138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:38]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka aftur hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir spurninguna. Ég held að það sé mjög skynsamlegt að horfa til þess núna, bæði þegar við breytum stjórnsýslu ríkisins, sameinum stofnanir og stokkum upp, að við veltum fyrir okkur hvort verkaskipting á milli ríkis og sveitarfélaga sem nú er við lýði og er fyrirhuguð sé sú rétta, en hún verður aldrei endanlega meitluð í stein.

Ég hef sagt það á fundum nefnda, einkum félags- og tryggingamálanefndar, að ég telji að umræðu um stofnun t.d. Vinnumarkaðsstofnunar m.a. með sameiningu Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlits ríkisins eigi að fylgja eftir. Ég tel skynsamlegt að sameina hluta af Vinnueftirliti ríkisins og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga. Mér finnst það mun skynsamlegra eða tel að í því felist hagræði. Ég held líka að vert sé að skoða hvort ekki sé skynsamlegt að flytja heilbrigðiseftirlitið aftur til ríkisins vegna þess að ég tel þau verkefni sem það innir af hendi ekki vera hluta af nærþjónustu íbúanna. Þau eru sannarlega hluti af nærþjónustu fyrirtækja í sveitarfélaginu en mér finnst eðlilegra að ríkið, eða ég er a.m.k. tilbúin að skoða það, taki yfir heilbrigðiseftirlitið. En með innleiðingu þjónustutilskipunar Evrópusambandsins fá þau mjög viðamikið hlutverk. Nú hef ég ekki fylgst nákvæmlega með innleiðingu hennar hér á landi en grunnhugsunin er sú að Heilbrigðiseftirlit Austurlands gæti lent í því að þurfa að sinna heilbrigðiseftirliti í Ungverjalandi ef fyrirtæki á Austurlandi tæki upp á því að opna útibú þar. Þetta verkefni ætti auðvitað að leysa rafrænt eins og kostur er en það er m.a. grunnhugmyndin í þjónustutilskipun Evrópusambandsins. Mér finnst of mikið á sveitarfélögin lagt eða heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga.