138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[17:58]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu hans. Mig langar í framhaldi að spyrja hv. þingmann um tvö atriði. Annað lýtur að því að fá svör frá framkvæmdarvaldinu eins og hann talaði um. Ég er algjörlega sammála honum, það hlýtur að vera algjört grundvallaratriði svo að Alþingi og löggjafarsamkundan geti í rauninni rækt hlutverk sitt. Nú veit hv. þingmaður að stundum getur verið spurt um mál í þinginu sem eru annaðhvort viðkvæm eða erfið og á köflum er kannski bannað að veita opinberar upplýsingar um þau. Sér hv. þingmaður fyrir sér að hægt væri að koma upp einhvers konar farvegi í undantekningartilvikum þegar um afar viðkvæmar upplýsingar er að ræða og hv. þingmenn gætu þá fengið svör frá framkvæmdarvaldinu sem trúnaðarmál?

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann í sambandi við samskipti ríkis og sveitarfélaga sem eru mér eins og hv. þingmanni mjög hugleikin. Hefur hv. þingmaður ákveðnar hugmyndir um hvernig hægt væri að koma á meiri formfestu í þeim samskiptum þannig að sveitarfélögin vissu á hverjum tíma, bæði fyrr á árinu og lengra fram í tímann, með hvaða hætti skattstofnar og tekjur þeirra yrðu? Þá gætu þau unnið miklu betri fjárhagsáætlanir en þau geta í dag og kvarta sáran undan.