138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:03]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef nálgast þessa umræðu með því að viðurkenna að sumt af því sem maður hefur trúað og haldið í fortíðinni hafi kannski ekki gengið eftir. Og eins er líka margt af því sem þingmenn úr öðrum flokkum koma með sem innlegg í umræðuna skynsamlegt og ágætt. Staðreyndir eru síðan aftur staðreyndir. Það er staðreynd að við kosningarnar 2003 bauð Samfylkingin upp á verulegar skattalækkanir. Ég sagði ekkert annað í ræðu minni áðan. Það stóð bara til af Samfylkingunni, kæmist hún í ríkisstjórn eftir kosningarnar 2003, að lækka skatta verulega. Við getum síðan tekist á um hvernig það hefði komið út fyrir hina einstöku tekjuhópa. En fyrir mér skiptir mestu að á því tímabili sem við erum að ræða, og við getum farið aftur til ársins 1995/1996, jókst kaupmáttur launa allra tekjuhópa í samfélaginu ár eftir ár, líka þeirra sem hv. þingmaður gerði að sérstöku umtalsefni og vildi meina að hefðu með einhverjum hætti setið eftir. Kaupmáttur þeirra fór einmitt vaxandi á þeim árum sem hv. þingmaður gerði að umtalsefni. Okkar verkefni hér í þinginu er auðvitað að reyna að bæta lífskjörin hjá fólki og það gekk vel á þeim tíma sem hv. þingmaður vildi meina að allt hefði gengið á afturfótunum.

Af því að hv. þingmaður kom líka inn á framkvæmdirnar var það ekki í höndum Sjálfstæðisflokksins eins að taka ákvarðanir um stóriðjuframkvæmdirnar sem vísað var til. Það var gert m.a. með stuðningi frá síðar formanni Samfylkingarinnar, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, og margir samfylkingarmenn studdu þær framkvæmdir eins og hv. þingmaður hlýtur að muna.