138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[14:40]
Horfa

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessar fyrirspurnir og vil geta þess, eins og kom fram í máli mínu áðan, að umbótatillögurnar frá forsætisnefndinni liggja fyrir. Bæði liggja fyrir umbótatillögur í frumvarpsformi fyrir þinginu, þær voru lagðar fram í júní í mínu nafni sem forseta þingsins, og sömuleiðis liggja þær fyrir þingflokkunum í frumvarpsformi til skoðunar. Þingflokkarnir eru með þær tillögur til umfjöllunar og forsætisnefnd bíður eftir því að fá viðbrögð frá þingflokkunum um afstöðu þingflokkanna til þeirra. Það er allt saman byggt á þessari skýrslu sem er samhljóma niðurstöðum þingmannanefndarinnar.

Ég get alveg tekið undir það og það kom fram líka í máli mínu að skoða þarf vinnu fjárlaganefndar, sérstaklega það sem snýr að fjárveitingum til Alþingis því að það ætti að vera liðin tíð að framkvæmdarvaldið skammtaði þinginu fjárveitingar úr hnefa. Fjárveitingarvaldið er Alþingis og Alþingi á auðvitað að ákveða fjárveitingar til löggjafans en ekki framkvæmdarvaldið. Á það benti ég og það hefur verið rætt í þeirri vinnu sem unnin hefur verið fyrir forsætisnefndina að það sé eitt af því sem skoða þurfi í framhaldinu.