft hafði lokið meðferð málsins. Þannig hratt hæstv. forsætisráðherra af stað vinnu við að meta þau atriði sem sneru sérstaklega að stjórnsýslunni og starfsháttum Stjórnarráðsins til hliðar við vinnu þingsins. Stjórnsýslan skipaði nefnd og komst sjálf að því hvað hún þyrfti að laga. Það var nú ágætt. Það var gott að búið var að ljúka því verki fyrir sumarið.

Það er kannski þetta verklag sem menn eiga við hér í umræðunni þegar rætt er um tilhneigingu framkvæmdarvaldsins til að æða fram án tillits til vilja og sjálfstæðis þingsins.

Frú forseti. Meiri hluti skýrslu þingmannanefndarinnar er í raun samantekt á skýrslu rannsóknarnefndarinnar og niðurstöðum hennar. Í framhaldi af þeirri samantekt fyrir hvern kafla birtast niðurstöður og ályktanir þingmannanna, nefndarmannanna, ásamt með bókunum einstakra nefndarmanna þar sem það á við. Það er reyndar algengast að sjá eftirfarandi málsgrein í upphafi hvers niðurstöðukafla:

„Þingmannanefndin tekur undir niðurstöður og ályktanir rannsóknarnefndar Alþingis og leggur til að þær verði í meginatriðum lagðar til grundvallar við úrbætur á löggjöf.“

Við þessu er í sjálfu sér ekki annað að segja en að það er breið samstaða um tillögur rannsóknarnefndar Alþingis í öllum meginatriðum.

Ég ætla að taka til umfjöllunar nokkra valda kafla í skýrslu þingmannanefndarinnar og bregðast í stuttu máli við sumum ályktunum hennar þótt auðvelt væri að nýta allan ræðutímann til að fjalla t.d. eingöngu um fjármálamarkaðinn. En einhvers staðar verður að byrja og ég ætla fyrst að ræða stuttlega um kaflann um efnahagslegt umhverfi og innlenda efnahagsstjórnun.

Ég vil byrja á því að segja að ég tel að niðurstöður um þann kafla, sú breiða mynd sem þar er dregin upp, sem vísar í hagstjórnina jafnvel rúman áratug aftur í tímann, séu að mínu áliti komnar talsvert frá kjarna málsins, þ.e. meginorsökum þess að bankakerfið féll. Það er hins vegar augljóst hverjum manni sem kynnir sér efnahagsmálin aftur í tímann, að við misstum tök á þenslunni og það var skortur á samþættingu aðgerða Seðlabankans og hins opinbera til að halda stöðugleika.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að Seðlabankinn hafi nánast verið látinn einn um að berjast við þensluna. Þannig að ekki er hægt annað en að taka undir þegar fram koma tillögur í rannsóknarnefndarskýrslunni og aftur frá þingmannanefndinni um að samþætta verði aðgerðir hins opinbera og Seðlabankans við að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Þar skortir greinilega mikið á. Það er auðvitað ljóst þegar við lítum til baka að aðhald í ríkisfjármálum var langt frá því að vera nægjanlegt.

Í skýrslum rannsóknarnefndarinnar og þingmannanefndarinnar er leitast við að skilja hvernig þetta gat gerst. Við þekkjum dæmi víðs vegar að úr Evrópu þar sem ríki hafa verið með halla á fjárlögum ár eftir ár og lenda í kjölfarið í miklum efnahagslegum erfiðleikum. Það er í sjálfu sér fyrirsjáanlegt þegar ríki eru með halla á fjárlögum ár eftir ár að það muni enda með ósköpum. En var það tilfellið hér á Íslandi? Nei, það var nefnilega ekki tilfellið á Íslandi. Við vorum með ríkisfjárlögin í ágætu jafnvægi ár eftir ár, jafnvel þannig að við vorum að skila metafgangi ár eftir ár. Ég tel að þetta hafi m.a. byrgt mönnum sýn.

Þingmannanefndin segir að stjórnmálamenn verði að vera tilbúnir að axla þá ábyrgð að breyta stefnu sinni í samræmi við stöðu efnahagslífsins á hverjum tíma. Gott og vel. En þá verða menn að geta gert sér grein fyrir því hver staða efnahagslífsins er á hverjum tíma. Upplýsingar um hana, áreiðanlegar upplýsingar, verða að vera handbærar og þær þurfa að koma tímanlega fram. Ef við lítum til baka, t.d. til ársins 2004, vanmátu menn þensluna, hagvöxtinn sem þá var að byggjast upp í hagkerfinu, stórkostlega. Það kom ekki í ljós fyrr en í mælingum Hagstofunnar löngu síðar hvaða aðstæður voru í raun í hagkerfinu á því ári. Samt sem áður vorum við hér að stilla saman fjárlögum og miða aðgerðir í ríkisfjárlögum í veruleikanum eins og hann blasti við okkur á þeim tíma.

Stóra myndin eins og ég sé hana var eitthvað á þessa leið: Við vorum að greiða niður erlendar skuldir. Jafnframt var verið að greiða inn á lífeyrisskuldbindingar í stórum stíl. Þetta var hægt að gera þrátt fyrir að skattar væru lækkaðir bæði á fólk og fyrirtæki. Á sama tíma og þetta tvennt var að gerast voru framlög til velferðarmála og framkvæmda aukin verulega. Þrátt fyrir að allt þetta væri hægt að gera var mikill afgangur á fjárlögum, verulegur afgangur á fjárlögum. Hvað var það þá eiginlega sem menn sáu ekki í þessari mynd? Hvað var það sem mönnum yfirsást? Ég tel að menn hafi í fyrsta lagi stórlega ofmetið tekjur ríkisins til framtíðar litið, þær voru ekki sjálfbærar. Þær byggðust að hluta til á allt of sterku gengi krónunnar og þessu ofvaxna fjármálakerfi sem var í stöðugum vexti ár frá ári. Og menn vanmátu, eins og ég gat um áðan, þörfina fyrir enn frekara aðhald í ríkisfjármálunum. Í stórum dráttum vanmátu menn líka vöruskiptahallann. Við ræddum um það hér oft í þinginu á þessum tíma: Hann væri jú 15% en þetta mundi snúast mjög hratt við. Ég tel sem sagt að menn hafi stórlega ofmetið getu okkar til að snúa vöruskiptajöfnuðinum við án þess að því fylgdi harkaleg leiðrétting á genginu, eða öllu heldur að það væri mögulegt án leiðréttingar á gengi.

Hér hefur oft verið minnst á skattamálin. Ég nefndi það að við lækkuðum skatta á sama tíma og útgjöld voru aukin, vorum samt með afgang. Skattaaðgerðir ríkisstjórnarinnar í dag eru kynntar til sögunnar til að leiðrétta þau mistök sem áður voru gerð í skattamálum fyrri ríkisstjórna. En hvernig var umræðan hér í þinginu á þessum tíma? Hvert var t.d. ástandið eftir kosningarnar 2003? Rifjum það nú aðeins upp. Ég man eftir því, þá nýr þingmaður hér á Alþingi, að hafa t.d. átt orðastað við verðandi varaformann Samfylkingarinnar sem réðst að okkur eftir að skattaáform nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks voru kynnt til sögunnar — samfylkingarþingmenn réðust að okkur nýjum þingmönnum og sögðu: „Þið eruð búin að svíkja öll loforðin um skattalækkanirnar, þið ætlið ekkert að gera fyrr en á síðari hluta kjörtímabilsins. Það er bara einn flokkur sem er raunverulegur skattalækkunarflokkur og hann heitir Samfylkingin.“ Þetta sagði hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson héðan úr ræðustól. Í dag eru hins vegar margir þessara sömu þingmanna tilbúnir til að stíga fram og segja: Þetta var allt Sjálfstæðisflokknum að kenna. Þetta var einhverjum öðrum að kenna.

Við skulum bara horfast í augu við veruleikann eins og hann var á árinu 2003. Hvað sögðu þingmenn Vinstri grænna á þessum tíma? Ekki ætla ég að halda því fram að þeir hafi yfirboðið hina flokkana. Þeir sögðu þó eitt. Þeir sögðust ætla að verja öllu auknu svigrúmi ríkisins, sem mundi mögulega myndast næstu árin vegna þeirrar hagvaxtarþróunar sem var í kortunum, til frekari ríkisútgjalda, þ.e. það átti að nota það til að leiðrétta kjör þeirra sem Vinstri grænir töldu að orðið hefðu eftir í þeirri uppbyggingu sem átt hafði sér stað árin á undan. Þetta átti allt saman að fara í útgjöld, á útgjaldahliðina, ekki átti þetta að verða til að auka aðhaldið.

Þetta vildi ég sagt hafa um efnahagsmálin. Það er rétt sem kemur fram í kaflanum að margt fór úrskeiðis. Mér finnst hins vegar að ýmsar ályktanir sem dregnar eru af því sem þá gerðist og umfjöllun þingmannanefndarinnar að öðru leyti séu dálítið sjálfsögð sannindi, ekki mjög haldbær til að byggja ákveðnar aðgerðir á þó að þar séu inn á milli mjög traustar tillögur.

Mig langar líka aðeins til að ljúka þessari umræðu og minnast á hvað það er sem ég er í raun og veru að tala um. Ég er að tala um að það þurfi meiri aga, miklu meiri aga, betri upplýsingar, meiri samþættingu og miklu meiri aga. Það mun ráðast af því hvort okkur tekst að innleiða þennan aga í efnahagsstjórnina hvernig okkur tekst til í framtíðinni, hvort líkur eru til þess að við lendum í sambærilegum erfiðleikum jafnvel innan næsta áratugar. En þeir eru líka til hér í þinginu sem hafa gefist upp á þessu verkefni, vegna þess að þeir telja að þennan aga verði einungis hægt að flytja inn með nýjum gjaldmiðli. Útilokað sé að innleiða þann aga nema með því að ganga í Evrópusambandið. Við ættum kannski að ræða meira um það, hvort það er eina leiðin eða hvort tillögur sem hér eru fram komnar, bæði frá rannsóknarnefnd Alþingis og frá þingmannanefndinni, eru líklegar til að skapa grundvöll undir stöðugleika og aga í ríkisfjármálunum þannig að við tökum ekki þessar dýfur sem við höfum þurft að upplifa undanfarin ár. Setjum þetta í þetta samhengi í ríkari mæli en gert hefur verið fram til þessa.

Næst ætla ég að koma inn á umræðuna um þingið. Það eru ágætar tillögur hér í skýrslu þingmannanefndarinnar og reyndar fín umfjöllun líka í rannsóknarnefndarskýrslunni um þingið og stöðu þess. Ég vil byrja á því að segja: Í mínum huga er þetta nokkuð skýrt. Það er algerlega ljóst að þingið er langvaldamest samkvæmt stjórnarskránni. Það ber höfuð og herðar yfir aðrar stofnanir ríkisvaldsins innan þessarar þrískiptingar. Þingið á síðasta orðið. Við höfum hins vegar séð hér á þinginu tilhneigingu til þess að eftirláta framkvæmdinni að ráða för í einstökum málum. Ég tel að sú umræða þurfi að vera miklu meira á forsendum þingræðisins, þingræðisreglunnar, þeirrar hugmyndafræði sem þingræðið byggist á, heldur en á þeim grundvelli sem mér finnst frekar lagður í þessari umræðu, að þingið geti þrátt fyrir þingræðisregluna skapað sér algert sjálfstæði frá ríkisstjórninni. Það verður auðvitað ekki þannig ef við ætlum áfram að byggja á þingræðisreglu.

Ég hef hins vegar bæði í ræðu og riti á undanförnum árum vakið athygli á því að ég teldi að styrkja mætti til muna innviði þingsins, auka faglega þekkingu, forsendur okkar þingmanna til að vinna nákvæmar og betur að málum. Í því sambandi hefur mér t.d. verið hugleikið að sjá hver þróunin hefur verið varðandi vöxt aðalskrifstofu ráðuneytanna undanfarin ár í samanburði við skrifstofu þingsins. Á sínum tíma tók ég saman um þetta töflu. Það var mjög auðvelt að sjá að aðalskrifstofur ráðuneytanna voru að vaxa langt umfram þingið í framlögum á fjárlögum. Samt er það þannig að þegar við tökum þessi mál til umfjöllunar hér í þinginu er eins og þingið sjálft sé alltaf svo feimið við að stíga skref sem eru nauðsynleg til að gera eitthvað raunhæft í þessum málum. Hér er ég t.d. að vísa sérstaklega til þess að þingmenn hafi nauðsynlega aðstoð, aðbúnað, aðgang að fólki og upplýsingum til að vinna að gerð lagasetningar.

Í þessu sambandi er líka nærtækt að horfa til innleiðingar á ESB-gerðum. Ég sakna þess reyndar að í þingmannaskýrslunni sé ekki minnst á skýrslu utanríkismálanefndar frá því fyrir tveimur árum, að ég hygg, sem er til meðferðar í forsætisnefnd þingsins einmitt um það að við endurskoðum verklagið við innleiðingu ESB-gerða. Ef menn skoða kaflann um þetta atriði í rannsóknarnefndarskýrslunni er svo augljóst, þó að við horfum ekki nema bara á þann takmarkaða þátt málsins, þ.e. innleiðingu reglna á fjármálamarkaðnum, að við höfum algerlega brugðist í eftirlitshlutverki okkar, þetta hefur meira eða minna allt saman verið étið hrátt upp eftir Evrópusambandinu án aðlögunar að íslenskum aðstæðum.

Dæmi um það hefur verið nefnt hér í umræðunni og er t.d. kaupaukakerfið. Það er bara eitt dæmið af mörgum. Við getum tekið annað dæmi sem velt er upp í þingmannanefndarskýrslunni, sem er það hvort við eigum að aðskilja viðskiptabanka- og fjármálabankastarfsemi. Þar er mikilvægt að hafa í huga að við getum sett okkur reglur um það fyrir íslenska banka, jafnvel þótt erlendir bankar þurfi ekki að lúta þeim reglum og geti starfað hér þvert yfir landamærin. En við getum sagt um íslenska banka að þeim beri að gera slíkan aðskilnað. Það er í raun og veru stórmerkilegt, eftir allt það sem hér hefur gerst, að við skulum ekki vera komin lengra í þeirri umræðu hér á þinginu.

Ég vil taka undir margar af þeim tillögum sem hér eru komnar fram, um að styrkja innviði þingsins, en ég get ekki tekið undir með þeim sem ganga lengst í fullyrðingum um að staða þingsins sé veik vegna þess að formlegt vald þingsins er algerlega óumdeilt. Kannski er það bara þannig, eins og ágætur fyrrverandi forseti þingsins sagði við mig um daginn: „Þingið verður á endanum aldrei sterkara en fólkið sem þar situr.“

Við þurfum kannski að líta í eigin barm og virkja þann rétt sem þingið hefur til að eiga síðasta orðið og stýra málum þyki mönnum of geyst farið eða upplýsingar skorta. Þessa umræðu þarf síðan að taka, eins og ég nefndi áðan, með hliðsjón af því hvort við ætlum áfram að byggja á þingræðisreglunni eða ekki. En mér finnst margir sem lengst ganga í umræðunum um að styrkja sjálfstæði þingsins í raun og veru vera að tala um að leggja af þingræðisregluna. Ég hef samt ekki heyrt það berum orðum.

Hér eru til umfjöllunar og meðferðar í þinginu tillögur til breytinga á þingsköpum og fleira, ég fagna því, ég styð að áfram verði unnið að því undir forustu forseta þingsins.

Ekki er hægt að ljúka við kaflann sem snýr að þinginu og ráðherrunum án þess að minnast á það að hér kemur fram tillaga frá þingmannanefndinni um að taka til endurskoðunar lögin um ráðherraábyrgð og landsdóm. Við verðum að geta tekið þá umræðu hér, um skýrslu þingmannanefndarinnar, og gert um leið aðgreiningu frá þeim ákærum sem liggja hér frammi í sérstökum þingskjölum. Það verður að vera hægt að ræða hér um prinsippið um það hvort fyrirkomulagið með ráðherraábyrgðina og landsdóm sé skynsamlegt, hvort skynsamlegt sé að byggja á því í dag og til framtíðar. Auðvitað fléttast þetta saman við þær tillögur sem við tökum síðar til umræðu í vikunni um það hvort afgreiða eigi tillögur um ákærur. En við verðum að taka þessa umræðu og mér finnst menn skauta töluvert létt fram hjá henni. Mín skoðun er sú að þessi lög séu úrelt. Ég hefði vel getað séð það fyrir mér sem niðurstöðu þingmannanefndarinnar að segja einfaldlega: Við teljum að þessum lögum hefði fyrir löngu átt að vera búið að breyta, það er okkar niðurstaða eftir að hafa farið vandlega yfir þróun refsiréttarfarsins í landinu og mannréttinda, það er okkar niðurstaða eftir að hafa skoðað grundvöll þessarar löggjafar og sögu hennar að við hefðum fyrir löngu átt að vera búin að leggja hana til hliðar. Á grundvelli þeirrar niðurstöðu hefðu menn síðan getað lagt eitthvað til varðandi ráðherraábyrgðina, en mér sýnist, þó að það komi kannski ekki alveg nægilega skýrt fram, að menn séu í öðru orðinu að segja að þetta sé ágætislöggjöf, það sé vel hægt að byggja á henni, en í hinu orðinu að við verðum að flýta okkur að afnema hana. Þetta krefst nánari skýringa.

Um fjármálafyrirtækin, eins og ég sagði, væri hægt að halda langa ræðu. Það eru nokkur grundvallaratriði sem fóru úrskeiðis í regluverki fjármálafyrirtækjanna. Númer eitt þetta með dreifða eignarhaldið. Við skulum bara vera sammála um það, án þess að vera með miklar sakbendingar, eins og menn gera alltaf í þeirri umræðu, að við hefðum átt að byggja á dreifðara eignarhaldi við sölu bankanna. Var rangt að selja bankana? Nei, það tel ég alls ekki. Alls ekki. En það hefði líka verið hægt að setja aðrar reglur jafnvel þótt regla um dreift eignarhald hefði ekki gilt frá upphafi sem hefðu haft mjög mikil áhrif. Þar nefni ég einfaldlega regluna um takmarkanir á viðskiptum eigenda við bankana sjálfa. Sú regla ein og sér hefði leyst hina og allt það sem hún hefði staðið fyrir og gert hana óþarfa. Eða hver hefði verið áhugi þessara aðila á að eiga og fara með svona risastóran eignarhlut í bönkunum ef settar hefðu verið mjög ríkar skorður við viðskiptum þeirra við þann sama banka? Þetta fór allt úr skorðum.

Ég ætla ekki að þreyta menn á því að rifja hér upp allt það sem sagt hefur verið í fortíðinni um þessi efni, en það er sjálfsagt að gera það. Vilji menn fara í sérstaka rannsókn á einkavæðingarferlinu finnst mér sjálfsagt að setjast niður með formönnum hinna flokkanna og ræða grundvöll slíkrar rannsóknar. En höfum það þá bara til hliðsjónar að rannsóknarnefnd Alþingis hefur komist að niðurstöðu um ýmsa þætti þessa máls. Ríkisendurskoðun hefur líka fjallað um þessi mál og dregið fram upplýsingar sem hafa orðið grundvöllur umræðu hér í þinginu. Í þingmannanefndinni eru dregnar alls konar ályktanir um einkavæðingarferlið. Allt hefur þetta gerst án þess að önnur sérstök rannsókn á einkavæðingarferlinu hafi átt sér stað. Hvað er það nákvæmlega sem menn ætla að draga fram umfram það sem við vitum í dag? Það er það sem ég mun kalla eftir ef eftir því verður leitað við mig að styðja slíka tillögu.

Hér í þingmannanefndarskýrslunni er komið inn á vanrækslu ráðherranna og annarra.

Mín afstaða til þessa kafla skýrslunnar er einfaldlega þessi: Eina raunhæfa, skynsamlega leiðin fyrir þingmannanefndina var að fara þá leið sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins mæltu fyrir í nefndinni, þ.e. látum niðurstöður rannsóknarnefndarinnar standa. Það er ekki hlutverk okkar á þinginu að fara að taka þá niðurstöðu þessara sérfræðinga til sérstakrar endurskoðunar. Enda sjáum við hvað gerist þegar menn gera þessar tilraunir. Þá klofnaði nefndin upp í þrennt og hvað gera fulltrúar Samfylkingarinnar? Ég hafði bara ekki áttað mig á því fyrr en ég las og renndi yfir skýrsluna í þriðja eða fjórða skiptið. Fulltrúar Samfylkingarinnar ganga svo langt, þegar þeir fá þetta tækifæri, að sýkna fyrrverandi ráðherra sinn af þeim ásökunum sem bornar eru á hann af rannsóknarnefnd Alþingis. Ég er ekki að tala um spurninguna um ákæru eða ekki ákæru, ég er bara að tala um niðurstöðuna í rannsóknarnefndarskýrslunni um að viðkomandi ráðherra hafi gerst ber að vanrækslu miðað við þau lög sem nefndin var að horfa til.

Mér finnst þetta afhjúpa pólitíkina sem býr að baki niðurstöðunni. Það hefði betur farið á því að menn hefðu leyft niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis að standa. Það var sú niðurstaða sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins komust að og var að mínu áliti skynsamleg.

Ef menn vilja fara út í þessa umræðu, mér finnst í raun og veru ekki annað hægt fyrst menn ákváðu að gera þetta svona, og við erum hér í raun með niðurstöðu fulltrúa ákveðins þingflokks í nefndinni um að ekki hafi verið nein vanræksla, þá skulum við bara velta því aðeins fyrir okkur. Var það ekki vanræksla í skilningi hinna laganna að grípa ekki til þeirra aðgerða sem nefndar eru til sögunnar í skýrslunni? Mín skoðun er sú að menn hafi fest sig allt of mikið í smáatriðum, einstökum fundum, einstökum upplýsingum sem mönnum bárust á árinu 2008, allt of mikið. Það stoppaði mig ekki frá því að skrifa blaðagrein í febrúar 2008 og segja: Það verður að taka út stöðuna á bankamarkaðnum strax. Ríkisstjórnin verður að einhenda sér í að forða því sem fram undan getur verið ef endurfjármögnun bankanna mistekst. Ekki var ég bankamálaráðherra. Ekki hafði ég upplýsingar af þessum fundum sem ráðherrarnir voru á. Við vorum hér hvað eftir annað með fundi í þinginu þar sem þessir atburðir og þessi þróun á alþjóðlegum mörkuðum var til umræðu. Fjármálaráðherra, bankamálaráðherra og forsætisráðherra stóðu hér fyrir svörum meira eða minna allt árið 2008. Það er algerlega fráleitt að halda því fram að vegna þess að bankamálaráðherrann hafi ekki fengið að sitja einn og einn fund hafi hann algerlega verið „blankó“ þegar kom að því að grípa þurfti til aðgerða og fylgjast með því sem var að gerast á fjármálamarkaðnum. Þetta er algerlega ótrúleg niðurstaða (Forseti hringir.) og hefur ekkert með það að gera, sem ég rakti hér áðan, ákærumálin eru síðan allt annar handleggur.