138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:48]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekki að svara síðari ræðubút hæstv. ráðherra vegna þess að hv. þingmaður Bjarni Benediktsson fór mjög vel yfir þetta hér áðan. Það er alveg rétt að þetta var að hluta til byggt á froðu, en það gerði sér enginn grein fyrir því og Þjóðhagsstofnun hefði ekki gert það heldur.

Það sem mig langar líka til að spyrja hæstv. ráðherra að er að nú hefur verið talað mjög um að það hafi verið gerð handvömm, það hafi ekki verið gert nægilega mikið, menn hafi flotið sofandi að feigðarósi. Svo skoðar maður það sem gerðist hér 6. október 2008 þar sem algjöru kerfishruni var afstýrt. Innstæður Íslendinga voru tryggðar með því að skipta upp bönkunum. Greiðslumiðlun innan lands féll ekki niður í eina mínútu vegna þess það var hægt að spegla bankana beint inn í Seðlabankann. Allt þetta var árangur af undirbúningi og (Forseti hringir.) vinnu samráðsnefndarinnar. Svo saka menn þessa nefnd og ráðherrana um að þeir hafi ekkert (Forseti hringir.) gert. Fellst hæstv. ráðherra á það?

Svo langar mig til þess að spyrja að lokum: (Forseti hringir.) Hvar í heiminum, í hvaða öðru landi, er verið að saka ráðamenn (Forseti hringir.) um að hafa valdið fjármálahruninu og draga þá fyrir (Forseti hringir.) dómstóla?