138. löggjafarþing — 160. fundur,  14. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[18:56]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er svolítið skrýtið að koma upp eftir þessar heitu umræður um markaðskerfið, sem ég tel að sé það kerfi sem við eigum að búa við. En ég held hins vegar að okkur sé öllum ljóst að það hvernig til tókst á undanförnum árum olli miklu hruni og við þurfum að vanda okkur í því hvernig við umgöngumst markaðshagkerfið eins og reyndar allt annað sem við gerum. Þetta var nú útúrdúr, ég bara gat ekki látið hjá líða eftir þessar heitu umræður að koma aðeins inn á þetta mál.

Virðulegi forseti. Það var 12. apríl síðastliðinn sem rannsóknarnefnd Alþingis skilaði skýrslu sinni um bankahrunið, aðdraganda þess og orsakir. Nefndinni var í upphafi ætlað að skila og ljúka starfi sínu mörgum mánuðum fyrr og nokkur óánægja hafði verið með að seinkun varð á skýrslugerðinni eða lokum skýrslunnar. Þegar hún hins vegar leit dagsins ljós held ég að allir hafi verið á einu máli um að fresturinn hefði verið af því góða, því að lýsingin og tíðindin sem var að finna í skýrslunni voru þess eðlis að það skipti meginmáli að engin hrákasmíð væri á því efni sem þjóðinni var kynnt því það voru vond tíðindi sem okkur voru flutt. Vondu tíðindin voru þau að við getum ekki bara kennt bankamönnum um þó að þeir hljóti að bera mesta ábyrgð, vondu tíðindin voru að við getum líka sjálfum okkur um kennt. Þegar ég segi við á ég ekki einungis við stjórnmálamenn eða alþingismenn, heldur flesta þá sem koma að opinberum störfum, hvort sem það var í stjórnsýslu, eftirlitsstofnunum, háskólum eða fjölmiðlum. Allir féllu á prófinu.

Við kusum hér á Alþingi níu manna nefnd til að fjalla um skýrsluna og móta viðbrögð Alþingis við henni. Sú nefnd hefur nú lokið störfum og er ástæða til að þakka þingmönnum sem völdust til þess verkefnis þá miklu vinnu sem þeir hafa innt af hendi. Skýrsla þeirra liggur nú fyrir og er skemmst frá því að segja að nefndin tekur undir niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar; stjórnkerfið fær falleinkunn. Alþingi, ríkisstjórn, Seðlabanki, eftirlitsstofnanir, embættismenn, fjölmiðlar, háskólar; allt heila klabbið fær falleinkunn. Þingmannanefndin leggur fram þingsályktunartillögu um viðbrögð Alþingis við skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Þegar við samþykkjum tillöguna, sem ég efast ekki um að við munum gera, lofum við bót og betrun. Við lofum að endurskoða veigamikil lög og við lofum að leggja til við stjórnlagaþing breytingar á stjórnarskránni, en hún er auðvitað umgjörð og undirstaða allrar annarrar löggjafar í landinu. Þá munum við leggja til að rannsókn verði gerð á starfsemi lífeyrissjóða á Íslandi og á falli sparisjóðanna og loks verði gerð stjórnsýsluúttekt á Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands. Allt þetta get ég tekið undir og samþykkt.

Einhverjar breytingartillögur, eða kannski ætti frekar að tala um viðbótartillögur, munu væntanlega verða fluttar og ég gæti best trúað að ég geti einnig stutt þær þó að ég ætli nú ekki að lofa neinu þar fyrr en ég sé þær.

Virðulegi forseti. Það er ýmislegt sem við getum gert án þess að breyta lögum eða þingsköpum. Ég vil leggja til að við byrjum á því strax. Hæg eru heimatökin og þess vegna vil ég fyrst fjalla um fáein þeirra atriða sem snúa að Alþingi.

Lagt er til að alþingismenn setji sér siðareglur. Það er bæði sjálfsagt og eðlilegt. Ég skal samt viðurkenna, virðulegi forseti, að ég hef alltaf verið svolítið kaldhæðin gagnvart siðareglum. Ég er þeirrar skoðunar að fólk eigi að haga sér eins og almennilegt fólk og finnst oft frekar aumt ef það þarf að tíunda það sérstaklega hvernig það á að fara að því. En þetta er eins og ég segi kaldhæðnisleg afstaða.

Á síðasta áratug réðust Bretar í mikið starf við að setja þeim siðareglur sem eru í opinberri þjónustu, hvort heldur á þingi eða í stjórnsýslu. Eftir allmikið starf var lagt til að sjö grunngildi yrðu lögð til grundvallar þeim nánari siðareglum sem settar yrðu í stjórnsýslu eða á þingi eða hvar það nú var. Þau voru þessi: ósérhlífni, ráðvendni, hlutleysi, áreiðanleiki, gegnsæi, heiðarleiki og loks stjórnun og forustuhæfileikar. — En með því er átt við að stjórnendum og opinberum fígúrum beri að stuðla að framgangi þessara gilda sem talin voru upp með fræðslu og góðu fordæmi.

Ég vil leggja til að við sem hér erum heitum því að temja okkur þetta allt strax og bíðum ekki eftir sérstökum siðareglum þar um.

Í þingsályktunartillögunni er lagt til að endurskoðað verði hvernig stjórnarfrumvörp eru lögð fram og kynnt fyrir þinginu. Ég vil nota tækifærið og taka undir vanþóknun hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar á því hvernig öllu var sturtað hér inn í þingið á síðustu þingdögum 30. mars eða síðastliðið vor.

Ég skora á samflokksmenn mína sem sitja í ríkisstjórn að hugsa um þetta strax, sem sagt hvernig stjórnarfrumvörp eru lögð fram og kynnt í þinginu. Þetta geta þau lagað. Þau geta gefið nægan tíma. Það er einfaldlega í þeirra höndum. Ég vona þess vegna að við þurfum ekki að bíða lengi eftir þessari bragarbót.

Þá vil ég aðeins nefna innleiðingu EES-gerða. Ég er vissulega sammála því að í þeim efnum getum við haft önnur og betri vinnubrögð en við höfum nú. Ég tel samt að við megum vara okkur á því að fara ekki úr einum öfgum í aðrar í þessum efnum, þ.e. að í dag fjöllum við nánast ekkert um þessar gerðir þegar þær eru teknar inn í EES-samninginn þó að vissulega fjöllum við um það ef setja þarf sérstök lög. En það er lítið sem ekkert fjallað um það þegar þær eru teknar inn í samninginn. Ég tel að við verðum að passa okkur á að fara ekki úr þeim öfgunum yfir í það að ætla að rýna hverja einustu gerð. Við verðum að fara þar einhvern meðalveg.

Þó að ég sé mikill talsmaður þess og ákafur að greina betur á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds þýðir það ekki í mínum huga að þingið eigi að gera allt og framkvæmdarvaldið ekki neitt. Framkvæmdarvaldsins á að vera það sem þess er og okkar það sem okkar er. Þess vegna vil ég vara við því að þingið hætti að nota þá miklu þjónustu sem framkvæmdarvaldið innir vissulega af hendi, t.d. í sambandi við það hvernig EES-gerðir eru leiddar í lög eða reglur útfærðar hér á landi. Alþingi á hins vegar að hafa eftirlit með þessum þætti í störfum framkvæmdarvaldsins eins og öllum öðrum þáttum.

Ég vil sannarlega taka undir það að hvort heldur eru embættismenn eða Alþingi, þegar það á við, þá eiga þeir að huga að íslenskum aðstæðum þegar EES-reglur eru innleiddar og nota það svigrúm sem oft er í þessum gerðum, sem kallaðar eru, að laga þær að þeim raunveruleika sem við búum við hér eða er í öðrum löndum þar sem þessar reglur eru innleiddar. Það er alltaf eða oftast eitthvert svigrúm til að huga að þeim raunveruleika sem fólk býr við. Ég held að við eigum að gera það í þessum efnum.

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að víkja að stjórnsýslunni og þeirri gagnrýni sem kemur fram á hana í skýrslunni og ég tel að eigi fullan rétt á sér. Mig langar líka að nefna það sem stundum er sagður kostur við okkur Íslendinga, og það er að binda okkur ekki of mikið við formið og hinar ströngu leiðir stjórnsýslunnar. Vissulega er hér stutt á milli fólks, styttra en í hinum stóru löndum. Það er oft hægt að taka upp símann og koma erindum áleiðis. Ekki er alltaf þörf á að fara mjög formlega leið. Ég tel að þetta sé kostur sem við eigum að halda í eins lengi og við getum. Það sem ég á við er að við gerum hinum almenna borgara það ekki erfiðara fyrir en þörf er á að vera í viðskiptum við stjórnsýsluna. Ég á við að opinberir starfsmenn séu liprir í allri umgengni sinni við fólkið sem borgar þeim kaup. En lipurheit af þessum toga mega auðvitað ekki verða til þess að gera upp á milli fólks eða koma niður á áreiðanleika stjórnsýslunnar og auðvitað verður að vera hægt að rekja erindi fólks innan stjórnsýslunnar og afdrif erinda í kerfinu.

Ég vil líka leggja áherslu á að það þarf ekki bara að setja vinnu- og verklagsreglur, það þarf að fara eftir þeim. Ég er hrædd um að það gleymist stundum.

Þegar kemur að stjórnarathöfnum öllum og ekki síst þeim sem snerta æðstu stjórn ríkisins skiptir auðvitað meginmáli að formsatriði séu í heiðri höfð. Það skiptir máli að halda skrár og fundargerðir, hvaða mál voru rædd á fundum og hver var niðurstaða umræðunnar. Því er skemmst frá að segja að ég var nánast orðlaus yfir þeirri fljótaskrift sem virðist hafa verið í slíkum efnum á ríkisstjórnarheimilinu og vona sannarlega að því hafi nú þegar verið kippt í lag og held reyndar að svo hljóti að vera.

Ég ætla ekki að ræða sérstaklega þann lista sem þingmannanefndin leggur fram um löggjöf sem þau leggja til að verði endurskoðuð. Við erum væntanlega öll sammála um nauðsyn þess þó að okkur muni eflaust greina á um það í einhverjum atriðum hvernig það verði gert.

Ég mun leggja inn í lagabreytingapúkkið á nýju þingi með því að endurflytja frumvarp sem við fluttum 19 þingmenn síðastliðið vor. Verði það frumvarp samþykkt geta þingmenn tekið sér leyfi frá þingstörfum á meðan þeir gegna ráðherraembætti. Þetta er atriði sem ég tel að skipti miklu máli í því að skilja betur á milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Ég vona sannarlega að það fái framgang hér í þinginu og að sú venja leggist af, sem löngum virðist hafa ríkt hér á bæ, sem er að fólk telji að ýmislegt megi færa til betri vegar en það sé bara ekki akkúrat tíminn til þess núna. Ég held einmitt að við súpum seyðið af því að menn hafi haft góðan vilja en ekki gert neitt í málunum. Svoleiðis háttsemi þurfum við að breyta.