138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:07]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var fullmikið af „ef“ og „hefði“ hjá hv. þingmanni til að við komumst að einhverri niðurstöðu í orðaskiptum okkar. Ég tel t.d. — fyrst hv. þingmaður leggur höfuðáherslu á að gæta hagsmuna þeirra sem lægst hafa launin — að ákvörðun núverandi ríkisstjórnar um að afnema verðtryggingu persónuafsláttarins hafi ekki haft sérstaklega jákvæð áhrif í þá átt. Hún tók gildi um síðustu áramót og var í raun og veru afnám á verðtryggingunni frá því að Sjálfstæðisflokkur sat með Samfylkingunni í ríkisstjórn. Það getur ekki verið umdeilt í þessari umræðu að afnám verðtryggingar persónuafsláttar kemur sér verst fyrir þá sem lægst hafa launin. Ætlum við að deila um það? Það tel ég að fáist ekki staðist.

Um áhrif þeirra hugmynda sem Samfylkingin kom fram með eftir kosningarnar 2009 og fyrr er auðvitað ekki hægt að fá neinn botn vegna þess að við vitum ekkert um það. Við vitum þó að kjör fólks héldu áfram að batna og við vitum að Sjálfstæðisflokkurinn fékk árið 2007 einhverja glæsilegustu kosningu í sögu flokksins. Það var dómur kjósenda vegna þeirra verka sem flokkurinn hafði innt af hendi á árabilinu 2003–2007. (Gripið fram í: Er það …) Það versta sem gerðist síðan eftir að Samfylkingin kom í samstarf við Sjálfstæðisflokkinn var vöxtur ríkisútgjaldanna sem fylgdi í kjölfarið og sá sársaukafulli niðurskurður sem við erum núna að fást við er m.a. til kominn vegna þess að menn fóru í algerlega óraunhæfar útgjaldaaukningar eftir innkomu Samfylkingarinnar.