138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:06]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla aðallega að nota þennan tíma sem ég hef til að fjalla um spurninguna um þingræðið sem hv. þingmaður vakti máls á. Ég tel að mikilvægt sé að við veltum nákvæmlega fyrir okkur þegar við ræðum samspil framkvæmdarvalds og löggjafarvalds og sjálfstæði þings og styrk þess og styrk ríkisstjórnar í þessu sambandi út frá spurningunni um þingræðið. Ég er þingræðissinni, ég vil búa við það fyrirkomulag, það er mín skoðun. Þess vegna finnst mér mikilvægt ef menn hafa aðrar hugmyndir að þær séu rækilega rökræddar. Þegar þingmaðurinn segir núna að það beri stundum á því að núverandi ríkisstjórn sé ekki meirihlutaríkisstjórn velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður falli á eigin bragði. Er það endilega þannig og felst eitthvað annað í því að ríkisstjórn njóti stuðnings meiri hluta alþingismanna en að meiri hluti þingmanna hyggist verja þá ríkisstjórn hugsanlegu vantrausti? Er það sjálfgefið að allar tillögur og hugmyndir sem koma frá ríkisstjórn í formi frumvarpa eða þingsályktunartillagna hljóti að vera fyrir fram ákveðnar og samþykktar í þingflokkum þeirra flokka sem að ríkisstjórninni standa? Er það hluti af þingræðinu? Það finnst mér ekki sjálfgefið. Mér finnst ekkert að því þegar ég, óbreyttur þingmaður, flyt þingmál að um það kunni að vera skiptar skoðanir, líka í mínum eigin flokki og ríkisstjórnarflokkunum. Mega ekki mál sem koma frá ríkisstjórninni líka vera þannig? Er ekki sjálfsagt að þingið taki þau til sjálfstæðrar skoðunar og geri á þeim breytingar ef það kýs svo?

Það finnst mér ekki fara á skjön við að ríkisstjórn sé meirihlutastjórn. Þingmaðurinn kann að vera mér ósammála um þetta en mér finnst alls ekkert að því að ríkisstjórn, sem hefur meiri hluta þingmanna á bak við sig og nýtur trausts meiri hluta þingmanna, þurfi að gangast undir að þingmál hennar taki breytingum í þinginu. Mér finnst það vera styrkur þingræðisins.