138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:43]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Staðreyndin varðandi veðin er sú að sífellt var verið að krefjast minni veða vegna lánveitinga hjá seðlabönkum úti um allan heim.

Ég ætla að nota þennan tíma til þess að fara aðeins yfir ráðherraábyrgðina. Hér kom hæstv. fjármálaráðherra upp og fór aðeins yfir það sem við höfum að öðru leyti sammælst um að ræða ekki mikið, sem eru ákærumálin. Hann nefndi eitt ákveðið mál, það væri a.m.k. hægt að einangra eitt ákveðið tilvik og segja: Þar var brugðist skyldunni til þess að lágmarka skaðann með því að hafa ekki gripið til markvissra aðgerða til þess að stöðva opnun útibús Icesave-reikninganna í Hollandi.

Ég ætla að upplýsa hæstv. fjármálaráðherra um að það stendur ekkert til að ákæra vegna þess. Ef það er það eina sem hæstv. ráðherra hefur komið auga á verður hann að átta sig á því að það stendur ekki til að ákæra vegna þess.

Að öðru leyti skil ég ekki þessa umræðu um Icesave því að hvað er verið að gefa hér í skyn? Er verið að segja að ráðherrarnir hafi brugðist íslenskum ríkisborgurum, fólkinu í þessu landi, með því að koma ekki tjóninu af Icesave yfir til (Forseti hringir.) Bretlands og Hollands? Er það í því sem glæpurinn liggur? (Forseti hringir.) Eða er verið að segja að það sé ríkisábyrgð (Forseti hringir.) á þessu eftir allt það sem sagt hefur verið um það mál?