138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[18:28]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Sú skýrsla sem við ræðum hér og nú er í raun og veru ekki afrakstur eiginlegrar, sjálfstæðrar rannsóknar, en byggir engu að síður á gríðarlegri vinnu þeirrar nefndar sem hefur undirbúið skýrsluna og fyrir það ber sannarlega að þakka. Hún byggir hins vegar á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem við ræddum fyrr á þessu ári, enda er það svo að löggjöfin sem við settum í framhaldi af þeirri skýrslu mælti í raun fyrir um það að nefndinni væri ætlað að fara yfir ábendingar þær sem fram kæmu í skýrslu rannsóknarnefndarinnar jafnframt því að leggja fram hugmyndir og tillögur og móta viðbrögð við því sem þar gæti að líta.

Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að átta okkur á þessu. Þetta er ekki sjálfstætt rannsóknarplagg, en þetta er hins vegar vel unnin skýrsla í þeim skilningi að fanga er leitað mjög víða. Ég er ekki að segja þetta til að rýra á nokkurn hátt starf nefndarinnar, ég veit að þar liggur að baki gríðarlega mikil og einlæg vinna.

Enginn vafi leikur á því að í þessari skýrslu er að finna margar gagnlegar ábendingar. Á margan hátt er verið að flytja áfram þær tillögur sem rannsóknarnefndin kynnti í skrifum sínum. Ég get tekið undir fjölmargar þessara tillagna en aðrar er ég hins vegar ekki alveg jafnviss um að ég muni taka undir eða er ósammála þeim. Ég minni líka á orð formanns nefndarinnar, hv. þingmanns Atla Gíslasonar, en hann hvatti til beinskeyttrar umræðu og hvatti til þess að við ræddum málið með þeim hætti. Það er líka mjög mikilvægt þegar við erum að fjalla um svona mál að við setjum okkur ekki bara í þakklætisgírinn heldur reynum líka að skoða þessi mál frá einhverju krítísku sjónarhorni.

Hér er verið að fara yfir mjög vítt svið. Nefndin er að spanna svið rannsóknarnefndar Alþingis og lýsir afstöðu sinni til margra þeirra niðurstaðna sem þar getur að líta. Þegar sú skýrsla var til umræðu hér á Alþingi orðaði ég það þannig að hún væri umræðugrundvöllur. Hún getur aldrei og á auðvitað ekki að vera einhver stórisannleikur, þó að taka megi undir ýmislegt sem þar segir. Skýrslan er hins vegar einstæð að því leytinu til að þar eru upplýsingar um mjög margt sem mér, sem er reyndur þingmaður og ráðherra, var a.m.k. hulið alveg fram að því.

Það er dálítið vandasamt að átta sig á stöðu málsins. Hér er um að ræða þykka og mikla skýrslu þar sem komist er að niðurstöðu um ýmsa þætti. Í raun og veru er þinginu ekki ætlað með afgreiðslu þessa máls hér og nú að taka afstöðu til alls þess sem segir í skýrslunni. Hluti af þessari skýrslu er tillaga til þingsályktunar þar sem settar eru fram að sumu leyti býsna ákveðnar tillögur, að öðru leyti tillögur sem fela í sér ákall um það að undirbúa frumvörp og breytingar. Við hljótum síðan að taka afstöðu til þeirra þegar þær koma að nýju inn í þingið í öðrum búningi, hvort sem þær verða undirbúnar af einstökum þingnefndum, eins og hvatt er til að hluta til í þessari þingsályktunartillögu, eða ekki. Enn fremur hlýtur auðvitað að koma til kasta framkvæmdarvaldsins, sem hefur nú kannski ekki fengið allt of háa einkunn í þessari umræðu undanfarna daga, að undirbúa þær og leggja síðan fyrir Alþingi.

Það sem við þurfum að gera er að fylla inn í þessa mynd, það gerum við í fyllingu tímans. Þá munum við auðvitað takast á um ýmis efnisatriði sem koma fram sem lúta að stjórnarskránni, lögum um ráðherraábyrgð og starfsemi á fjármálamarkaði, svo ég taki bara dæmi úr þingsályktunartillögunni eins og hún liggur hér fyrir.

Það sem við sjáum hins vegar á þessu er að þó að tilefnið sé hið mikla efnahagslega hrun sem varð á haustdögum 2008, er það engu að síður þannig að fjölmargt í skýrslu og tillögum nefndarinnar er í sjálfu sér óháð því sem gerðist á árinu 2008. Þar er einfaldlega um að ræða tillögur sem lúta að því að bæta stjórnsýslu okkar og bæta löggjöfina með ýmsum hætti sem út af fyrir sig hefði ekki þurft þetta mikla tilefni til að hrinda í framkvæmd. Þetta eru tillögur sem snerta mjög marga þætti og eru ágætisábendingar um sitthvað sem almennt mætti betur fara og eiga fyllilega rétt á sér án tillits til þess. Hér er ég ekki að leggja endanlegt mat á allar þessar tillögur, en segi að þetta séu efnisatriði sem er verið að velta upp.

Það segir líka ýmislegt þarna um þróun efnahagsmála sem má auðvitað draga í efa að hefði haft þau áhrif að það leiddi til efnahagshrunsins. Við vitum að ástæður efnahagshrunsins eru margslungnar og margar. Þær eru að hluta til innlendar, þær eru líka að hluta til erlendar og hægt væri að fara yfir það í alllöngu máli ef tími væri til og þyrfti auðvitað að fara yfir í löngu máli ef eitthvert gagn ætti að vera af slíkri umræðu. Við höfum hins vegar haft tækifæri til að gera það m.a. í umræðunni um stóru rannsóknarnefndarskýrsluna, ég ætla ekki að endurtaka það.

Bæði hér og í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram mjög skýr krafa um aukna formfestu. Það er út af fyrir sig jákvæð þróun þó að ég hafi sem stjórnmálamaður mjög oft rekið mig á það að meðal almennings er kannski ekkert sérstakur áhugi á því að auka formfestuna. Hversu oft heyrum við ekki einmitt um ósveigjanleika kerfisins þegar fólk leitar á náðir þess og þar mætir því einmitt að ekki sé hægt að leysa úr málum vegna þess að það sé nú þessi reglugerð og þessi lög og þessi praxís og þessi fordæmi sem geri það að verkum að ekki sé hægt að leysa úr málum. Alveg sama hvernig við reynum að skrifa niður slíkt form, það breytir engu um það að ýmislegt í þjóðfélagi okkar er eðli málsins samkvæmt þannig að sumt af því kallar á það að menn þurfa að leita úrlausnar án þess að geta alltaf stuðst við niðurskrifaða formlega texta og auðvitað verða menn að byggja á einhverju öðru.

Þróunin í samfélagi okkar hefur hins vegar verið í þessa átt. Nýju stjórnsýslulögin sem voru sett hér á 10. áratug síðustu aldar gjörbreyttu þessu og gerðu það að verkum að ýmislegt af því sem menn höfðu getað gert og komist upp með að gera gátu menn ekki gert eftir að lögin höfðu verið sett. Eftirlitshlutverkið sem við jukum hér, m.a. með því að gera Ríkisendurskoðun svo sjálfstæða, eftirlitshlutverkið sem við höfum látið í hendurnar á ýmsum eftirlitsstofnunum hefur líka gert það að verkum að ýmislegt af því sem menn gerðu bak við tjöldin svo lítið bæri á án þess að menn kipptu sér neitt upp við það er eitthvað sem ekki verður gert í dag. Þannig að á margan hátt er þetta rökrétt framhald af fjölmörgu af því sem við höfum gert.

Ég get ekki tekið undir það að hér hafi allt verið í lamasessi í stjórnsýslunni. Auðvitað hefur mjög margt verið vel gert í stjórnsýslu okkar. Ég hef þau kynni af íslenskri stjórnsýslu að þar starfi fólk sem vill fylgja eftir ströngum formreglum og sem gerir til að mynda kröfu til þess að gengið sé frá fjárveitingu, sem rennur í gegnum ráðuneyti, á grundvelli samninga og þar fram eftir götunum. Ekki hafa allir verið ánægðir með það, en þetta er sú þróun sem hefur orðið og hefur verið og ég held að við eigum að halda áfram á þeirri braut.

Mjög margt viturlegt hefur verið sagt í þessari umræðu um stöðu Alþingis. Það er alveg rétt að við þurfum að efla starfsemi Alþingis og sjálfstæði þess. Það er líka hárrétt sem hefur verið bent á að stjórnskipuleg staða Alþingis er auðvitað gríðarlega sterk. Alþingi hefur löggjafarvaldið. Alþingi hefur fjárveitingavaldið. Alþingi hefur þess vegna auðvitað gríðarlega sterka stöðu. Hins vegar vitum við að í því þingræðislega fyrirkomulagi sem við búum við er þetta er samtvinnun framkvæmdarvalds og löggjafarvalds. Ég tel ekkert óeðlilegt við það, eins og ég nefndi í andsvari áðan. Það er auðvitað þannig að það hlýtur að vera hinn pólitíski meiri hluti sem Alþingi ber ábyrgð á sem stendur að ríkisstjórnum, sem leggur fram frumvörp og þar fram eftir götunum. Það dregur hins vegar ekki úr ábyrgð Alþingis að fara vel yfir málin, ræða málin og taka afstöðu sína á grundvelli þess.

Ég tel að á margan hátt sé sú umræða sem við tökum þessa dagana viss prófsteinn á ýmislegt af því sem við erum að reyna. Þess vegna eru það mér heilmikil vonbrigði að taka eftir því að ráðherrar ríkisstjórnarinnar, fulltrúar framkvæmdarvaldsins sem við starfandi þingmenn teljum okkur eiga mikið erindi við einmitt þessar klukkustundirnar, hafa í litlum mæli séð sér fært að taka þátt í þessari umræðu og skiptast á skoðunum við okkur með andsvörum eða ræðum. Ég hefði talið að það hefði styrkt umræðuna og verið vísbending um það af hálfu framkvæmdarvaldsins að fullur vilji væri til þess að koma til móts við og svara því ákalli sem sannarlega birtist í þessari skýrslu þingmannanefndarinnar og skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem lýtur að þessu. Á undanförnum árum hefur ýmislegt verið rætt um það hvernig hægt væri að styrkja stöðu Alþingis og hafa fjölmargir fræðimenn skrifað um það. Ég nefni starfsmann Alþingis, Þorstein Magnússon, sem hefur skrifað mjög margt viturlegt um þetta, bók eftir Gunnar Helga Kristinsson sem lýtur að því sama, athuganir Bryndísar Hlöðversdóttur og nefndar hennar í þessa veru. Þannig að við höfum ýmislegt til að byggja á.

Auðvitað höfum við reynt að setja reglur til að styrkja stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu og setja framkvæmdarvaldinu einhverjar skorður. Ég ætla að taka dæmi. Við höfum reglur sem kveða á um það hvenær þingmenn og ráðherrar geta lagt fram mál sem koma til umræðu og afgreiðslu án þess að afbrigða sé leitað. Síðasti skiladagur á þessu þingi var 1. apríl. Ég skoðaði þetta vegna þess að það var mér í minni hvernig mál voru lögð fram einmitt um þær mundir. 1. apríl síðastliðinn fylltust borð þingmanna af stjórnarfrumvörpum sem var rutt inn í þingið á síðasta degi. Þetta má auðvitað kalla að reyna að smeygja sér fram hjá þessari reglu. Þetta var sannarlega síðasti dagurinn sem mátti skila, en auðvitað er ekkert vinnulag á því af hálfu framkvæmdarvaldsins að hrúga öllum málum inn á þessum eina og sama degi.

Ég hef aflað mér upplýsinga um það að 92 stjórnarfrumvörp hafi verið lögð fram á vetrarþingi, vorþingi og septemberþingi, helmingur þessara stjórnarfrumvarpa, 46 af 92, var lagður fram síðasta daginn, 1. apríl. Til viðbótar komu 15 frumvörp fram eftir það. 60 af 92 frumvörpum, 2/3 allra frumvarpa ríkisstjórnarinnar, stjórnarfrumvarpa, voru lögð fram annaðhvort á síðasta degi eða eftir að þingsköp Alþingis kveða á um að slík frumvörp eigi að koma fram eigi þau að fá afgreiðslu á annað borð. Hér þarf ekkert að herða reglur. Nefndin hvetur til þess að að þessu máli sé sérstaklega hugað. Reglurnar eru til staðar. Framkvæmdarvaldið hegðar sér í raun og veru eins og menn hegðuðu sér á útrásartímanum þegar verst var — voru að finna smugur, smeygja sér í raun og veru fram hjá reglunum með þeim hætti sem hér um ræðir.

Þetta er auðvitað ólíðandi og Alþingi þarf ekkert nýjar reglur eða nýjar ákvarðanir; við þurfum hins vegar sem þingmenn að standa fast að baki hæstv. forseta Alþingis í því að reyna að tryggja að þetta sé eins og hjá fólki.

Mig langar að víkja að einu sem var dálítið gert að umræðuefni í gær og það er sú lífseiga kenning að efnahagshrunið hér á landi sé eins konar dauðadómur sem hafi verið kveðinn upp yfir markaðsbúskapnum. Þetta er fráleitt. Þetta finnst mér eins og gamall endurómur frá miðri 19. öld, 1848, þegar menn töldu að kreppurnar kæmu yfir og þá hryndi nú markaðurinn, kapítalisminn, og upp risi hið sósíalíska kerfi. Þetta er einhver endurómur frá þeim tíma. Þetta er auðvitað ekki þannig. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er hvergi verið að vísa markaðsbúskapnum á bug, eins og ætla má af umfjöllun sumra. Það er hvergi vikið að neinu slíku í þeirri skýrslu. Áherslan er hins vegar lögð á það að eftirlit sé nægjanlegt og öflugt, leikreglurnar skýrar og sanngjarnar og það þurfi að setja atvinnulífinu sanngjarnar og eðlilegar skorður. Undir þau sjónarmið hljótum við að taka. Við hljótum hins vegar eftir sem áður að byggja þjóðskipulag okkar m.a. á markaðsbúskap með öflugu aðhaldi til að tryggja þann efnahagslega vöxt sem við viljum sjá að verði. Vesturlönd hafa nær undantekningarlaust ratað í vandræði eins og við vitum. Það talar hins vegar enginn, nema kannski villta vestrið, almennt um að við eigum að hverfa frá því þjóðskipulagi sem við höfum stuðst við upp á síðkastið.

Því var líka haldið fram að þetta væri afrakstur einhverrar hugmyndafræði, að málum hafi verið komið þannig fyrir að ætlunin hafi verið að slaka á öllu eftirliti, t.d. með fjármálakerfinu í landinu. Þessu fer víðs fjarri. Það var ekki þannig. Ég hef skoðað sérstaklega þau þingmál sem lúta að þessu. Á hverju einasta ári er hæstv. viðskiptaráðherra, nú efnahags- og viðskiptaráðherra, skylt að leggja fram frumvarp til laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi með síðari breytingum. Þar er gert ráð fyrir því að tiltekinn hundraðshluti af veltu fjármálafyrirtækja fari í það að fjármagna Fjármálaeftirlitið. Þessi mál hafa verið hér til umræðu og ég skoðaði 2006 og 2007 sérstaklega. Hvað kemur þar fram? Kemur fram að það hafi verið hugmyndafræðilegur ágreiningur í þessum efnum? Kemur fram að það hafi verið mikil gagnrýni af hálfu þeirra sem nú tala um að einhver sérstök hugmyndafræði hafi verið á bak við það að reyna að veikja þessar eftirlitsstofnanir? Kom þetta fram í umræðum á þeim tíma? Nei, alls ekki. Umræður um þessi mál voru mjög litlar og lutu aldrei að þessu. Þvert á móti var lítil umræða um þetta og pólitísk samstaða um það hvernig þessum málum ætti að hátta, hvernig ætti að fjármagna eftirlitskerfið í landinu.

Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar frá árinu 2006 segir t.d., með leyfi virðulegs forseta:

„Starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja hefur aukist mikið á undanförnum árum. Á árinu 2005 stækkuðu íslensk fjármálafyrirtæki enn frekar og juku jafnframt hlutdeild starfsemi sinnar erlendis. Nefndin fagnar þessari þróun en telur jafnframt að í viðskiptalífinu verði að vera skýrar reglur svo að þeir sem starfa á því sviði viti hvað er leyfilegt og hvað ekki.“

Með öðrum orðum, um það er samstaða. Menn fagna því að fjármálamarkaðurinn okkar hafi stækkað, fyrirtækin vaxið o.s.frv.

Hv. þingmaður Atli Gíslason fjallaði einmitt um þessi mál í efnahags- og viðskiptanefnd á árinu 2007, ef ég man rétt, og vakti athygli á því að þróunin hefði verið sú að fjárveitingar til Fjármálaeftirlitsins hefðu hækkað mjög mikið og bar þær saman við fjárveitingar til Samkeppniseftirlitsins og vakti athygli á því að hlutfallið milli framlaga til Samkeppniseftirlitsins annars vegar og Fjármálaeftirlitsins hins vegar væri 1 á móti 3,7, sem sagt að fjárframlög til Fjármálaeftirlits væru 370% af framlögum til Samkeppniseftirlits. Hann fann að þessu, ekki vegna þess að hann vildi veikja Fjármálaeftirlitið, heldur taldi hann að þetta hlutfall væri óeðlilegt og vakti athygli á því að það væru svona 170–200% hærri framlög til fjármálaeftirlita í nágrannalöndum okkar og taldi að gæta þyrfti jafnræðis.

Ég undirstrika þetta vegna þess að það er óþolandi að því sé haldið fram að hér hafi verið keyrð áfram einhver hugmyndafræði sem fól í sér að það ætti að slaka á eftirlitinu. Það var ekki þannig. Pólitísk samstaða var um að þetta eftirlit ætti að vera mikið, ætti að vera virkt. Það var pólitísk samstaða um það hvaða fjárveitingar ættu að fara til þessa málaflokks og um það varð enginn ágreiningur.

Það breytir ekki því að við getum verið sammála um það að eftirlitskerfi okkar hafi brugðist. Það fer ekkert á milli mála. Því hefði það ekki brugðist væru aðstæður hér með öðrum hætti. Fyrir þessu eru margar ástæður og ég ætla mér svo sem ekki þá dul að tíunda þær allar en vek athygli á því sem þáverandi seðlabankastjóra Davíð Oddssyni benti á á sínum tíma, að valdmörkin milli Fjármálaeftirlitsins annars vegar og Seðlabankans hins vegar væru óskýr. Nú blasir þetta auðvitað við. Við þurfum þess vegna að bregðast við þessu. Ef ég man rétt lagði finnski sérfræðingurinn, sem kallaður var til á sínum til að fara yfir þessi mál, Jännäri, til sameiningu þessara tveggja stofnana. Ef til vill er það skynsamlegt og ég fagna því þá að yfir þessi mál verði farið, eins og kemur fram í plöggum þingmannanefndarinnar og í raun og veru er því gefið mjög undir fótinn að skynsamlegt sé að gera þetta þannig.

Höfum við lært eitthvað af þessu? Höfum við sjálf á þessum vetri, á þessu ári, haft þetta í huga þegar við erum að velta fyrir okkur öðrum þingmálum, öðrum frumvörpum sem koma hér inn? Ég vek t.d. athygli á því að nú verður væntanlega til afgreiðslu, sennilega ekki á þessu þingi en því næsta, frumvarp til laga um fjölmiðla. Þar er vakin athygli á því að valdmörk milli eftirlitsstofnana á því sviði séu mjög óljós. Neytendastofa hafi þar lögbundið hlutverk sem greinilega mun skarast á við lögbundið hlutverk hinnar nýju fjölmiðlastofu. Við þurfum ekki bara að fá gagnlegar ábendingar frá þingmannanefndinni eða rannsóknarnefndinni, við þurfum þegar í stað að bregðast við í einstökum tilvikum þegar það á við til þess að lenda ekki í sama pyttinum þótt á ólíku sviði sé.

Virðulegi forseti. Ég hef nú ekki nema 20 mínútur til að stikla mjög á stóru yfir fáein atriði. Það hefði auðvitað verið mikil freisting að fara yfir efnisatriði málsins miklu frekar en ég hef gert. Ég fagna því að þessi skýrsla liggi fyrir. Ég tel (Forseti hringir.) að hún sé til mikils gagns. Ég get ekki skrifað upp á hvert pút og plagg í þessu skjali, en ég tel hins vegar að vinnan hafi verið ómetanleg í samræmi við það sem lagt var af (Forseti hringir.) stað með þegar við samþykktum lög um þessa nefnd á sínum tíma hér á Alþingi.