138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[15:08]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef margoft sagt að ég telji það á vissan hátt styrk Alþingis og reyndar styrk ríkisstjórna þegar mál taka breytingum á Alþingi. Málið snýst ekki um það. Það sem ég var að vísa til var þegar ríkisstjórn er ósammála um meginmál, hefur t.d. ekki burði til að leggja fram fjárlagafrumvarp sem nýtur stuðnings meiri hluta þingmanna.

Varðandi þá hugmynd að búa til einhvers konar sjálfstæða efnahagsstofnun get ég út af fyrir sig tekið undir þau sjónarmið að það kunni að vera skynsamlegt. Þá verðum við hins vegar að velta fyrir okkur af hvaða tagi slík stofnun sé. Erum við að hugsa um að endurreisa Þjóðhagsstofnun af þeirri stærð sem var hér áður og fyrr, með tugum manna? Ég efast um það.

Mér finnst áherslan í umræðunni um gildi Þjóðhagsstofnunar, með fullri virðingu fyrir þeirri ágætu stofnun, hafa verið allt of mikil. Menn hafa látið í veðri vaka að hún hefði breytt mikið gangi mála. Það sem ég nefndi aðeins áðan var að efnahagsumræðan í landinu hefði sennilega ekki nokkurn tímann farið jafnvíða fram og á síðustu árum. Gleymum því ekki að menntun á þessu sviði hefur fleygt fram. Núna eru fjölmargir sem geta rætt þessi mál á jafnræðisgrundvelli, hagfræðingar og slíkir aðilar sem hafa þekkingu og eru starfandi víða í þjóðfélaginu.

Í öðru lagi þegar ákvörðun var tekin um að leggja niður Þjóðhagsstofnun var líka tekin ákvörðun um að efla sambærilega starfsemi í Seðlabankanum, hagdeild fjármálaráðuneytisins, hjá Hagstofunni og enn fremur tekin ákvörðun um að efla hagdeildir Alþýðusambandsins, auk þess sem háskólasamfélagið gerði sig mun meira gildandi. Með þessu er ég ekki að segja að við eigum ekki að íhuga að setja á laggirnar slíka stofnun, ég er einfaldlega að segja að ég telji að menn megi ekki gera of mikið úr því og heldur ekki láta eins og virk upplýst umræða hafi ekki farið fram þar sem mismunandi sjónarmið komu fram því að þannig var (Forseti hringir.) það sannarlega. Gríðarlega miklar umræður voru um efnahagsmál þar sem menn skiptust á skoðunum út frá ólíkum sjónarhornum (Forseti hringir.) sem byggðust á miklum rangfærslum.