138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:12]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil líkt og aðrir þingmenn byrja á því að þakka þingmannanefndinni fyrir vel unnið en vandasamt verkefni sem fólst í því að vinna úr niðurstöðum rannsóknarnefndar þingsins. Ég vil ekki síður nota tækifærið og þakka rannsóknarnefnd Alþingis, undir forustu Páls Hreinssonar, fyrir tímamótarannsókn hennar sem markar þáttaskil í íslensku samfélagi. Niðurstöður hennar eru falleinkunn fyrir marga þætti í okkar ágæta samfélagi á því tímabili sem rannsóknin tekur til. En nú eru aðrir tímar runnir upp og ég vona að það sé full einlægni og einurð meðal okkar alþingismanna að hrinda veigamiklum úrbótum í framkvæmd.

Skýrsla þingmannanefndarinnar er mjög áhugaverð, ekki síst fyrir nýjan þingmann eins og þann sem hér talar. Hún varpar skýru ljósi á hlutverk Alþingis og veikleika þess sem m.a. átti ríkan þátt í hruni samfélags okkar. Í skýrslunni er minnt á skyldur þingsins um eftirlit og aðhald og rétt þingmanna til upplýsinga, ekki síst þeirra sem eru í minni hluta hverju sinni. Við eigum að stunda ábyrga og málefnalega umræðu með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Þetta er gott veganesti fyrir nýjan þingmann og tilfinning mín er sú eftir mjög stutta þingsetu að þetta séu vinnubrögð sem nýir þingmenn vilja almennt viðhafa.

Í nefndum er oftast nær unnið af einurð og á mínum stutta ferli hef ég m.a. átt sæti í tveimur nefndum sem hafa leitt mikilvæg mál til lykta í fullri sátt og trúnaði meiri og minni hluta. Annars vegar er það félags- og tryggingamálanefnd sem afgreiddi lög um skuldavanda heimilanna og hins vegar umhverfisnefnd sem afgreiddi skipulagslög, tvö lagafrumvörp sem voru mjög erfið en full sátt og eining ríkti meðal meiri og minni hluta um að leysa málið með hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi.

Ég fagna tillögu þingmannanefndarinnar um að alþingismenn setji sér siðareglur. Ferlið sjálft, og það þekki ég úr mínum fyrri störfum, þ.e. þegar hópur mótar sér siðareglur, er ekki síður mikilvægt en reglurnar sjálfar. En alþingismenn koma og fara og því skiptir miklu máli að skráðar siðareglur séu til staðar. En fyrst og fremst er það auðvitað siðferði hvers og eins sem skiptir máli. Ef það er ekki í lagi skipta skráðar reglur engu máli.

Þá fer ég í þann kafla sem heitir Kynjagreining og er að finna í viðauka skýrslunnar. Þar er að finna áhugaverða greiningu á skýrslu rannsóknarnefndar út frá kynjafræðilegu sjónarmiði. Eins og ég segi er þetta áhugaverð greining og staðfesting á því sem áður var vitað, þ.e. að það voru siðlausir karlmenn sem léku aðalhlutverkin í hruninu og aðdraganda þess. Þetta á sem betur fer ekki við um alla karlmenn en í þessu tilfelli voru það siðlausir karlmenn sem léku aðalhlutverkin í hruninu.

Það er samdóma álit rannsóknar- og þingmannanefndarinnar að það eru stjórnendur og aðaleigendur fjármálafyrirtækjanna sem bera mesta ábyrgð á hruninu. Öll vitum við að það voru gírugir karlar sem þar réðu för, karlar sem töldu sig hafna yfir lög og reglur samfélagsins bæði skráðar og óskráðar. Konur voru jaðarsettar eins og það er kallað í skýrslunni, þ.e. þær fengu að vera á jaðrinum og þá oftast sem eins konar skrautfjaðrir, sem eins og allir vita duga skammt í langflugi.

Það er með ólíkindum að svo fámenn þjóð eins og við Íslendingar erum skuli ekki bera gæfu til að nýta alla þá visku sem þegnar þessa lands, bæði konur og karlar, búa yfir. Því miður er ég ansi hrædd um að við höfum lítið lært af hruninu í þessum efnum, ég vil ekki segja ekkert en við höfum lítið lært af hruninu í þessum efnum því að margt bendir til þess að konur séu enn jafnjaðarsettar í fjármálakerfinu, a.m.k. ef marka má skipurit sem er að finna á heimasíðum þriggja helstu banka landsins. Það sést meðal annars á heimasíðu Landsbankans að af 14 æðstu stjórnendum bankans eru 3 konur, aðeins 3 konur af 14 í æðstu stjórnendastöðum Landsbankans. Sömu sögu er að segja af Íslandsbanka en af 14 æðstu stjórnendum þess banka eru aðeins 5 konur. Staðan í Arion banka virðist ögn skárri en í hinum tveimur en þar eru 8 konur í hópi 15 æðstu stjórnenda bankans samkvæmt heimasíðum bankanna þriggja.

Sem sé, aðeins þriðjungur æðstu stjórnenda í stærstu bönkum landsins eru konur þrátt fyrir niðurstöðu nefndanna tveggja, þrátt fyrir orðræðu í samfélaginu að nú sé tímabært að konur og raddir kvenna, sjónarmið og reynsla, skipti máli í uppbyggingu samfélagsins. Samt sem áður er staða þessi nú þegar við höfum tækifæri til að byggja upp nýtt fjármálakerfi. Ég spyr þess vegna: Höfum við ekkert lært?

Svo má geta þess í framhjáhlaupi í þessu sambandi að það getur kannski talist frekar óheppilegt að það skuli vera karlar sem leiddu störf þessara tveggja mikilvægu nefnda án þess að ég sé nokkuð að kasta rýrð á þeirra störf. Eins og áður hefur komið fram met ég þau mikils. En nöfn þeirra munu þannig bætast á þann langa lista karlmanna sem teljast hafa markað íslenskt samfélag í sagnfræði framtíðarinnar.

Fyrir börn framtíðarinnar sem lesa sögu Íslands og sagnfræði verða þessi nöfn enn þá greypt og bætast við þennan langa lista og það er umhugsunarefni nú þegar við höfum tækifæri til að breyta. En ég vil ítreka og ég vil geta þess sérstaklega að Atli Gíslason, formaður þingmannanefndarinnar, og þingmannanefndin öll á heiður skilið fyrir að láta greina skýrslu rannsóknarnefndar út frá kynjafræðilegu sjónarmiði og ég held að þarna sé komin greining sem muni marka tímamót í allra umræðu um kynjafræði og kynjagreiningu.

Virðulegi forseti. Þá er komið að stjórnsýslunni. Að mati þingmannanefndarinnar er skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis áfellisdómur yfir íslenskri stjórnsýslu. Kemur þar ýmislegt til, svo sem slælegt verklag, skortur á formfestu, óljóst ábyrgðarsvið og fleira. Þetta á bæði við um ráðuneyti og undirstofnanir þeirra, hvort heldur sem þær lúta sjálfstæðri stjórn eða heyra beint undir ráðherra. Íslensk stjórnsýsla er því miður ekki skipuð okkar besta fagfólki á hverju sviði. Hún líður fyrir pólitískar ráðningar í gegnum tíðina. Stjórnmálaflokkar hafa allt of oft notað stjórnsýsluna sem hreiður fyrir flokksgæðinga til að tryggja völd sín sem víðast. Þetta er ólíkt því sem við þekkjum í nágrannalöndum okkar þar sem góð og fagleg stjórnsýsla er álitin einn af hornsteinum lýðræðisríkja. Það er t.d. sláandi að lesa hvernig ákvörðun um yfirtöku Glitnis var tekin án þess að stuðst væri við fagleg gögn eða þekkingu. Þetta var stjórnvaldsákvörðun byggð á pólitískum geðþótta. Um stjórnvaldsákvarðanir gilda ákvæði stjórnsýslulaga þar sem settur er rammi m.a. um hvernig skuli standa að slíkum ákvörðunum. Rannsóknarregla stjórnsýslulaganna kveður á um að mál séu nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin þannig að á stjórnvöld er sett ákveðin skylda til að kalla eftir upplýsingum og gögnum áður en ákvörðun er tekin eins og segir í 10. gr. stjórnsýslulaga. Þessi regla var þverbrotin og þarna réðu enn og aftur karlar sem töldu sig hafna yfir lög og reglur þessa lands. Ég verð að segja að það sló mig í umræðunni í gær, þegar hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var í ræðustóli og taldi sem svo að það væri eðlilegt að ekki hefði verið hægt að halda minnispunkta frá þessum fundum þessa helgi. Það er óþægilegt að heyra að menn á Alþingi og víðar séu enn þeirrar skoðunar að það sé óþarfi að halda fundargerðir og skrifa minnispunkta þegar teknar eru jafnmikilvægar ákvarðanir og þessi.

Innan Stjórnarráðsins er sú menning ríkjandi að til að hljóta frama sé mikilvægt að sýna íslenska varfærni en ekki hafa mikið frumkvæði og ekki standa uppi í hárinu á yfirboðurum sínum, sama hversu alvarleg mál eru til umræðu. Þetta er meðal annars hægt að lesa úr skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Stjórnarráðið er í eðli sínu íhaldssamt og varfærið en þegar varfærnin er farin að standa í vegi fyrir framfaramálum og góðri stjórnsýslu er nauðsynlegt að huga að stofnanamenningunni en ekki bara forminu. Við verðum að efla frumkvæði og kraft starfsmanna Stjórnarráðsins og umbuna þeim sem þora að benda á að keisarinn sé nakinn. Því hefur verið öfugt farið. Formbreytingar skila engu nema þeim fylgi breyttur hugsunarháttur. Það hefur oft verið rætt um nauðsyn þess að koma á fjölskipuðu stjórnvaldi líkt og í Svíþjóð og þá hugmynd styð ég. Mér finnst hún allrar skoðunar verð og ég held að hún yrði okkur til framdráttar. Slíkt fyrirkomulag þýðir meðal annars að allir ráðherrar ríkisstjórnarinnar standa að ákvörðunum og embættisfærslum hver annars. Er ekki líklegt að ráðherrar hefðu heykst á pólitískum ráðningum ef svo siðlaust athæfi hefði þurft samþykki allrar ríkisstjórnarinnar svo að dæmi sé tekið.

Þá örlítið um eftirlitsaðilana. Veikir eftirlitsaðilar og röng innleiðing tilskipana Evrópusambandsins er meðal þess sem orsakaði hrunið á Íslandi. Það kemur fram í báðum nefndum. Þingmannanefndin leggur til ýmsar úrbætur á þessum sviðum sem ég tek undir og veit að farið er að undirbúa. Það er einkum tvennt sem ég vil þó vekja athygli á í þessu sambandi. Það er annars vegar þjónustutilskipun Evrópusambandsins sem nýlega var samþykkt með fyrirvara á þinginu að innleiða í íslenskan rétt. Ég tel að tilskipunin muni hafa mjög jákvæð áhrif hér á landi en vek athygli á því að sérstaklega þarf að vanda til hlutverks heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga sem fær með tilskipuninni aukið og yfirgripsmikið hlutverk sem getur hugsanlega haft í för með sér talsverðan aukakostnað sé ekki rétt á málum haldið. Þetta veit ég vegna þess að ég lagði mjög mikinn tíma í að ræða þessa tilskipun og hlutverk sveitarfélaga í starfi mínu í Brussel fyrir Samband íslenskra sveitarfélaga og það er að mjög mörgu að hyggja þegar kemur að innleiðingu þjónustutilskipunarinnar þó að markmið hennar og megininntak sé mjög jákvætt fyrir íslenskt samfélag. En þjónustutilskipunin er gott dæmi um tilskipun sem Íslendingar geta sjálfir haft mikil áhrif á, hvernig hún er innleidd hér á landi. Fákunnátta og hræðsla við að laga tilskipun að íslenskum aðstæðum eins og raunin varð með tilskipun um fjármálastofnanir má ekki endurtaka sig. Það er eitt af grundvallarprinsippum þjónustutilskipunarinnar að stjórnvöldum, bæði ríki og sveitarfélögum, er heimilt að skilgreina hvaða þjónusta skuli vera í almannaþágu. Það er reginmisskilningur að Evrópusambandið ákveði það. Það er ákvörðun hvers aðildarríkis að ákveða, skilgreina með lögum, hvaða þjónusta telst svo rík af almannahagsmunum að hún verði eingöngu veitt af opinberum aðilum. Þetta er hins vegar pólitíkin sem við ræðum þegar við innleiðum tilskipanir eins og þessa. Við megum aldrei trúa því að við þurfum að þýða þjónustutilskipanir orðrétt, við þýðum reglugerðir Evrópusambandsins en þjónustutilskipanir eru nálægt því sem heitir rammalöggjöf á íslensku og við höfum mikið svigrúm til að laga þær að íslenskum aðstæðum.

Þetta leiðir mig aftur að eftirlitshlutverki stjórnvalda sem brást í aðdraganda hrunsins og það er að á fund samgöngunefndar í gær kom eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sem var að gera nefndinni grein fyrir fjármálalegri stöðu sveitarfélaga í framhaldi af umræðum í fjölmiðlum. Á fundinum kom fram að sveitarfélög líta gjarnan á það sem áfellisdóm að setja sig í samband við nefndina eins og þeim ber lögum samkvæmt ef í óefni stefnir. Á sama hátt líta sveitarfélögin á það sem áfellisdóm ef þeim berst bréf frá nefndinni og menn hlaupa yfirleitt í vörn við slík tíðindi. Af því leiðir að oft er farið með hlutverk og aðgerðir eða athafnir eftirlitsnefndar um fjármál sveitarfélaga eins og mannsmorð. Við þurfum ekki að líta lengra aftur en til sveitarfélagsins Álftaness þar sem íbúar sitja í súpunni vegna ógætilegrar og óhóflegrar fjárfestingar sveitarstjórnarmanna langt umfram getu með þeim afleiðingum að skerða þarf þjónustu við íbúana svo mjög að það fer að verða spurning hvort það geti talist almennt norrænt velferðarsamfélag, sú þjónusta sem þar er boðið upp á. Við megum ekki vera hrædd við eftirlitsaðilana. Við eigum að styðja við þá og þeir eiga að hafa fullt frelsi til að vara við yfirvofandi hættum og við eigum að læra af því að það þýðir ekki að fara út í orðræðu um að hér sé allt í stakasta lagi og engin ástæða til að hafa áhyggjur.

Í skýrslu þingmannanefndarinnar er vikið að fjölmiðlum og hlutverki þeirra. Því miður hefur þróun fjölmiðlanna hér á landi verið með nokkuð öðrum hætti en í nágrannaríkjum okkar að því leyti að samkeppnin hefur ekki orðið til að bæta þá heldur hefur vinnubrögðum þvert á móti hrakað og hér á ég fyrst og fremst við fréttaflutning og samfélagsumræðu. Í nágrannaríkjum okkar þykir sjálfsagt í öllum fjölmiðlum sem taka sig alvarlega að halda í heiðri þá reglu að leita allra sjónarmiða í hverju máli. Sums staðar eru ákvæði í lögum í þá veru og öllum ríkisfjölmiðlum í Evrópu er gert að starfa í þessum anda, líka Ríkisútvarpinu og það er ítrekað í 2. gr. reglna um fréttastofu RÚV. En fer Ríkisútvarpið eftir þessum reglum eða hefur það líka fallið í þá gryfju að opna fyrir krana og leita ekki annarra sjónarmiða? Við vitum hvert svarið er og við vitum væntanlega líka að ekki er hægt að kenna samdrætti eða slæmum efnahagsfjölmiðli um ritstjórn og fréttastjórn sem gengur út á það að fréttir eru söluvara en ekki samfélagsleg þjónusta.

Í frumvarpi til fjölmiðlalaga er reynt að koma þeirri hugsun á framfæri að fjölmiðlar séu ekki eins og hver önnur viðskiptastarfsemi heldur lúti þeir einnig öðrum lögmálum sem helgast af samfélagslegri stöðu þeirra. Viðbrögðin við frumvarpinu hafa hins vegar sýnt að kannski erum við svo langt frá öðrum þjóðum í Norður-Evrópu að sú hugsun að samfélagsleg ábyrgð gangi framar gróðavon er mönnum framandi.

Frú forseti. Ýmsum af þeim úrbótatillögum sem settar eru fram í skýrslu þingmannanefndar hefur nú þegar verið ýtt úr vör eins og fram kom í ræðu hv. þingmanns og forseta Alþingis, Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, í ræðustól í gær. Mörg þeirra hafa verið baráttumál Samfylkingarinnar til margra ára og því fögnum við þeim áfanga sem hefur náðst með starfi nefndarinnar, og ég treysti því að við munum fylgja þeim ríkulega eftir.

Eitt af mikilvægustu baráttumálunum er þó ekki í höfn og það er það baráttumál Samfylkingarinnar að Ísland verði formlegur og fullgildur aðili að sambandi Evrópuþjóða. Margt af því besta í löggjöf okkar er sprottið úr ranni Evrópusambandsins og það er sannfæring mín eftir lestur skýrslnanna tveggja að okkur muni betur farnast við uppbyggingu samfélagsins í samfélagi við aðrar þjóðir en ein og sér. Af því að ég er farin að tala um Evrópusambandið og okkar alþingismanna bíður það verkefni að fjalla um ráðherraábyrgð leiði ég hugann að því hvort hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sé núna í miðjum klíðum við að brjóta lög um ráðherraábyrgð. Ég skal ekki dæma um það en ég leiði hugann að því.

Í svari við fyrirspurn minni í síðustu viku, um það hvort hann og ráðuneyti hans tæki þátt í að undirbúa Ísland undir hugsanlega þátttöku í Evrópusambandinu, staðfestir hann að ráðuneytið sem hann fer fyrir hafi ákveðið að taka ekki þátt í þeim undirbúningi. Ég velti því fyrir mér að ef til aðildar Íslands að Evrópusambandinu kemur og ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála hefur staðfastlega ákveðið að taka ekki þátt í undirbúningi þá blasir það við að íslenskir bændur og útgerðarmenn og allir þeir sem vinna við sjávarútvegs- og landbúnaðarmál standa langt að baki öðrum stéttum í þessu samfélagi, ég tala ekki um að baki kollega sinna í Evrópu. Því spyr ég, frú forseti: Er tilefni til að hafa áhyggjur af því að hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra gangi á svig við 2. og 4. gr. laga um ráðherraábyrgð eða er ráðherrum í sjálfsvald sett að ákveða samkvæmt eigin geðþótta að málefni henti þeim ekki og því geti þeir haldið málaflokkum sínum utan við eðlilega þróun?