138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[17:38]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér skýrslu þingmannanefndar sem fjallar um skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Ég vil segja það í upphafi máls míns, þó að ég sé reyndar að hugsa um lokaorð hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar hér áðan, að mér finnst þessi skýrsla sönnun um styrk þingsins þegar við tökum okkur saman. Þarna kemst öll þingmannanefndin að niðurstöðu og skilar til þingsins þessari skýrslu sem er mjög gott og vel unnið plagg. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllum þeim hv. þingmönnum sem unnu þetta verk og líka öllu því góða fólki sem aðstoðaði nefndina, bæði á nefndasviði og eins þeim sérfræðingum sem störfuðu með nefndinni.

Þessi skýrsla, eins og ég sagði í upphafi máls míns, sýnir mér fram á styrkinn og þann mannauð sem er á þinginu þegar við náum að snúa bökum saman. Ég hef verið dálítið hugsi yfir því, virðulegi forseti, frá því að ég kom inn á þing fyrir rúmu ári að eins og við þekkjum og vitum öll sem störfum á Alþingi fer einungis lítill hluti starfsins sem fram í þingsal. Meiri starfstími og vinnustundir fara í það starf sem við vinnum úti á nefndasviði. Ég hef stundum hugsað um hvernig við byrjum alltaf þingfundi, þ.e. á óundirbúnum fyrirspurnum til ráðherra, tölum undir liðnum um störf þingsins þar sem þingmenn hafa getað spurt hver annan, og yfirleitt er þetta þannig sett upp að menn eru að reyna að klekkja hver á öðrum. Þótt ég geri ekki lítið úr því aðhaldi sem þingið þarf að sýna framkvæmdarvaldinu eins og klárlega kemur fram í þessari skýrslu held ég að mjög umhugsunarvert sé fyrir okkur, hv. þingmenn, að hugsa mjög vandlega um að sýna líka þjóðinni þau störf sem við vinnum á nefndasviði Alþingis. Ég held að það væri mjög umhugsunarvert að sýna meira frá nefndafundum þingsins.

Mig langar bara til að árétta þetta, virðulegi forseti. Ég var að hugsa áðan um að ég sit í tveimur nefndum, hv. samgöngunefnd og hv. fjárlaganefnd. Í hv. samgöngunefnd sitja nú níu manns, hver frá sínum flokknum og allri flórunni á þinginu. Aldrei hefur mál verið afgreitt út úr samgöngunefnd nema með samstöðu allra þingmanna frá upphafi þessa kjörtímabils, þ.e. í rúmt ár. Einstaka þingmenn hafa verið með fyrirvara, en þetta sýnir þó fram á hvað við getum unnið gott og vandað starf í þingnefndunum. Ég held að það eigi að vera til umhugsunar fyrir okkur þingmenn að breyta þessum hlutum og sýna líka þjóðinni að við getum staðið saman.

Ég ítreka það sem ég sagði í upphafi, mér finnst þessi skýrsla einmitt sönnun um styrk þingsins þegar við snúum bökum saman og nýtum mannauðinn sem býr í öllum flokkum.

Virðulegi forseti. Þingmannanefndin tekur undir helstu niðurstöður og ályktanir sem koma fram í rannsóknarskýrslu Alþingis. Hér er hún dregin saman og niðurstaða þingmannanefndarinnar er sú sama, þingmannanefndin tekur undir helstu niðurstöður og ályktanir rannsóknarnefndarinnar.

Mig langar aðeins að ræða þingsályktunartillöguna sem fylgir þessari skýrslu og er að sjálfsögðu samhliða til umræðu. Þar kemur margt fram. Mig langar aðeins að vekja athygli á örfáum atriðum því að ég hef að sjálfsögðu ekki tíma til að fara ofan í þetta allt saman, m.a. þessu, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að brýnt sé að starfshættir þingsins verði teknir til endurskoðunar. Mikilvægt sé að Alþingi verji og styrki sjálfstæði sitt og grundvallarhlutverk.“

Það er ekki um það deilt að Alþingi hefur þetta vald í dag. Það fer eftir okkur sem sitjum á þinginu. Mig langar að setja þetta í smásamhengi við þá umræðu sem við höfum upplifað á undanförnum vikum og mánuðum. Þessi texti segir okkur að þingið þurfi að styrkja sig gagnvart framkvæmdarvaldinu, að þetta sé ekki sjálfkrafa afgreiðsla. Við erum með ákall um það, m.a.s. tók hv. þm. Atli Gíslason, formaður nefndarinnar, það djúpt í árinni að segja að þessi skýrsla væri sjálfstæðisyfirlýsing þingsins gagnvart framkvæmdarvaldinu.

Nú hefur ekki farið fram hjá mörgum að nóg er til af álitsgjöfum í þjóðfélaginu, bæði sjálfskipuðum og alla vega, sem vita alltaf hvað er best að gera og sérstaklega eftir á. Ég hugsaði þegar ég las þetta áðan um þá orðræðu sem við höfum haft hérna um flokksræði, oddvitaræði og þar fram eftir götunum. Hér hafa nokkrir hv. þingmenn verið kallaðir órólega deildin eða villikettir. Ég vil túlka það svo að þeir ágætu hv. þingmenn hafa kannski verið að reyna að styrkja þingið og sýna fram á að þingið gæti starfað gegn framkvæmdarvaldinu, ef ég mætti nota það orð, eða sýnt sjálfstæði sitt. Allir þeir álitsgjafar sem ég hef heyrt fjalla um þetta mál — þeir eru margir, spekingarnir — hafa talað um að þetta fólk sé ekki þingtækt. Þess vegna er ég dálítið hugsi yfir þessu, virðulegi forseti, að því leyti til að við erum hér með ákall um að styrkja þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu og svo þegar nokkrir hv. þingmenn sýna tilburði til þess er talað um að þeir hv. þingmenn séu ekki stjórntækir og eigi að snúa sér að einhverju öðru. Við verðum að ræða hlutina í því ljósi sem þeir eru og blasa við okkur. Ég vona innilega, virðulegur forseti, að þessi skýrsla sé upphafið á því sem við munum breyta.

Mig langar líka til að drepa aðeins til viðbótar niður í texta þingsályktunartillögunnar, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis sé áfellisdómur yfir stjórnvöldum, stjórnmálamönnum og stjórnsýslu, verklagi og skorti á formfestu.“

Þetta eru gríðarlega stór orð sem verður að taka mjög alvarlega. Ég þykist vita að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt. Það er hins vegar ekki nóg fyrir okkur að samþykkja þann texta sem stendur hér ef við ætlum síðan ekkert að vinna með hann í framhaldinu. Þess vegna set ég þetta í samhengi við það sem ég sagði áðan um svokallaða órólega deild eða villikettina.

Ég vil líka koma aðeins inn á það sem kemur fram í þingsályktunartillögum þingmannanefndarinnar, sem er einhuga og ég fagna því sérstaklega, að gerð verði sjálfstæð óháð rannsókn á starfsemi lífeyrissjóðanna. Ég tel mjög mikilvægt að hún fari fram. Við getum öll verið sammála um það vegna þess að við sáum að í aðdraganda hrunsins voru margir komnir út á hálan ís svo ekki sé sterkara til orða tekið. Síðan er lögð til sjálfstæð og óháð rannsókn á orsökum falls sparisjóðanna, sem ég tel líka mjög mikilvægt að fari fram, og stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum. Ég tel líka mjög mikilvægt að hún fari fram vegna þess að við sáum á öllum þeim verkferlum sem lýst er í rannsóknarskýrslunni að það er mjög mikilvægt að stjórnsýsluúttekt fari fram á þessum stofnunum.

Ég tek undir orð hæstv. fjármálaráðherra frá því fyrr í dag, það er sami strúktúrinn í þessum stofnunum í dag. Það er ekki nóg fyrir stjórnvöld að henda einum einstaklingi út úr Seðlabankanum og halda að þá sé búið að sótthreinsa. Ég er algjörlega sammála hæstv. fjármálaráðherra um að það er mjög mikilvægt að þessi stjórnsýsluúttekt fari fram.

Það kemur líka fram í síðustu línum þingsályktunartillögunnar frá þingmannanefndinni að nefnd á vegum Alþingis eigi að fylgja eftir þeim breytingum sem hér eru lagðar til sem eru margvíslegar, m.a. breytingar á lögum. Ég sagði í andsvörum í gær að ég teldi mjög eðlilegt að þingmannanefndin sjálf mundi fylgja þeim eftir. Þetta eru tillögur hennar og samstaðan og samstarfið er mjög gott í nefndinni þannig að ég teldi ekkert því til fyrirstöðu og mundi styðja það heils hugar ef þeirri nefnd yrði falið að fylgja því eftir og hafa aðhald með þeim breytingum sem við köllum hér eftir með samþykkt þessarar þingsályktunartillögu.

Ég tel mjög mikilvægt að starf nefndarinnar fari fram fyrir opnum tjöldum, þ.e. að það verði gert með aðhaldi, að við fylgjum þessu eftir og það verði gert með því að senda út fundi nefndarinnar. Ég tel það mjög mikilvægt.

Síðast en ekki síst, virðulegur forseti, lít ég svo á að þessi skýrsla sé hálfgert uppgjör við fortíðina. Með samþykkt þingsályktunartillögunnar ætlum við að horfa inn í framtíðina. Það er gott. Þá langar mig aðeins að komast inn í nútíðina. Það eru nokkrir mánuðir síðan skýrsla rannsóknarnefndarinnar kom fram og eins og ég sagði í upphafi máls míns tekur þingmannanefndin undir helstu niðurstöður og ályktanir rannsóknarnefndarinnar. Þá hef ég verið að hugsa dálítið um hvað er búið að vera að gerast að undanförnu. Hefur eitthvað mikið breyst? Höfum við eitthvað mikið lært? Ég er dálítið hugsi yfir því. Ég ætla ekki að alhæfa um að ekkert hafi breyst til batnaðar en því miður hef ég ekki rekið augun í margt. Ég fagna þó því sem hefur komið fram í máli hv. þingmanna um að hér hafa fleiri þingsályktunartillögur og frumvörp frá stjórnarandstöðunni verið samþykkt. Það er til bóta og skal ekki gert lítið úr því.

Mig langar örlítið, virðulegi forseti, til að nefna það umhverfi sem við þingmenn störfum í. Ég varð fyrir verulegu áfalli þegar ég leitaði eftir bæði munnlegum og skriflegum svörum hjá framkvæmdarvaldinu um hvernig nýju bankarnir hefðu verið stofnaðir, þ.e. á hvaða kjörum eða með hvaða afföllum nýju bankarnir hefðu keypt skuldirnar út úr gömlu bönkunum. Í þessu var ég að grúska vegna þess að ég vildi geta unnið faglega og þurfti að sjá þær afskriftir sem fóru á milli gömlu og nýju bankanna. Sem þingmaður vildi ég vita hvert svigrúm nýju bankanna til afskrifta væri gagnvart heimilunum og fyrirtækjunum. Ég flutti munnlega fyrirspurn og fékk engin svör. Ég sendi inn skriflega fyrirspurn og fékk engin svör. Það var bara snúið út úr, viðkomandi skildi ekki spurninguna og svo var alltaf vísað í bankaleynd. Ég fagna því að í skýrslum þingmannanefndarinnar sé einmitt tekið á þessu atriði og sagt að það þurfi að veita þingmönnum meiri upplýsingar en gert hefur verið í dag. Ég tók eftir því að hæstv. forsætisráðherra kom inn á þetta mál. Ég fagna því sérstaklega. Til þess að við getum rækt skyldur okkar sem þingmenn og tekið ábyrga afstöðu þyrftum við þessi svör: Við leggjum til og hugsum að það væri skynsamlegt að veita heimilunum í landinu þetta mikil afföll af lánunum til þess að koma efnahagslífinu í gang og bjarga fjölskyldunum. Í staðinn var sagt: Það er ekki svigrúm.

Við höfum hins vegar engar forsendur til þess að meta það á eigin vegum. Það er mjög mikilvægt að þessu verði breytt.

Nú er búið að skipuleggja fundi í fjárlaganefnd með sveitarstjórnunum í landinu og aðalhugsun sveitarstjórnarmanna og forustumanna þeirra á undanförnum vikum — ég er búinn að sitja þrjú þing í mínu kjördæmi — er hvað verður um tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Verður aukaframlagið áfram? Verður seinni hækkunin á tryggingagjaldinu greidd áfram og þar fram eftir götunum?

Ég hef ekki fengið kynningu á fjárlagafrumvarpinu sem fjárlaganefndarmaður, samt á ég að fara að funda með sveitarstjórnunum og hugsanlega svara þessum spurningum. Þetta er nokkuð sem við verðum að breyta. Ég tel mjög mikilvægt að hæstv. fjármálaráðherra og starfsfólk hans komi á fund fjárlaganefndar og upplýsi okkur um þessi atriði áður en við förum að taka á móti fólki úr sveitarstjórnunum og getum í raun og veru engu svarað, nema hugsanlega formaður og varaformaður nefndarinnar sem eiga sæti í ríkisfjármálahópnum. Þetta eru vinnubrögð sem við verðum að breyta. Það gefur algjörlega augaleið að maður hefur hvorki burði né getu til að svara þeim spurningum sem fyrir mann verða lagðar þegar maður hefur engar upplýsingar um hvernig á að gera það.

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir kom að því í andsvörum við mig í gær að það væri mjög mikilvægt að málin væru faglega undirbúin og vel unnin áður en við tækjum ákvarðanir. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um það. Hins vegar kom hún m.a. inn á að það væri mjög mikilvægt að styrkja þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu og þá rifjaðist upp fyrir mér að þegar þingið samþykkti á vordögum svokallað frumvarp um strandveiðar gaf það ráðherrunum algjörlega frjálst umboð til að útfæra reglugerðina um strandveiðarnar. Við gerðum alvarlegar athugasemdir við að þingið gæfi frá sér valdið. Strandveiðarnar áttu að hefjast daginn eftir þannig að reglugerðin hlaut að vera tilbúin. Við vorum að kalla eftir því hvað fælist í reglugerðinni. Samt sem áður tók þingið þá ákvörðun að fela ráðherra að gefa út reglugerðina án þess að kynna hana fyrir þinginu eða fá umræðuna hér. Ég vona að slíkt gerist ekki aftur því að ég var mjög ósáttur við það hvernig sú skipting fór fram og er ekki sáttur við hvernig hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gerði það.

Hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er mér oft ofarlega í huga og mér er mjög minnisstætt þegar hann setti takmarkanir á dragnótaveiðar. Það setur fjölda starfa og afkomu margra fjölskyldna í uppnám. Það var engin efnisleg umræða um það í þinginu og ég hef ekki getað rætt við hæstv. ráðherra um þessar takmarkanir. Samt sem áður er þetta sett inn. Þetta er nokkuð sem við verðum að breyta. Við getum ekki haft það þannig að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra eða hvaða ráðherra sem er taki bara einhverja ákvörðun eftir því hvernig hann kemur fram úr rúminu þann daginn. Þess vegna kalla ég eftir svari um það hver raunveruleg ábyrgð okkar þingmanna er á þessum gjörðum.

Ég sagði áðan að þessi ákvörðun sem hafði að mínu viti engin fagleg og efnisleg rök hefði samt verið tekin og afkoma tuga fjölskyldna sett í hættu. Þeir aðilar sem stunda dragnótaveiðar eru með samtök sem heita Samtök dragnótamanna og þau sendu öllum þingmönnum fyrir örfáum dögum bréf þar sem þau kvarta yfir því að hafa ekki fengið svar við bréfi sem var sent hæstv. ráðherra í byrjun júlí. Samt sem áður tóku breytingarnar gildi 1. september. Ráðuneytið hefur enn ekki svarað bréfinu. Nú eru þessi ágætu samtök búin að leita á náðir umboðsmanns Alþingis. Þetta er dapurlegt.

Er það þetta sem við viljum, virðulegi forseti? Nei, ég held að niðurstaða okkar sé sú að við viljum það ekki. Það er engin smáákvörðun sem þarna er tekin, afkoma tuga fjölskyldna er sett í hættu og formlegt bréf ekki virt viðlits. Þetta er nokkuð sem við verðum að breyta.

Mig langar að enda hér, virðulegi forseti, á einu máli til viðbótar. Ég tel mjög mikilvægt núna að þingið sjálft stofni atvinnumálanefnd sem vinni að því að koma atvinnumálum meira fram en gert hefur verið. Gæti sú nefnd hugsanlega átt aðild að stöðugleikasáttmála eða hvað sem það er og verið til hliðar við ríkisvaldið. Ekki það að ég sé að leggja til að hæstv. ríkisstjórn færi það allt yfir, heldur væri atvinnumálanefnd samstarfsvettvangur. Umræða um atvinnumál fer oft um víðan völl þegar við erum að karpa við ráðherrana í stuttum andsvörum og óundirbúnum fyrirspurnum.

Að lokum, virðulegi forseti, langar mig að nefna eitt að lokum því að tími minn er þegar að verða liðinn. Á fundi samgöngunefndar í morgun kom fram að nú eru sveitarfélögin í Danmörku í samvinnu við stjórnvöld þar um hvernig hægt væri að minnka þær byrðar sem settar eru á sveitarfélögin. Við vitum að Alþingi setur löggjöfina og skuldbindingarnar eru hjá sveitarfélögunum um að framfylgja lögunum. Það kostar mikið. Við aðstæðurnar núna, virðulegur forseti, tel ég mjög mikilvægt að hv. samgöngunefnd verði falið að vinna með sveitarfélögunum í landinu að því að finna út hvað mætti bæta og hvernig draga á úr kostnaði þeirra við þær aðstæður. Það er grafalvarleg staða í mörgum sveitarfélögum á landinu. Því miður hefur ríkisvaldið verið að færa tekjustofna frá sveitarfélögunum til sín og ég hef gagnrýnt það mjög. Við getum t.d. nefnt tryggingagjald.

Síðast en ekki síst eru horfurnar núna hjá sveitarfélögunum í landinu fyrir næsta ár þær að tekjur þeirra muni sannarlega dragast saman um 6,5–7 milljarða kr. Ég tel mjög mikilvægt að við skellum ekki skollaeyrunum við þessu heldur stöndum saman að því að ræða við sveitarfélögin í landinu. Ég tel mjög mikilvægt að hv. samgöngunefnd geri það til þess að finna lausnir á vandamálum sveitarfélaganna svo ekki fari illa fyrir þeim.