138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[18:48]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem hér í andsvar af því ég hjó eftir þeim hluta ræðu hv. þingmanns Einars K. Guðfinnssonar þar sem hann sagði að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis væri markaðsbúskap hvergi vísað á bug eða felldir áfellisdómar yfir hugmyndastefnum. Ég vil spyrja þingmanninn: Bjóst hann við því að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis yrði eitthvert pólitískt uppgjör við hugmyndastefnur? Ég bjóst alls ekki við því og tel að hlutverk nefndarinnar hafi ekki verið að gefa stjórnmálastefnum einkunn. Skýrslan var hins vegar harður áfellisdómur yfir framkvæmd þeirrar skefjalausu frjálshyggju sem var iðkuð hér á landi í aðdraganda hrunsins. Þá var keyrð í gegn hugmyndafræði þar sem stjórnmálamennirnir voru í raun og veru blindaðir af ofbirtu eigin kenninga um hvernig ætti að iðka þessa frjálshyggju. Þetta var með öðrum orðum kannski ofstæki iðkað í verki. Það er ekki hlutverk rannsóknarnefndarinnar eða þingmannanefndarinnar að gera upp við stefnuna sem slíka heldur framkvæmdina. Hið hugmyndafræðilega uppgjör hlýtur að fara fram á öðrum vettvangi.

Svo verð ég að segja að mér finnst þessi umræðutörn um skýrslu þingmannanefndarinnar ekki rétti vettvangurinn til að fara í það uppgjör þó að það megi gjarnan eiga sér stað innan tíðar.