138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:32]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Hv. þingmaður kom m.a. inn á í ræðu sinni að íslensk stjórnsýsla liði fyrir pólitískar ráðningar, hún væri ekki skipuð okkar hæfasta fólki. Mig langar að spyrja hv. þingmann, í ljósi þeirra atburða sem hafa gerst á undanförnum árum og fram hefur komið í þingsölum að sennilega hafi aldrei verið jafnmikið um pólitískar ráðningar í ráðuneytin eins og akkúrat núna undanfarna mánuði, hvort hún geti verið sammála mér um að lítið eða ekkert hafi breyst, a.m.k. ekki til batnaðar.

Eins langar mig að spyrja hv. þingmann hvort ekki væri eðlilegra, eins og oft hefur verið viðrað í umræðunni, að hafa alveg skýrar reglur, sem ég teldi mjög skynsamlegt, þegar verið væri að skipta út ráðherrum. Þeir hefðu þá ákveðinn fjölda aðila, aðstoðarmanna og einhverja, með sér í ráðuneyti en þeir færu þá líka jafnframt út þegar ráðherrarnir hættu og það yrði sett í löggjöfina.

Síðan kom hv. þingmaður réttilega inn á þjónustutilskipanir Evrópusambandsins. Ég er algerlega sammála henni um að fjalla um hana sem eins konar rammalöggjöf og að við höfum mikið svigrúm til að aðlaga þær að íslenskum aðstæðum. Nú veit ég að hv. þingmaður hefur töluverða reynslu eftir að hafa verið úti í Brussel og því vil ég spyrja hana hvort ekki þurfi að breyta því formi sem hefur verið hér á undanförnum árum og áratugum, að mál frá ESB séu afgreidd í gegnum þingið af því að þau koma þaðan, að vanda þurfi vinnubrögðin þegar við tökum upp þessar tilskipanir til að nýta okkur, eins og hv. þingmaður vék að í ræðu sinni, það svigrúm sem við höfum til að aðlaga þær íslensku samfélagi.