138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[11:44]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nú er það svo að samkvæmt stjórnarskrá erum við hv. þingmenn í þinginu bundnir af okkar eigin sannfæringu. Það er ekkert sem stendur í stjórnarskránni að okkur beri að framfylgja stefnu Samfylkingarinnar í einu og öllu. Það mun ég a.m.k. aldrei gera. Ég vil þrátt fyrir orð hv. þingmanns í andsvari sínu, sem dró aðeins úr því sem kom fram í ræðunni, brýna þingmanninn til að tala varlega þegar við ræðum um lögin um ráðherraábyrgð. Það eru þungar ásakanir að ýja að því að menn séu að brjóta þau lög með athöfnum eða athafnaleysi.

Hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem ekki er í salnum til að verja sig akkúrat núna, hefur frá upphafi gert öllum landsmönnum sem og þinginu og ríkisstjórn grein fyrir þeirri afstöðu sinni að hann telji það ekki íslensku þjóðinni í hag að ganga í Evrópusambandið. Það hefur legið ljóst fyrir frá upphafi.

Mig langar að minna á að við þurfum að gæta að hófstilltum málflutningi þegar við ræðum þau erfiðu mál sem snúa að ráðherraábyrgðinni. Ég tel því rétt að menn kveði ekki hálfkveðnar vísur og ýi að því að ráðherrar séu að brjóta þau lög nema þeir hafi eitthvað meira í höndunum en hv. þingmaður hefur fært fram í máli sínu.