138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:53]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel mjög mikilvægt að við sem sitjum hér á Alþingi notum þetta tækifæri sem skýrsla þingmannanefndarinnar á grunni skýrslu rannsóknarnefndarinnar gefur til þess að fara að horfa til framtíðar. Það er nóg komið af rannsóknum varðandi einkavæðinguna. Ég held að hæstv. þingmenn, sem sátu hér þegar Davíð Oddsson var forsætisráðherra og virðast enn vera með þann fyrrverandi forsætisráðherra á heilanum, ættu kannski að íhuga það að með því að haga orðum sínum og gerðum alltaf með tilliti til þess hvað sá ágæti fyrrverandi forsætisráðherra gerði eða gerði ekki, eru þeir sömu hæstv. ráðherrar og hv. þingmenn í raun að segja að Davíð Oddsson stjórni enn þá landinu.