138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[18:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmaður Pétur Blöndal segir. Auðvitað trúi ég því að þegar við höfum samþykkt þingsályktunartillöguna munum við gera breytingar. Ég ber sannarlega þá von í brjósti. Ég kom inn á það í upphafi ræðu minnar að mér finnst skýrslan sem lögð er hér fram til umræðu sýna einmitt fram á styrkinn í þinginu þegar hv. þingmenn taka sig saman, snúa bökum saman, komast upp úr skotgröfunum og vinna inn á nefndasviðinu og komast að þessari sameiginlegu niðurstöðu. Það er mikill mannauður í öllum flokkum á þingi. Við þurfum að nýta hann miklu betur, þvert á flokka og línur.

Það sem hv. þingmaður kom inn á í sambandi við svörin held ég að sé að mörgu leyti umhugsunarvert. Það olli mér gríðarlega miklum vonbrigðum persónulega þegar ég var að mynda mér ákveðnar skoðanir á því hvernig leysa ætti skuldavanda heimilanna og setti fram rök fyrir þeim í ræðustól Alþingis. Síðan var kannski sagt við mann: Þetta er ekki ábyrgt vegna þess að það er ekki svigrúm til þessara afskrifta. Síðan heyrir maður alls konar sögur um að lánin hafi verið færð frá gamla bankanum yfir í nýja bankann á 40% afföllum, 60% afföllum, 20% afföllum. Þannig að ég hef í raun og veru ekki þær faglegu forsendur sem þarf til að mynda mér ábyrga skoðun og leggja til afskriftir til handa heimilunum í landinu og til fyrirtækjanna ef það verður síðan til þess að bankinn fellur. Það er þess vegna sem ég taldi mikilvægt að fá þær upplýsingar. Ég er hugsi yfir því af hverju ég sem þingmaður fæ þær ekki. Af hverju má þjóðin ekki vita á hvaða kjörum þetta var fært á milli bankanna? Hvaða leynd er yfir því? Það er það sem ég skil ekki.