138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:05]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er vissulega ágætt að hv. þingmaður Bjarni Benediktsson skuli minna á að Samfylkingin hafi á sínum tíma haft hug á því að lækka skattbyrði því að Samfylkingunni hefur ævinlega verið hugleikið hvernig byrðarnar dreifast á þjóðfélagshópa í samfélaginu. Víst er að hefði Samfylkingin stjórnað aðgerðum og skattalækkun á þeim tíma sem hér um ræðir hefði misskiptingin ekki aukist með þeim hætti sem (Gripið fram í: Jú …) um ræðir því að það er ákveðin stefna jafnaðarmanna að dreifa byrðum og dreifa þeim fyrst og fremst þannig að þeir beri þyngstu byrðarnar sem mest bera úr býtum en létt sé undir með hinum.

Það er líka rétt hjá hv. þingmanni, eins og ég kom reyndar að í andsvari mínu, að á þessum tíma var bullandi góðæri þannig að engan þarf að undra þó að kaupmáttur hefði aukist. En misskiptingin jókst á þeim tíma svo mjög að það eru fá dæmi um annað eins.

Í þeirri skýrslu sem þingmannanefndin hefur núna skilað af sér og hjá rannsóknarnefnd Alþingis sömuleiðis kemur fram að orsakirnar af þeim atburðum sem urðu hér 2008 nái langt aftur fyrir þau tímamörk sem rannsóknarnefndin hafði innan seilingar. Eftir árið 2006 var lítið sem ekkert hægt að gera til að sporna við þeim atburðum sem síðar urðu. Sú er með öðrum orðum ábyrgð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem sat hér við völd árin 2003–2007. Ég ætla ekki að fara í sakbendingar, en staðreyndir eru staðreyndir eins og hv. þingmaður kom inn á og fram hjá þeim getum við ekki horft.