138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[16:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður nefndi þrjú dæmi sem mig langar að tengja saman. Hann sagði að í skýrslunni kæmi fram að enginn hefði borið ábyrgð á sínum þætti í hruninu. Í öðru lagi sagði hann að við skyldum gæta vel að EFTA-tilskipunum. Í þriðja lagi hjó ég eftir því að hann talaði um lán til starfsmanna.

Nú vill svo til að ég flutti ræðu þann 14. apríl 2010 þar sem ég baðst afsökunar fyrir minn hlut í því að lagasetning um lán til starfsmanna hlutafélaga átti sér stað. Ég ætla, herra forseti, að endurflytja ræðuna:

„En því miður áttaði ég mig ekki á því hversu mikil hætta var fólgin í þessu og það eru mín mistök.“ — Þá var ég að tala um gagnkvæmt eignarhald.

„Ég ætla að fara í gegnum ákveðið dæmi, sem eru lög nr. 35/1997, afskaplega ómerkileg […] Í 8. gr. segir, tvær línur: „Ákvæði 1.–2. málsliðar eiga þó ekki við um kaup starfsmanna til félagsins eða tengds félags á hlutum eða kaup á hlutum fyrir þá.“

Þarna var opnað fyrir krana sem olli því að Íslendingar fóru að tala um milljarða í staðinn fyrir milljónir og þúsundir milljarða í staðinn fyrir þúsund milljónir. Um þessa grein stendur: „Hið nýja ákvæði er sett með hliðsjón af 2. mgr. 23. gr. 2. félagsréttartilskipunar“ — þ.e. Evrópusambandsins. Þannig var nú það. Síðan mælir hæstv. viðskiptaráðherra Finnur Ingólfsson fyrir þessu frumvarpi og nefnir það að þetta sé að kröfu Eftirlitsstofnunar EFTA.

Um þetta mál var engin umræða. Ráðherrann hélt þarna hálfrar síðu ræðu og enginn tók til máls. Frumvarpinu var vísað til nefndar, nefndin skilaði áliti og það voru sjö línur, sagt að gestir hefðu komið o.s.frv. og smáathugasemdir […] Undir þetta nefndarálit rituðu hv. þm. Ágúst Einarsson, Valgerður Sverrisdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Pétur H. Blöndal, Sólveig Pétursdóttir, Einar Oddur Kristjánsson og Þóra Sverrisdóttir.“

Ég baðst afsökunar á undirskrift minni undir þetta nefndarálit.