138. löggjafarþing — 161. fundur,  15. sept. 2010.

skýrsla þingmannanefndar til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

705. mál
[12:39]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna síðustu orða hæstv. umhverfisráðherra þá hef ég rekist á það marga kjósendur í Suðurkjördæmi, mínu kjördæmi, sem greiddu VG atkvæði sitt vegna skýrrar andstöðu flokksins við aðild Íslands að ESB, að ég held að hv. þingmenn þess ágæta flokks ættu aðeins að íhuga það. Sú skýra stefna sem hv. þingmenn þess flokks hafa nú vikið frá færði þeim aukið vægi hér í þinginu. Ég tel að menn þurfi aðeins að sýna því virðingu þótt það sé væntanlega of seint í rassinn gripið.

Ég kem hér í andsvar til þess að ræða aðeins um stóriðju og þær fjölmörgu fullyrðingar sem fram komu í máli hæstv. ráðherra varðandi afstöðu kvenna til stóriðju, sem var einhvern veginn á þá leið að konur ynnu ekki í álverum og konur væru almennt á móti stóriðju. Ég skildi alla vega hæstv. ráðherra þannig. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra leiðrétti mig af því að ég hlýt að hafa heyrt vitlaust.

Ég er kona og ég hef ekkert á móti stóriðju. Ég vil að við förum í atvinnuuppbyggingu og ég vil að við setjum okkur það markmið að horfa til þess að hér gengur fullt af fólki, konum og körlum, atvinnulaust um göturnar og þetta fólk vill fara að fá svör frá stjórnvöldum, frá þessu ábyrga stjórnmálaafli, VG, um það með hvaða hætti menn ætli að takast á við þann stóra vanda. Ég heyrði ekki betur en að hæstv. ráðherra væri að furða sig á því að orkufyrirtækin væru að fara í rannsóknir á því hvort hægt væri að virkja jarðvarmann meira. Ég er bara ekkert hissa á því að menn ætli sér að reyna að nýta kosti landsins til þess að byggja frekar upp og koma á fót frekari tækifærum fyrir fólk til þess að fá vinnu. (Forseti hringir.) Ég er bara hálforðlaus, hæstv. forseti, og þarf að fá nánari útskýringar.